Í morgun voru „tíu bestu framhaldsskólarnir“ listaðir upp í Fréttablaðinu eftir því hversu vel þeir standa sig í Morfís, Gettu betur, eðlisfræðikeppni, frammistöðu í íþróttum og menntun kennaranna. Í sjónvarpinu í kvöld var spjallað við fólk á elliheimili. Í ljós kom að margir þjást af þunglyndi og að aðbúnaður er mjög misjafn. Mér þætti gaman að sjá lista yfir 10 bestu elliheimilin á landinu í blaðinu á morgun.
Skólakerfið
Hótel Hekla
Ég var á námskeiði í síðustu viku um menntun til sjálfbærni (sjá td. hér), bæði fróðlegt og skemmtilegt. Námskeiðið var haldið á Hótel Heklu á Skeiðunum, frábæru sveitahóteli sem ég verð að mæla með. Þar er allt í þægilegum kántrístíl, starfsfólkið elskulegt og skemmtilegt og maturinn alveg frábær. Ég er enn að hugsa um rauðsprettuna og mangóísinn góða með rósapiparnum, þvílík veisla. Þarna var mikið pælt í framtíðarmöguleikum Íslands og heimsins alls í hátækniheimi neyslu- og gróðahyggju, virkjunum, mengun, velferð og lýðræði; djúpar pælingar í gangi og hlutverk þátttakenda er að huga að þessu hugtaki, sjálfbærni, (sem er síður en svo einfalt mál) í námskrárgerð fyrir framhaldsskóla framtíðarinnar.
Saga hlutanna
Hér er myndband sem ALLIR ættu að horfa á og læra af: Story of Stuff with Ann Leonard.
Fyrirlestur
Hér er hressilegt erindi sem er gott fyrir okkur skólafólk að hlusta á:
http://www.youtube.com/watch?v=mhssZCE2E8Y
Niðurskurður
Í Menntaskólanum í Kópavogi á að skera niður í rekstri um 65 milljónir króna skv. fjárlögum. Það þýðir að það þarf að segja upp 10 kennurum og hafna um 100 umsóknum nemenda. Hvað fara þessir kennarar að gera? Þeir fara flestir á atvinnuleysisbætur. Hvað gerir þetta unga fólk sem hvergi fær skólavist? Það er viðbúið að það fari flest á atvinnuleysisbætur, hangir svo í tölvunni og yfir sjónvarpinu, leiðist út í afbrot og fíkniefni, þunglyndi og örvæntingu. Er öruggt að þetta sé einhver sparnaður þegar horft er til lengri tíma? Það eru nógir peningar til, er etv hægt að hagræða og nota peningana skynsamlegar í stað þess að skera niður?
Niðurskurður

Menntaskólinn í Kópavogi
Í Menntaskólanum í Kópavogi eru einstaklega góðir kennarar með mikinn metnað og trausta þekkingu á sínu fagi. Löngum hefur raungreinakennslan verið eitt af flaggskipunum, kennararnir reyndir og vinsælir, aðstaðan til fyrirmyndar og nemendur fá 2 verklega tíma aukalega í hverri viku til að gera tilraunir í eðlis- og efnafræði, líffræði og náttúruvísindum. Nemendum MK hefur vegnað mjög vel í raunvísindum á háskólastigi. En nú er komið að því að spara enn og aftur í MK, okkur er uppálagt að skera niður um 23 milljónir á þessu ári. Þar sem búið er að halda skólanum í helgreipum árum saman er ekki af miklu að taka en viðbúið er að þessir verklegu tímar verði meðal þess sem verður látið fjúka. Það er veruleg eftirsjá að þeim en það er sárt þegar maður veit að sama upphæð verður sett í að borga einhverjum embættismönnum blóðug biðlaun eða starfslokagreiðslur þegar þeir eru látnir fara vegna vanrækslu sinnar, græðgi og sérgæsku.
Myndin af guði
Sir Ken Robinson heldur magnaðan ræðustúf um það hvernig skólakerfið drepur niður sköpunargáfu nemenda:
