Veitingahús

Dancing House

IMG_9370

Á tíunda áratugnum reis hið svonefnda Dancing House í Prag (Tančící dům), stundum kallar Fred and Ginger þar sem lögun hússins minnir á það fótafima danspar. Amerískur arkitekt, Frank Gehry, teiknaði húsið og ætlaði það aðallega fyrir menningartengda starfsemi. Núna er þar frekar dauflegt og aldrei dansað; tómar skrifstofur og auðir salir á hverri hæð, en efst er rándýr veitingastaður og lítill bar, þaðan er útgengt á þakið sem er skreytt með nýstárlegri kórónu. Myndin er tekin þar.

Skólabrú

Borðaði á Skólabrú á föstudagskveldið. Huggulegur staður, þjónarnir gerðu sitt besta þótt ekki bæru þeir sig sérlega fagmannlega að og maturinn var ágætur. Fékk mér saltfisk sem bragðaðist mjög vel og ís í eftirrétt, þrjár ískúlur voru allar eins á  bragðið. Tveir borðfélagar fengu sér sjávarréttadisk með hrísgrjónum sem var miklu minni skammtur en saltfiskur og steinbítur með mangó. Fjögur stök rauðvínsglös eru ódýrari en ódýrasta flaskan á vínlistanum. Umhverfið er  notalegt en þegar leið á kvöldið fylltist staðurinn af þýskum ljósritunarvélasölumönnum sem höfðu hátt, borðuðu lambakjöt af tacky sverðgrilli. Maturinn á Skólabrú er of dýr miðað við gæði og þjónustu.

Grillið á Sögu

Var boðið á Grillið á Sögu um helgina. Grillið á sér 50 ára sögu sem er afar sjaldgæft í íslenskum veitingarekstri. Nýlega er búið að gera staðinn upp á mjög skemmtilegan hátt. Haldið er í það gamla og poppað upp með nýju, gamlir stólar smekklega yfirdekktir og loftið með astra-hringum fræga ljósmálað. Flott skilrúm við barinn, smart snakk með (dýrum) drykkjum. Útsýnið alveg frábært yfir vesturbæinn. Í boði var sjö rétta máltíð með sérvöldu víni. Hver rétturinn öðrum betri og vínið passaði snilldarlega vel með, alveg himneskt fram að eftirrétti en hann hitti ekki alveg í mark, eitthvað súkkulaðikám með grænum baunum, hvorki fallegt né sérlega bragðgott, og óspennandi desertvíni. Uppistaðan var fiskréttir, hægreykt bleikja, rauðspretta, æðislegar rauðrófur, dásamlegt. Lambakjötið bráðnaði í munninum og sósan með var af bestu gerð. Silfurhnífapör féllu vel að frábærri þjónustu faglærðra framreiðslumanna og listilega elduðum mat. Ánægjuleg kvöldstund, toppgæði og þjónusta í fallegu umhverfi. Verð fyrir sjö rétti með víni: 20.400 kr. Þetta er bara einu sinni á ári.

Happy hour á hótel Marina

Happy hour á Hótel Marina er svo sannarlega hamingjustund. Sat þar á Slippbarnum í gærkvöldi og fékk gott Masi-rauðvín og skemmtilegan og bragðgóðan mat: flatböku með greip, chili, perum og geitaosti sem var afar góð og bruschettu með gröfnum laxi sem var ágæt. Marengsrétturinn Guðdómlegt gums með berjum, salthnetum og súkkulaðirúsínU var góður en doldið lítill skammtur. Alls staðar voru litlir, kátir hópar í kósí hornum að gera sér dagamun og gæða sér á eðaldrykkjum á viðráðanlegu verði –  til kl 19 amk. Umhverfið er afar smart og þjónustan alveg til fyrirmyndar, allir glaðlegir og skemmtilegir. Ég mæti aftur, ekki spurning.

Roadhouse-rýni

Nýir veitingastaðir hafa sprottið upp eins og gorkúlur um allan bæ á síðustu árum og hamborgarastaðir virðast blómstra sem aldrei fyrr. Roadhouse er á Snorrabraut og sérhæfir sig í hamborgurum að hætti Kanans, amerískum bjór (Flying Road Dog af matseðlli var reyndar ekki til), heimagerðum frönskum og barbekjú- og grillsósum. Staðurinn er stór og hrár og hátt til lofts, sem er smart en verst er að það glymur í öllu, þarna voru nokkrir hávaðasamir og kátir hópar að fá sér hammara og það fór ekki fram hjá neinum hvað þeim fór á milli. Þjónustan var fín, margir þjónar og allir á þönum. Ekkert var gefið upp um hvaða rauðvín væri í boði en glasið kom fljótlega á borðið og bragðaðist ágætlega. Kókið var úr kút en ekki flösku eins og hefði mátt búast við á svona stað. Cadillac hamborgari með gráðosti var með of miklu ostabragði, frábærum rauðlauk og kartöflurnar voru stökkar og góðar. Grillaður lax með kartöflu-„grit“ og brimsöltu brokkólí var mjög góður. Ekkert er verið að vesenast með salat með réttunum. Þetta eru alvöru kaloríubombur, ekta almennilegir og metnaðarfullir hamborgarar og grillréttir, sæmilega skikkanlegt verð m.v. gott hráefni (hammari 1890 kr, lax 2390) stuð á staðnum og ég mæli með að tjekka á þessu.

Zuma-stemning

Við fórum út að borða í gærkvöldi í tilefni af Food and Fun-hátíðinni . Í Veisluturninum á Nítjándu hæð var boðið upp á matreiðslu gestakokka frá Zuma  í London en þangað fórum við fyrir nokkrum árum og fengum dýrðlegan mat. Þannig var það í gær líka, alveg sama hvaða rétt við fengum, allt var hrikalega gott og girnilegt! Nautaribeye sem ég annars borða aldrei var frábært og sósan ólýsanleg, ekki dropi af rjóma í henni. Zuma er japanskur staður og stemningin í Veisluturninum var japönsk, sushi og sake eins og hver vildi. Doldið dramatískt að á meðan við vorum að gæða okkur á kræsingunum er allt í upplausn þar í landi, neyðarástand og þjóðarsorg ríkir þessa dagana meðan við skemmtum okkur og kýlum vömbina.

Austur-Indíafélagið

Ég hef á tilfinningunni að Austur-Indíafélagið viti ekki alveg hvernig veitingahús það vill vera. Þangað fórum við afmælisbörnin þann 7. sl. Það er gott tilboð í gangi í október (fimm réttir á 4990) en desertinn er alltof lítill  og bara hægt að fá eina tegund af hrísgrjónum. Þegar okkur var vísað til borðs stóð tuska og spreybrúsi dágóða stund á næsta borði, sem gerist ekki einu sinni á American Style. Svo virðist sem enginn þjónanna sé faglærður, sumir töluðu enga íslensku og það er sáralítil alúð lögð í þjónustuna. Borðin eru ekki dúkuð en eru snyrtileg, wc-in voru nýlega tekin í gegn. Gestir sitja nálægt hver öðrum á staðnum og oft er hávaðasamt á stórum borðum þegar líður á kvöldið. Verðskráin er eins og á Hilton eða Ritz en maturinn er heitur og hrikalega góður og þess vegna fer ég aftur og aftur þangað til betri indverskur staður býðst.

Fiskfélagið

Eftirréttur frá Indlandi

Okkur var boðið út að borða á Fiskfélagið um daginn. Völdum Heimsreisu, matseðil þar sem kokkurinn ræður, smá smakk af hverjum rétti og farið er víða um lönd. Mér er minnisstæðast finnsk heiðagæs og geitakjöt ásamt dýrðlegum saltifiski frá Portúgal. Ég var orðin pakksödd þegar að kjötréttunum kom. Eftirréttirnir voru rosalega góðir en þá voru bragðlaukarnir orðnir doldið dofnir. Þetta var allt mjög smart og gott á  bragðið en frekar yfirdrifið. Viðeigandi vín var borið fram með  hverjum rétti  og var það mjög vel valið. Flottur staður með retró-lúkki, stólarnir voru doldið harðir, bæði góður og fallegur matur, fín þjónusta líka en ansi dýrt, Heimsreisa með víni kostar 15.900.

Hótel Hekla

Yndislegt sveitahótel

Ég var á námskeiði í síðustu viku um menntun til sjálfbærni (sjá td. hér), bæði fróðlegt og skemmtilegt. Námskeiðið var haldið á Hótel Heklu á Skeiðunum, frábæru sveitahóteli sem ég verð að mæla með. Þar er allt í þægilegum kántrístíl, starfsfólkið elskulegt og skemmtilegt og maturinn alveg frábær. Ég er enn að hugsa um rauðsprettuna og mangóísinn góða með rósapiparnum, þvílík veisla. Þarna var mikið pælt í framtíðarmöguleikum Íslands og heimsins alls í hátækniheimi neyslu- og gróðahyggju, virkjunum, mengun, velferð og lýðræði; djúpar pælingar í gangi og hlutverk þátttakenda er að huga að þessu hugtaki, sjálfbærni, (sem er síður en svo einfalt mál) í námskrárgerð fyrir framhaldsskóla framtíðarinnar.