Uppskriftir

Mínar eigin, ekki verið prófaðar á dýrum

Skúffukaka

Ég hangi heima með flensu. Tókst samt að baka skúffuköku sem var akkúrat tilbúin þegar Inga kom heim úr skólanum:

2 egg (úr frjálsum hænum)
3 dl sykur (þar af ca hálfur dl púðursykur ef vill)
1-2 dl mjólk
4 og hálfur dl hveiti (má blanda með fínmöluðu spelti)
3 vænar tsk vínsteinslyftiduft
150 gr brætt og kælt smjör
2 tsk vanilludropar
3-4 msk kakó (t.d. Rapunzel lífrænt kakó)
smá sjávarsalt
Egg og sykur þeytt saman í hrærivélinni, þurrefnum blandað saman í skál. Þurrefnum, mjólk og bræddu smjöri hellt í hrærivélarskálina til skiptis. Bakað í lítilli skúffu í 20-30 mín við 220°C. Betty Crocker rich and creamy chocolate fudge-krem ofan á og ísköld mjólk með.

Elska þessa hrærivél!

Elska þessa hrærivél!

Hálfmánar

frá Magneu E

 

500 gr hveiti (má skella má spelti saman við)

1 1/2 dl mjólk ca.

200 gr mjúkt smjörlíki

200 gr sykur (hrásykur með)

1/2 tsk kanill

1 tsk lyftiduft (vínsteins)

1/2 tsk hjartasalt

vanilludropar

1 egg

rabarbarasulta 

 

Smjörlíki mulið saman við þurrefnin. Eggi og vanilludropum bætt við. Deigið er síðan hnoðað (í hrærivél) uns það er slétt og sprungulaust. Má bíða í ísskáp yfir nótt ef vill ef maður er orðinn þreyttur eftir þetta. Deigið flatt út og stungið út með glasi, ca. 6-8 cm í þvermál. Sultuskeið á hverja köku (helst rabarbara), brotnar saman um miðju og lokað með gaffl (eða fingrunum). Bakað við ca.120-150°C þar til þeir verða ljósgullnir.

Ananas- og gulrótarsúpa

Afmælissúpan var að hætti Sollu úr Grænum kosti Hagkaupa

2-3 msk ólífuolía, 1 blaðlaukur, 1-3 msk rautt karrímauk, 1-2 hvítlauksrif, 1 cm fersk engiferrót, 1 lárviðarlauf, 4 gulrætur, 1/4 sellerírót, 1/2 lítri vatn, 2 grænmetisteningar (helst gerlausir Rapunzel), 1 dós ananasbitar og safinn, 1 dós kókosmjólk (gjarnan lífræn), sjávarsalt og pipar, ferskt kóríander

Blaðlaukur skorinn smátt og hitaður í olíu í stórum potti í ca 3-5 mín. ásamt karrímauki, pressuðum hvítlauk, smátt skorinni engiferrót og lárviðarlaufi. Gulrótarstrimlum og litlum sellerírótarbitum bætt í og látið malla í 2 mín. Grænmetisteningar og vatn sett út í ásamt ananas og kókosmjólk. Sjóðið í um 15 mín. Salt og pipar, ferskt kóríander klippt yfir og borið fram. Gott að setja soðnar kjúklingabaunir og/eða rauðar linsubaunir út í til að gera súpuna matarmeiri og strá kókosflögum eða möndluflögum yfir.