einelti

Einfalt trikk

Piparkokuhusid-175x276

Piparkökuhúsið er fyrsta bók Carin Gerhardsen og kom út í Svíþjóð 2008. Hún er auglýst í fjölmiðlum hér á landi sem „Spennutryllir sumarsins“ og stendur fyllilega undir því.  Bókin hefst á átakanlegri senu þar sem hópur barna níðist á skólafélaga sínum af stakri grimmd. Sjálf segist Gerhardsen hafa orðið fyrir einelti í skóla svo hún þekkir það af eigin raun.  Í sögunni snýr fórnarlamb eineltis aftur áratugum síðar og tekur til við að myrða kvalara sína með grimmdarlegum hætti. Tveir lögreglumenn í Hammarby vinna aðallega að málinu, Sjöberg, sem er viðkunnanlegur vel giftur margra barna faðir, og einhleypi töffarinn Petra Westman sem lendir sjálf í ofbeldisglæp í sögunni. Þau skötuhjú eru sosum engar ofurhetjur og fara lengi villur vegar við lausn málsins. Lesandinn heldur allan tímann að hann viti meira en löggan en niðurstaðan kemur á óvart og eftir á að hyggja er trikkið í því ótrúlega einfalt.

Dagbókarfærslur morðingjans sem fleyga söguþráðinn sýna glöggt að þolandinn hefur beðið mikið tjón á sálu sinni vegna eineltisins. Grimmdin er heiftarleg, morðunum er lýst í smáatriðum og hefndin felst í að láta gerendur og þá sem efndu til ofbeldisins horfast í augu við glæp sinn áður en líftóran er murkuð úr þeim. „Þið eyðilögðuð ekki aðeins bernsku mína, þið rústuðuð öllu mínu lífi. Það sem þið gerðuð … var að eyðileggja heilt líf. Þú dæmdir mig til að lifa vinalausu og gleðisnauðu lífi í algjörri einangrun…“ (209). Eineltið átti sér fyrst stað í leikskóla og kennarinn sem býr í piparkökuhúsinu horfði framhjá því og  taldi það ekki í sínum verkahring að stöðva það. Boðskapur sögunnar er skýr, skeytingarleysið er jafnstór glæpur og ofbeldið sjálft.  Hver er sekur, sá sem sviptir meðbræður sína lífsgleði og sjálfstrausti með síendurteknu andlegu og líkamlegu ofbeldi,  sá sem skiptir sér ekki af eða sá sem hefnir harma sinna?

Nanna B. Þórsdóttir þýddi bókina ágætlega. Carin Gerhardsen hefur skrifað fleiri bækur um lögreglumennina í Hammarby sem njóta mikilla vinsælda þar í landi og væri gaman að fá að fylgjast meira með þeim. Sagan er vissulega hörkuspennandi og  gott er að gæða sér á Piparkökuhúsi með heitum kakóbolla í sumarrigningunni.