bókmenntir

„Ekkert kann ég fyrir mér nema krossmarkið“

Þóra Jónsdóttir frá Laxamýri hefur sent frá sér samtals níu ljóðabækur auk ljóðaþýðinga og einnar ævisögu. Fyrsta ljóðabók Þóru kom út 1973, Leit að tjaldstæði, og fékk góða dóma gagnrýnenda og ljóðaunnenda. Ekki hefur samt mikið farið fyrir Þóru eða verkum hennar í bókmenntaumræðunni, hvernig sem á því stendur. Víst er og margtalað að skáldkonur njóta ekki allar sannmælis og athygli á við karlskáld burtséð frá hæfileikum og afköstum og á það örugglega við um Þóru.

Bók hennar, Hversdagsgæfa (2010), er allrar athygli verð. Henni er skipt upp í sex hluta sem kenndir eru við viðfangsefni hvers þeirra: Sveitin, Naflastrengurinn, Borgin, Hringferð, Manneskjur og Undur; kunnugleg yrkisefni úr fyrri bókum höfundar. Hér eru á ferð mislöng minningabrot eða ljóðrænar örsögur; beinar hversdagsmyndir og skýrt myndmál um náttúru, hlutskipti kvenna, tímann og tilveruna.

Í sveitaljóðum Þóru er ekki að greina beinlínis söknuð eftir horfnu samfélagi eða fornum búskaparháttum, heldur ber mest á stritinu. Þar segir m.a. af vinnukonu sem í 30 ár hafði m.a. „þann starfa að fela eldinn að kvöldi og taka hann upp fyrir allar aldir. Smávaxin, lotin kona með fortíð sem hún ræddi ekki og lést á bænum frá hlutskipti sínu“ (8). Sagt er frá dúntekju á mjög ljóðrænan hátt, ásamt veiðiskap og hröktu heyi á köldu sumri.

Í kaflanum Naflastrengur er fjallað um fjölskyldubönd, ungbörn og átthagafjötra með nokkrum trega. Ferð er áberandi þema úr fyrri bókum Þóru og hér eru einnig nokkrar stuttar ferðasögur sem tengjast „minningum sem eru styggar og láta sig hverfa jafn ótt og þær birtast“ (47). Sögurnar einkennast af óvæntum atburðum og frelsisþrá.

Í borgarmyndum Þóru er einsemd og reiðuleysi, stakur hanski fýkur á gangstétt, „helmingur af pari, báðir glataðir ef þeir skiljast að“ (31). Þar eru góðar konur sem hengja upp þvott, hjúkra eða keyra strætisvagna og afbrýðisamar konur sem gruna jafnvel hjálpsama vinkonu um græsku. Og hverfulleikinn gerir vart við sig, fólk kemur og fer og tíminn líður: „Ég tek að hugleiða bústaðaskipti. Það sem heldur fastast í mig er litla herbergið í kjallaranum sem birtan leikur um. Birta eitt sinn skilin eftir sem gjöf“ (38).

Í kaflanum Manneskjur gerast óvæntir atburðir, það er t.d. bankað upp á einn daginn og lífið verður aldrei samt aftur. Ástarsambönd, krossgötur og hlutskipti kvenna eru yrkisefni Þóru í þessum bókarhluta og á þeim er tekið af yfirvegun og æðruleysi. Síðasti hluti bókarinnar, Undur, er myndrænni og frjálslegri en hinir og þar er m.a. lausleg tenging við ævintýri og þjóðsögur. Í lokaljóði bókarinnar ríkir einsemd og sú tilfinning að eiga hvergi heima, álfkonan sem vildi búa meðal manna situr alein í eldhúsi sínu og tilheyrir hvorki mannheimi né náttúru álfa lengur (81).

Ágengt þema bókarinnar í heild er hlutskipti kvenna og rödd sögumanns einkennist einnig af samkennd með þeim sem minna mega sín, þeim sem draga ávallt stysta stráið (29). Í Hverdagsgæfu eru kvennasögur, um mæður, eiginkonur og vinkonur. Ekki baráttutextar eða brýningar heldur minningabrot og myndir þar sem konur eru aðalpersónur. Bestu sögurnar eru í bókarlok þar sem losað er um jarðtenginguna, þegar draumar og fantasía taka völdin af hversdagsleikanum:

Hús með meiru

Aldrei hefði leið mín legið á þessar slóðir ef í húsinu

byggi ekki fólk sem mér er hjartfólgið. Grimma

varðhundana þeirra hef ég vingast við. Þjakandi hitann,

svo og krákurnar sem hafa drauma manns í flimtingum

í morgunsárið, hlýt ég að sætta mig við. Sama gildir um

hrottafenginn hlátur þrumunnar og merkjamál

eldinganna fyrir skýfallið. Aðvörun um hvirfilvinda er

vert að taka mark á. Mýflugan suðar um leið og hún

stingur þar sem maður situr í forsælu af tré. Eitt finnst mér

ekki með felldu. Ég vaki allar nætur milli tvö og

fimm, hversu þreytt sem ég er. Í nótt dreymdi mig

nokkuð sem kom mér í uppnám. Mig grunar að

slæðingur sé í húsinu. Ekkert kann ég fyrir mér nema

krossmarkið.

(80)

Birt á skáld.is, 27 júlí 2021

„Minnisvarði um eitthvað sem eitt sinn var“

Guð leitar að Salóme en Salóme leitar að kettinum sínum og skrifar bréf til Helgu en tíu ár er liðin síðan ástarsambandi þeirra lauk með látum. Síðan hafa þær ekki sést. Loksins herðir Salóme sig upp í að krota fortíð sína, sem hún hefur byrgt inni, á kisubréfsefni og senda Helgu eitt bréf á dag, frá 1.-24. desember árið 2010. Þetta er umgjörð frumlegrar bréfaskáldsögu Júlíu Margrétar Einarsdóttur, ástar- og raunasögu úr rammíslenskum aldamótaveruleika, í fjólubláu bandi prýdd grænum glugga með mynd af rúllustiga.

Saga Salóme er samofin sögu formæðra hennar á Akranesi, ömmunnar blíðu sem missti ung manninn sinn, gleðipinnann Pétur, sjómann og tásuskrýmsli sem endalaust nennti að leika við rauðhærðar tvíburadætur sínar, Stellu, móður Salóme, og Láru. Sviplegur dauði hans og meint heimsókn hans framliðins um nótt varð til þess að samband tvíburasystranna rofnaði harkalega og þær héldu hvor í sína áttina. Stella hitti síðan sæta organistann, og Salóme ólst upp við rifrildi, reiðiköst og alkóhólisma sem setja mark sitt á hana, auk eineltis í skóla. Bæði hún og Pétur bróðir hennar eru sködduð eftir meðvirkt uppeldi og trúarinnrætingu föðurins.

Salóme er brotin, hirðulaus „ljósmyndastelpa“ og lúði af Skaganum, eins og hún lýsir sér sjálf, í íþróttagalla og rifinni kápu. Þegar hún flytur að heiman og fær vinnu í búð í Kringlunni kemur „klikkhausinn“ Helga inn í líf hennar og frelsar hana frá einsemdinni. Salóme tekur upp nýtt nafn til að lappa upp á sjálfsmyndina og hefja betra líf í búðinni Betra líf. Í kringum Helgu er djamm, uppátæki og leikir en líka geðsveiflur og sorgardrungi. Þessar týndu sálir sameinast í heitri ást sem heillar Salóme en skömmin er alltaf skammt undan. Samkynhneigð er ekki samþykkt. Og áfram heldur dramað á Skaga, eineltið hættir ekki, systrasambandið lagast ekki og hræðilegur atburður frá því Salóme var 11 ára gleymist ekki.

„Mér fannst svolítið eins og við þræddum í gegnum óraunverulegar minningar, eins og Akranes væri kvikmyndasett um nótt þegar búið væri að slökkva á myndavélinni og allir farnir heim. Minnisvarði um eitthvað sem eitt sinn var, væri ekki lengur raunverulegt, og yrði vonandi aldrei aftur“ (304).

Guð leitar að Salóme er margslungin saga um sársauka og skömm, örlög og erfið samskipti. Sögutíminn er heillandi, um aldamótin síðustu voru samfestingar í tísku, geisladiskar seldir í Skífunni, Myndbönd mánaðarins komu út, stuðið var á Astró, Kóklestin brunaði og BT músin brá á leik. Sögusviðið er sömuleiðis heillandi, þorpið með slúðri og smásálum. Júlía Margrét hefur þetta allt á valdi sínu.

Ástin á sér margar birtingarmyndir en andstæðan við hana er skeytingarleysi (366), það sem ógnar öllu mannlífi. Salóme ætlar að taka af skarið þegar síðasta bréfið hefur verið skrifað, þegar áratugur hefur liðið frá því ástin hvarf úr lífi hennar. Lesendur verða að finna út hvort það er orðið of seint.

Birt á skáld.is, 21. nóvember 2021

„Að búa við farsæld og kynlíf í standard lofthæð“

Óhætt er að segja að bókmenntaumræðan sé fjörug í fjölmiðlunum um þessar mundir. Bergsveinn Birgisson sakar nú Ásgeir Jónsson um ritstuld og Guðmundur Andri er ekki hrifinn af hugmynd Braga Páls um að drepa Arnald Indriðason í samnefndri bók. Einnig spunnust umræður um Systu megin eftir Steinunni Sigurðardóttur sem fjallað var um í Kiljunni nýverið. Þeir Árni Óskarsson og Þorleifur Hauksson skrifuðu grein í Fréttablaðið um að umfjöllunin hefði verið villandi í þættinum, sem Þorgeir Tryggvason svaraði síðan á facebook-síðu sinni. Það er gaman að sjá að enn ólgar blóð í bókmenntaþjóðinni og að fólk nenni að hafa skoðun á skáldskap.

Dolludrós

Umrædd og umdeild bók Steinunnar, Systu megin, fjallar um konu rétt skriðna yfir þrítugt sem lifir undir fátæktarmörkum og utan bótakerfis í ömurlegri kjallaraholu í Reykjavík (mynd á bókarkápu). Hún dregur fram lífið með dósasöfnun og ruslatunnuróti og þarf að velta fyrir sér hverri krónu. Sagan gerist um jól, á einum af þeim tímapunktum ársins þar sem fólk finnur sárast til fátæktar sinnar. Systa man betri daga með gleðilegum jólum á Fjólugötunni og sveitasælu í Fljótshlíð sem gerir hlutskipti hennar síst betra þótt hún orni sér við minningarnar. Ljóst er af þeim hugrenningum að ferlíkið móðir hennar hefur líklega átt við andlega erfiðleika að glíma, kannski afleiðingar skorts í bernsku, og faðirinn var oft fjarverandi á sjónum en sinnti Systu og litla bróður af alúð þegar hann var í landi uns hann féll frá þegar Systa var 14 ára. Eftir það gekk hún Brósa sínum í foreldrastað; „en hver gekk mér í hvaða stað?“ spyr hún sjálfa sig í allsleysi sínu og einstæðingsskap (63).

„Þegar ég velti Mömmu fyrir mér, sem ég geri nú helst sem minnst af, þá verður ekki hjá þeim sannleika komist að þetta er nískasta manneskja sem uppi hefur verið í samanlagðri heimskristninni. Leið hann Faðir minn sálugi mjög fyrir það, sérstaklega að Mamma sparaði ekki bara við okkur alsystkinin í mat heldur líka í klæðnaði. Áttum við Brósi bró tæpast til skiptanna á köflum.“

Af hrakningum sínum í lífinu hefur Systa fengið þá hugmynd að hún eigi sér tæplega tilverurétt; „einstaklingur eins og ég“, „dolludrós“ og „dósasysturafmán“ sem „á auðvitað ekki að sjást.“ Löngum hefur verið horft í aðra átt þegar rætt er um fátækt á Íslandi og helst viljum við sem minnst af henni vita en hún er sannarlega skammarblettur á okkar ríka samfélagi. Systa lítur svo á að tilveran sé takmörkuð, „Mín tilvera auðvitað alveg sérstaklega, sem kemur til af mínum eigin takmörkunum“ (87). Hana langar í barn, hana langar til að vera snert en hvorugt hlotnast henni. Vitað er að fátækt brýtur sjálfsvirðinguna niður og það má glöggt sjá af reynslu, aðstæðum og sjálfsmynd Systu. En saga hennar er sögð án biturðar, án reiði, án fordæmingar.

Aðlögunarhæfni er það sem hefur skilað mannkyninu áfram í lífinu og sannarlega hefur Systa allar klær úti til að afla sér lífsbjargar. Dregin er upp sérlega íronísk mynd af útsjónar- og nægjusemi Systu. Hún sér tækifæri í óborguðu kaffi, almenningssalerni, bóklestri á bókasafninu og ábót á súpuna, hún áttar sig á mikilvæginu sem felst í „orkugjöf sykurmolans“ og happinu í að komast yfir „torfengnar hitaeiningar.“ Dapurlegt og meinfyndið í senn.

Fjárfest í kjötsúpu

Fornlegur stíll og einstakur húmor skapa í sögunni spennuþrungið tvítog, nístandi íroníu sem Steinunn hefur svo gott vald á. Orð eins og samastaðarígildi, plús, markaðsverð, á ársgrundvelli, þvottaefnisútgjöld, skortur á loftgæðum, fjárfesting í kjötsúpu, vítamínstatus og næringar- og stoðkerfisástand sem Systa notar til að lýsa aðstæðum sínum hljóma eins og úr munni hagfræðings eða stjórnmálamanns sem talar í frösum í fjölmiðlum. Kafli sem ber heitið Næringarkerfið lýsir því hvað Systa borðar allan ársins hring og er í senn meinhæðinn og sárgrætilegur, uppsettur eins og næringarfræðileg matardagbók sem þó inniheldur alltof lítið af mat og bætiefnum.

„Alla daga, hafragrautur. Á laugardögum með eplabitum úr hálfu epli, þegar markaðsverð er hagstætt. Á sunnudögum með hinum helmingnum af eplinu. Grautur soðinn með kanil, ef birgðastaða á kanil leyfir.“

Særð systkini

Undirtitill sögunnar er leiksaga, formið er brotið upp með leikþáttum og persónur bresta jafnvel í söng. Brotin eru í anda absúrdisma og þar sér lesandinn aðstæður Systu í mun grimmdarlegra ljósi en í sögunni. Þar koma m.a. fram hið hrokafulla og loðpelsaklædda jólafólk sem er skeytingarlaust um aðbúnað annarra og þrælahaldarinn Ketill sem ásælist starfskrafta og frelsi Systu. Önnur absúrd sögupersóna er einfætta hárgreiðslukonan Lóló sem „stendur höllum fæti í sömu sporum“ (47); útigangskona sem hefur misst allt og er enn verr sett en Systa. Styttan af Mömmu birtist af og til með miklar skoðanir framtíðaráformum Systu. Þar er líka samtal „særðra systkina“ (132), þar sem draumar eru byggðir upp og rifnir jafnóðum niður svo sker í hjartað.

„Ég veit að margt er það í lífi venjulegs fólks sem ég ber ekki skynbragð á, svosem það að búa við velsæld og kynlíf í standard lofthæð, en það er líka margt sem almenningur mundi ekki átta sig á í mínu lífi“ (121) segir Systa. Fátæktin er söm við sig, hvort sem hún stafar af nísku, andlegri og líkamlegri, eða misskiptingu auðsins sem skapast í þjóðfélaginu. Systa og Brósi voru vanrækt sem börn, svelt og neitað um ást og snertingu. Það hefur sínar afleiðingar, Systa er skorturinn uppmálaður, Brósi lætur allt yfir sig ganga fyrir ástina. Það versta sem til er hjá mannkyni er níska og skeytingarleysi.

„Ef ég ætti peninga held ég að ég mundi reyna að gera öðrum gott og gauka að lítilmagna eins og sjálfri mér“ (155) segir Systa og er gott að hafa þetta í huga í allsnægtunum.

Birt fyrst á skáld.is, 11. des. 2021

Öndvegis sjálfshjálparbók

738858

Mynd: mbl.is

Það liggur eitthvað í loftinu. Menn eru að verða svo meyrir og nostalgískir, menn horfa til baka, gera upp líf sitt, kafa ofan í uppeldið, ástina, eineltið, fátæktina, fíknina og skömmina, hjónabandið, geðveikina, dauðann. Og pæla í hvernig varð ég nú skáld, ballettdansari, prestur  eða róni – hvað gerði mig að því sem ég er?

Tilhneiging sjálfsverunnar til að gera upp fortíðina birtist víða í skáldverkum samtímans, í ljóðum, sjálfs-/skáldævisögum, myndlist og kvikmyndum. En það er ekki oft sem sjálfsævisaga er ekki skrifuð að sjálfinu, af þeim sem sagan snýst um. Ég verð að viðurkenna að það ergði mig dulítið í fyrstu að handleika Þúsund kossa, (sjálfs)ævisögu Jógu eftir Jón Gnarr. Af hverju er karl að skrifa fyrir konu? Er þetta enn eitt dæmið um karl sem tekur efni konu, sögu hennar og ljóð, og býr til prentunar, raðar upp, skrifar formála og athugasemdir og klippir burt eða bætir í að eigin geðþótta eins og svo mörg dæmi eru um úr bókmenntasögunni? Jóhanna Jóhannsdóttir, sem alltaf er kölluð Jóga, hefur orðið í bókinni og segir frá hverju klandrinu á fætur öðru í lífi sínu en Jón, eiginmaður hennar, skráir og er höfundurinn. Er Jóga dáin eða mállaus? Er hann búktalari fyrir Jógu? Hvað er málið?

Jóga segir: „Ég veit ekki mikið um bækur. Ég hef ekki lesið margar bækur og aldrei skrifað bók, en ég hugsaði sem svo að kannski gæti hann farið í gegnum þetta með mér með því að skrifa söguna“ (272).

Nú nú, allt í lagi, gefum þessu sjens, Jón er fínn rithöfundur og textasmiður og styður við bakið á konu sinni. Sagan hefst á notalegum árum í Kópavoginum þar sem Jóga elst upp, hress og opin, soldið fiðrildi og krútt, hæfileikarík og sjálfstæð stúlka. Þeir kaflar eru léttir og ljúfir og mesta furða hvað hægt er að búa þar til úr litlu efni. Í fyrri hluta bókarinnar er lesandinn búinn undir að Jóga muni reka sig harkalega á í tilverunni, sakleysi hennar og trúnaðartraust mun sannarlega tortímast.

Nítján ára gömul fer Jóga sem au pair til New York, lendir þar í alvarlegu bílslysi 1981 og tilveran fer á hvolf. Eftirmálin eru með mestu ólíkindum, allt klúðrast sem klúðrast getur og Jóga snýr aftur heim, niðurbrotin og skömmustuleg. Það er fyrst núna, þrjátíu og fimm árum síðar, sem hún kastar af sér byrðum áralangrar sjálfsásökunar og skoðar hlutina í nýju ljósi.

Það kemur á daginn að Jón Gnarr er hvergi nálægur í þessari bók, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Honum tekst afar laglega að halda sjálfum sér utan við söguheiminn og skrásetja frásögnina án þess að troða Jógu um tær. Hann (eða þau?) skapa trúverðugan og viðkunnanlegan sögumann, sem í senn er „Viking Woman“ og „óttalegur njóli“. Ung og hrekklaus verður Jóga fyrir alvarlegu áfalli, staulast síðan um með brotna sjálfsmynd, fótsár og vegmóð af illsku heimsins. Þetta er vel gert og nærfærnislega í bókinni og ekki annað hægt en finna til samúðar og samkenndar með stúlkunni í öllum hremmingunum.

Það sem kom fyrir Jógu í Ameríku er viðkvæmt mál en í bókarlok tekur hún saman hvaða mark þessi erfiða reynsla hefur sett á hana. Skömmin er stór hluti af afhjúpuninni og uppgjöri við fortíðina. Það þarf mikið hugrekki til að opinbera það sem maður hefur blygðast sín fyrir alla ævi en það er líka léttir. Saga Jógu er um svikið sakleysi en hún fjallar líka um fyrirgefningu; um það að geta fyrirgefið sjálfum sér.

Jóga segir: „Ég veit ekki alveg ennþá hver tilgangurinn með þessari bók er. Kannski er einhver frekari heilun fólgin í því fyrir mig að koma þessari reynslu frá mér. Kannski styrkir það mig að hafa gengið í gegnum þetta upprifjunarferli. Ég veit það ekki enn. Kannski getur saga mín hjálpað öðrum á einhvern hátt, gefið styrk eða von. Ég vona það af öllu hjarta“ (281).

Ég er viss um að skrifin skila einhverju góðu fyrir hana og Jón. Lesendur munu áreiðanlega hafa gaman af bókinni; dúndrandi eitís-fílingnum, heiðarleikanum, hugrekkinu og uppgjörinu; og jafnvel draga af henni nokkurn lærdóm enda er þetta öðrum þræði öndvegis sjálfshjálparbók. En ég velti fyrir mér hvort það sé alveg bitið úr nálinni. Er Jóga tilbúin að bera höfuðið hátt eða ætlar hún að standa að baki Jóni, hinum vel skrifandi karli? Það eru nokkrar myndir í bókinni úr einkasafni en engin almennileg mynd af Jógu, á bls 180 er mynd af þeim hjónum þar sem sést ekki framan í hana og á bókarkápunni heldur hún fyrir andlitið.

Víðsjá, 30 nóv 2017

Íslenskur djammveruleiki

Jónas Reynir Gunnarsson sendir nú frá sér sína fyrstu skáldsögu sem heitir Millilending. Steinunn Inga Óttarsdóttur fjallaði um bókina í Víðsjá.

Steinunn Inga Óttarsdóttir skrifar:

nightlife-in-reykjavik-1„Ég er ekki vön að keyra full. Ég veit alveg að það er sjálfselskt og heimskulegt að láta sér detta það í hug en ég var bara búin með tvo bjóra sem ég hafði líka ælt og eitthvað smá af grasgufu sem ég vissi ekki einu sinni hvort virkaði, þannig að ég keyrði bara af stað. Annars væri ekki það versta sem gæti gerst að vera tekin af löggunni og fá að gista í fangaklefa“ (87).

Svo mælir María, aðalpersóna í Millilendingu, nýrri skáldsögu eftir nýjan höfund, Jónas Reyni Gunnarsson. Hún kemur við í Reykjavík á leið til Köben og það gengur á ýmsu þennan sólarhring sem hún stoppar. Líf hennar er í tómarúmi, hún er nýhætt með kærasta og á ekki í nein hús að venda nema þá til pabba, sem er alltaf að skamma hana, eða ömmu sem krefst þess að hún fullorðnist.

María er alveg laus við að rogast með framtíðarplön, hún pælir ekkert í hlutunum heldur hugsar bara í hringi og berst með straumnum; ástand sem flestir kannast við frá einhverju skeiði ævi sinnar. Pabbi hefur keypt handa henni farmiða til CPH og hún veit sosum ekkert hvað bíður hennar þar. Og fær þá skyndihugdettu að fara bara hvergi, með eftirfarandi rökum: „Og ef það átti hvort eð er að neyða mig til að vera óhamingjusöm og finna mér einhverja vinnu sem ég hataði þá gæti ég alveg eins verið í Reykjavík“ (51).

Broguð sjálfsmynd

Framganga Maríu í sögunni einkennist af uppgjöf sem birtist m.a. í því að hún á erfitt með draga andann, getur varla geispað eða fyllt lungun. Sjálfsmynd hennar er eitthvað broguð, henni finnst hún líta út eins og hún sé 11-15 ára, fötin hennar eru ljót, síminn „Samsung piece of shit“ (8); þegar hún lítur í spegil er eins og það sé eitthvað að henni og hollningin er eins og hún hafi strokið af leikskóla. Svefnvana og hálfdópuð þvælist hún á milli staða og fólkið sem verður á vegi hennar er annað hvort hrikalega pirrandi eða alveg sama um allt. Hún hugsar hún með sjálfri sér í hrakningunum: „Áður en ég dey væri ég til í að hitta manneskju sem líður í alvörunni vel“ (148).

Lífið er flókið og erfitt þegar maður er ungur og lesandinn sveiflast milli þess að ætla að taka Maríu litlu í faðminn og vernda hana eða hrista óþyrmilega. Sýn hennar á tilveruna ber ekki vott um mikinn þroska eða bjartsýni, henni finnst t.d. frekar ósanngjarnt þegar pabbi hennar segir henni að hætta þessari vitleysu og taka sig á: „eins og allt sem ég lendi í sé mér að kenna“ (163).

Djúp kreppa

Lesandi fær lítið að vita um bernsku eða fortíð Maríu. Móðir hennar kemur hvergi við sögu en María virðist heimavön hjá ömmu sinni. Hún er reikul og ráðvillt og tilvistarkreppa hennar er töluverð en varla neitt verulega sár eða knýjandi. „Þegar ég hugsa um fortíðina man ég bara eftir einhverju sem lætur mér líða eins og fávita. Það er eins og allt sem ég geri endi með hræðilegri eftirsjá og nú fannst mér eins og það væri ekki lengur nein bið á því, mér leið bara alltaf eins og fávita yfir öllu sem ég var að díla við um leið og ég var að díla við það“ (117).

Þegar María rifjar upp samverustundir með pabba sínum man hún eftir ókláraðri mynd af Friðriki mikla á listasafni í Berlín sem þau skoðuðu saman forðum. Loksins fann hún til samkenndar, henni finnst hún vita hvernig málaranum líði; pirraður yfir að geta ekki lokið verkinu; og hvernig hershöfðingjunum líður sem með útkrotuð andit bíða fyrirmæla og mæna á auðan blett á striganum þar sem Friðrik mikli átti að standa (170-171). Táknrænt fyrir Maríu; hún er auður strigi og bíður eftir því að fá að vita hvernig hún eigi að lifa þessa orrustu af (171) – hún ætlar ekki að sigra, bara lifa af.

María og vinir hennar, Gaui og Brynja, eru af svokallaðri velmegunarkynslóð  eða Y-kynslóð sem fæddist um síðustu aldamót og er að verða fullorðin núna. Þetta er kynslóðin sem ólst upp við fjölmiðlabyltingu og tækniframfarir, sökkti sér í  tölvuleiki og kann á alla samskiptamiðla og snjalltæki. Kynslóð sem hugsar öðruvísi en fyrri kynslóðir, sér t.d. sáralítinn tilgang með fastri 9-5 vinnu. Vinnan sem Gaui sér fyrir sér að gæti hentað honum er að passa sadda ketti sem fólk færir honum, að vera „helgarpabbi fyrir ketti“ (40). Pælingin er að leggja ekkert á sig, bara chilla og hafa það geðveikt næs, spila Fallout og póker á netinu og panta pitsu. Þegar svona plön ganga ekki eftir, mætir fólk af velmegunarkynslóðinni mótlæti sem það kann ekki að takast á við, heldur verður magnvana og þunglynt. Í stærstum hluta bókarinnar líður Maríu illa; á flótta með ælubragð í munni og þjökuð af hugarórum.

En María er fyndinn og orðheppin manneskja í þessum ömurlegu aðstæðum. Þrátt fyrir doðann sem heldur henni í helgreipum, tekur hún eftir ýmsu í kringum sig, rifjar upp alls kyns atburði og lýsir ítarlega og miskunnarlaust klósettferðum og ælugusum, ropum, svita, hori og húðfrumum, skítugum sokkum, feitum bumbum og  vondri lykt. En hörðust er hún þó við sjálfa sig.

Millilending er vel stíluð saga, fyndin og sár í senn, skemmtilega afslöppuð og leynir á sér. Hér er dreginn fram kimi sem er sjaldan á dagskrá, íslenskur djammveruleiki og samtími nýrrar kynslóðar. Myrkt og drungalegt vetrarumhverfið er leikmynd einmanakenndar og þrúgandi vanlíðunar þessa unga fólks sem leitar lífsfyllingar í hverfulum heimi og flýr á náðir vímu, hálfkærings og afstöðuleysis.

Í lokin hefur María náð botninum, komin upp í rúm hjá lúðalegum gaur í von um samskipti sem eru ekki bull (166). Orðalagið þegar hann „byrjaði að sofa hjá mér“ sýnir annað hvort það hversu María er fjarlæg sjálfri sér að átta sig ekki á hvað er að gerast, eða þá að það þykir ekki við hæfi að tala um að ríða eða nauðga í svona flottri skáldsögu eftir svona efnilegan höfund fyrir svona teprulega lesendur.

Víðsjá8 nóv 2017: http://www.ruv.is/frett/islenskur-djammveruleiki-i-skaldsogu

Vandinn að lifa

Persónur Fórnarleika eru allar í vondri stöðu í lífsins tafli. Ógæfa fjölskyldu viðhelst mann fram af manni, vegna skapgerðarbresta, bælingar eða misskilinna fórna. Álfrún Gunnlaugsdóttir, einn af okkar fremstu rithöfundum, sendir frá sér magnaða fjölskyldusögu.

Rithöfundurinn og friðarsinninn Magni Ríkharðs- og Regínuson hyggst rekja harmsögu ættar sinnar og skrifa það sem hann kallar hina „óskálduðu skáldsögu“ með því að nota upptökur á snældum sem móðir hans lét eftir sig. Það reynist þó flóknara en hann hélt:

„Þó að persónur í lífinu og persónur í skáldskap eigi það sammerkt að rekast hver á aðra og ef til vill kynnast, miðast sú tilviljun í skáldskapnum að settu marki. Skáldsaga stefnir ævinlega í átt að tilteknum endalokum. Samverkanin milli persóna hefur sinn tilgang, og persónur opna ekki munninn án þess að það hafi merkingu eða afleiðingu fyrir framvindu sögunnar. Þessu er auðvitað öðruvísi háttað í lífinu. Ég hafði ímyndað mér að ég gæti fyllt upp í eyðurnar milli hins raunverulega lífs og hins skapaða lífs, en reyndist erfitt, því að persóna í skáldskap verður að hafa til að bera vissa samkvæmni í hegðun og hugsun, til að tekið sé fyllsta mark á henni (198-9)…“

Mæðgur takast á

fornarleikar_72Allt sitt líf hefur Magni tiplað á tánum í kringum drykkfellda móður sína. Hún sneri ólétt og próflaus heim frá Spáni á dögum Francos og átti erfitt með að fóta sig í tilverunni. Móðir hennar, Arndís, er fálát og aðfinnslusöm í viðleitni sinni til að vernda dóttur sína og sjálfa sig eftir að Guðgeir, eiginmaður hennar, framdi sjálfsmorð. Samskipti mæðgnanna eru erfið og þvinguð, vonbrigðin svíða og gamall sársauki er aldrei gerður upp.

Fórnarleikar er breið, epísk ættarsaga sem nær yfir fimm kynslóðir. Sagan er margradda, sjónarhornið hjá persónunum á víxl  og sögusamúðinni jafnt útdeilt en Magni hefur alla þræði í hendi sér. Atburðir og minningar úr fortíðinni lifna við og raðast í heilsteypta mynd af venjulegu fólki sem glímir við vandann að lifa. Saga Guðgeirs og Arndísar er fyrirferðarmest og áhugaverðust, hún gerist á stríðsárunum þegar erlendir straumar flæða að íslensku samfélagi sem einkennist af þröngsýni og kyrrstöðu. Það hillir undir önnur viðhorf og ný tækifæri sem kveikja von í brjósti ungu hjónanna:

„Fátæktin hafði verið reglan, ekki undantekningin, og það kom við auman blett í brjóstinu. Fátæktin hafði lokað svo mörgum dyrum og skilið svo fáar eftir opnar. En það hafði verið unnið að því  sigggrónum höndum að gera hana burtræka svo framtíðin blasti við með alla sína möguleika og splunkunýja siðmenningu. Eyjarembingurinn færi sína leið í fylgd með þröngsýninni og sjálfumgleðinni“  (59).

En björtu vonirnar lognast út af þegar Guðgeir er þvingaður til að taka við fyrirtæki föður síns og Arndís er löngum þrúguð af ábyrgð, skyldum og réttlætiskennd. Ekki er annað hægt en að finna til með þessum harmrænu persónum sem fara í gegnum lífið á hnefanum og færa fórnir sem engum er þægð í.

Hverfulleikinn

Víða eru áhugaverðar pælingar um skáldskap í verkinu, um hið forna og þögla samkomlag höfundar og lesanda (200), um mörk veruleika og ímyndunar og um hverfulleikann; hvað er eftir þegar allir eru farnir, myndirnar fölnaðar og raddirnar þagnaðar?

„Skrýtið annars … rödd á spólu tengist ekki líkama, líkt og hún hafi öðlast eigið líf. Röddin varð eftir þegar líkaminn fór, og svipaður draugagangur á sér stað með ljósmyndir. Á þeim er andartakið fryst að eilífu þó að allir séu farnir, og verða þar þangað til þetta sama andartak, svipbrigðin, brosið, þurrkast endanlega út. Hið sama gildir um hljóð sem tekið er upp, að lokum verður aðeins þögnin eftir“ (11).

Djúp viska

Fórnarleikar er bók þrungin djúpri visku, yfir henni svífur einhvers konar æðruleysi gagnvart örlögunum og boðskapur sögunnar á erindi við okkur öll sem lesendur og manneskjur. Það er mikilvægt hverri manneskju að missa ekki sjónar af sögu sinni og minningum. Og það er engum hollt að brjótast áfram í þrjóskulegri einsemd: „Maður var aldrei búinn undir neitt, það var meinið, varð að fóta sig einn, skilja flestallt upp á eigin spýtur eins og það væri í fyrsta sinn í sögu mannkyns sem það gerðist“ (88). Erfið samskipti, þögn og tengslaleysi geta haft afleiðingar út yfir gröf og dauða.

Magni virðist ætla að skora hverfulleikann á hólm og rjúfa vítahringinn því saga hans „ber í sér frjókorn annars konar lífs“ en á sama tíma þiggur hann fórn konu sinnar. Það er því ekki mikil von til að kynslóðirnar muni nokkurn tíma læra af reynslu og mistökum annarra.

Forlagið, 2016

216 bls.

Rödd að handan

Er líf eftir þetta líf? Tórir sálin þótt líkaminn tortímist? Er guð til? Ráða fyrirfram ákveðin örlög lífi okkar og dauða eða er það slembilukkan?

Steingrímur, aðalpersónan í Ævintýri um dauðann eftir Unni Birnu Karlsdóttur, rankar við sér handan heims og þarf að sætta sig við að hafa farist af slysförum í blóma lífsins. Hann horfir á konu sína og fjölskyldu syrgja og sjálfur er hann hnugginn og bugaður, fastur milli tilverusviða og „horfinn heiminum. Ekki lengur hluti af mannlífinu“ (12). Hann hefur tekið því sem sjálfsögðum hlut að vera sprelllifandi og ekki órað fyrir að endalokin gætu komið svona snögglega. Hann sér eftir ýmsu og ætlaði að gera svo margt þegar um hægðist, eins og við öll.

 Þorpið

bj-ubk1Steingrímur ólst upp í sjávarþorpi úti á landi í stórri fjölskyldu. Systur  hans og mágkona eru gæðakonur og burðarstólpar í plássinu og bróðirinn Jói er risi með hjarta úr gulli, athafnamaður með allar klær úti. Foreldrarnir eru dæmigerðir fulltrúar sinnar kynslóðar, heiðarleg og vinnusöm hjón sem hafa byggt upp allt sitt með eigin höndum og búið börnum sínum framtíð í öryggi og trausti. Ein persóna sker sig úr hópnum, vinkonan Elenóra sem átt hefur hug og hjörtu bræðranna beggja frá bernsku. Hún er gjörólík þeim, lesbísk listakona sem flúði þröngsýni þorpsins og hefur aldrei snúið aftur. Allt eru þetta sannfærandi og vel smíðaðar persónur sem takast á við sársaukann sem fylgir því að vera til og reyna að gera það besta úr lífinu. Og þegar á reynir stendur fólk saman þrátt fyrir ágreining og gamlar misgjörðir og verndar þá sem minnst mega sín.

Dauðinn er tabú

„Sorgin er eins og olía, þykk og svört“ segir Lilja (83), ekkja Steingríms. Sorgin er líka vandræðaleg, það er erfitt að tala um hana og tekur óratíma að losna við hana; hvenær er mál að harka af sér og halda áfram að lifa? Daglegar athafnir verða Lilju ofviða og hún á enga orku aflögu handa ungum syni þeirra. Hún fer ekki úr náttfötunum, hefur enga matarlyst; svefnvana og stendur varla undir sjálfri sér. Sjálfur syrgir Steingrímur líf sitt og líkama, hann átti allt og hefur misst allt.

Dauði og sorg tilheyra þeim fjölmörgu tabúum í samfélaginu sem þögnin umlykur: „Þetta er litur þagnarinnar sem umlukti svo margt þegar ég var ung. Grá og þykk þögn um það sem skiptir máli, um það að vera manneskja, um tilfinningar, um það sem er erfitt, um sorgina, ástina, eineltið, drykkjuna, um lífið, draumana, dauðann. Manstu, það mátti aldrei tala um svoleiðis. Allt var þaggað niður. Maður gat næstum gleymt að maður hefði tilfinningar þegar maður var að alast upp“ (38) segir Elenóra.

Erfitt sjónarhorn

Margar bækur hafa verið skrifaðar um líf eftir dauðann, jafnvel með frásögnum af upplifun fólks af eigin andláti, ljósinu handan ganganna og langþráðri friðsæld. Í þessari bók er sjónarhornið óvenjulegt þar sem sögumaðurinn talar að handan. Það er býsna erfitt viðureignar og frekar sjaldgæft í skáldskap, Gyrðir Elíasson hefur beitt því listilega, t.d. íSvefnhjólinu. Margir muna eftir fyrstu tveimur seríunum af Aðþrengdum eiginkonum og skáldsögunni Svo fögur bein, þar sem sögumenn eru dánir. Lesandi verður að vera tilbúinn til að gangast inn á forsendur um framhaldslíf til að samþykkja þessa annars heims tilveru þar sem framliðnir svífa um í eins konar óljósri vídd óendanleika og æðruleysis. Í Ævintýri um dauðann birtast verur frá handanheimum sem hafa það hlutverk að leiða hina framliðnu inn í hliðarveruleika sem er hugsanlega biðsalur fyrir  næsta tilverustig. Þar reynir verulega á þrek og trú lesandans og vilja til að gefa sig skáldskapnum á vald.

Áhugaverðar pælingar eru í gangi í sögunni, um sæluríki, tilgang lífsins og alheimsvitundina og ótal spurningar vakna. Hvað sem fólki finnst um þessa hugmyndafræði er þetta vel gert og fallega.  Ævintýri um dauðann er í senn ástar-, fjölskyldu- og samfélagssaga sem snýst um tilvist mannsins þessa heims og annars, hún einkennist af mildi og mannúð, er vel skrifuð og boðskapurinn fallegur. Að lestri loknum, þarftu ekki lengur að óttast dauðann.

Bjartur, 2016

191 bls.

Birt í Kvennablaðinu, 19. sept. 2016

Skáldskapur

Stundum verð ég afar glaður af skáldskap. En hann er ekkert nema skríngi sem skoppa saman í hugmyndir, sögur, einfaldan stór-furðulegan skáldskap. Og hann blífur. Hann er það eina sem mér finnst nokkru máli skipta.

Steinar Sigurjónsson, 1967

„Ég tel mig nú eiginlega ekki vera rithöfund“

Innan um og saman við er ég að grúska í bókum Oddnýjar Guðmundsdóttur (d. 1985), rithöfundar frá Hóli á Langanesi. Þar er svo sannarlega eldmóður á ferð; sósíalískar og tilvistarlegar hugmyndir um samfélag og stöðu kenna og djúp meðlíðan með þeim sem minna mega sín. Fyrsta smásaga hennar, Eldhúsið og gestastofan, birtist í tímaritinu Iðunni, 1933, og segir frá samskiptum snobbaðrar húsfrúar og fátækrar vinnustúlku.

Vilborg Davíðsdóttir tók viðtal við Oddnýju sem birt var í kvennablaðinu Melkorku 1958. Oddný var hlédræg og hógvær í spjallinu: „Ég tel mig nú eiginlega ekki vera rithöfund. Ég er stundum að setja saman sögur í tómstundum mínum. Mér þykir það gaman. En ekki tel ég, að mér beri neinn gáfumannastyrkur frá ríkinu fyrir þá iðju. Nei, ég tel mig ekki með rithöfundum.“ Svo bætti hún við að útgefendur hefðu nú ekki mikið álit á henni.

Sáralítið var um skáldsögur hennar fjallað á sínum tíma, eins og raun var með margar bækur kvenna á þessum tíma. Skáldverk kvenna þóttu vera minniháttar afþreyingarefni og kerlingabækur, sem einkenndust af torfkofaraunsæi, lúinni epík og fortíðarhyggju. Engar myndir hef ég fundið á netinu af Oddnýju en hef verið að safna þeim og digitala. Fann á þessa fallegu mynd af henni sem birtist með viðtalinu.

screen-shot-2016-09-18-at-11-46-34

 

 

 

Lesefni í sumarfríinu

 

Aukaverkanir

29565510._UY2421_SS2421_

Njáll er miðaldra útbrunninn heimilislæknir, langþreyttur á fótsveppum, kæfisvefni og margvíslegri fíkn sjúklinga sinna. Hann er orðinn lífsleiður og einrænn, börnin vaxin frá honum og eiginkonan búin að fá alveg nóg. Ýmsir atburðir verða til þess að hann þarf að endurskoða líf sitt. Glæný og skemmtilega kaldhæðin bók eftir Ólaf Hauk Símonarson.

 

Dalalíf

imagesFjórða útgáfa af þessari sívinsælu sögu um ást í meinum og margslungin örlög í íslenskri sveit á 19. öld. Guðrún þótti aldrei nógu fín, menntuð eða merkileg til að vera talin meðal mestu höfunda þjóðarinnar þótt verk hennar væru gríðarlega vinsæl og lesin upp til agna. Það er áhugavert að sjá hvernig ný kynslóð lesenda tekur verkum Guðrúnar. Eru þau sígild? Á sveitalífið í Hrútadal með lókaldrama og kaffiþambi upp á pallborðið hjá unga fólkinu nú á dögum?

 

Glerhjálmurinn

UnknownHeimsfræg skáldsaga frá 1963 eftir bandarísku skáldkonuna Sylviu Plath, í þýðingu Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur (2003). Áhrifamikil bók um þar sem sagt sagt er frá brenglaðri sjálfsmynd og andlegu niðurbroti. Sylvia Plath varð eins konar tákngervingur fyrir kvenfrelsisbaráttu á sjöunda áratugnum, eftir glæsilegt upphaf á ferlinum sat hún uppi með börn og bleyjuþvott meðan eiginmaðurinn varð lárviðarskáld. Skyldulesning allra femínista með sómatilfinningu.

 

Konan í blokkinni

Unknown-1Hörkuspennandi saga, glóðvolg úr prentsmiðjunni, eftir Jónínu Leósdóttur. Sagan gerist í Reykjavík samtímans um jólaleytið þegar allir eru í stresskasti en Edda gamla er hálftýnd í öllum látunum. Hún er lífeyriseigandi (nýyrði í stað orðsins ellilífeyrisþegi), eldspræk með allt á hreinu og ljóst að fleiri glæpamál bíða hennar. Konur knýja atburðarásina, þær hugsa þokkalega vitrænt og láta til skarar skríða. Hommatengdasonurinn er samt skemmtilegasta týpan.

 

Níunda sporið

Unknown-2Glæný skáldsaga eftir Ingva Þór Kormáksson sem hlaut Gaddakylfuna 2009 fyrir glæpasöguna Hliðarspor. Sögumaður hlustar á sögu Egils, fornvinar síns, um dóp, brennivín og mannlega eymd. Atburðir sem gerðust í barnæsku hafa ófyrirsjáanleg áhrif og nú kemur að skuldadögum. Mjög trúverðugar lýsingar á djammi og alls konar rugli, hressandi lesning fyrir verslunarmannahelgina.

 

Regnskógabeltið raunamædda

Unknown-3Kom fyrst út 1955 og árið 2011 á íslensku í frábærri þýðingu Péturs Gunnarssonar. Bókin olli úlfaþyt meðal mannfræðinga og heimspekinga um heim allan en Leví-Strauss lýsir hér m.a. vettvangsrannsóknum á ættbálkum frumskóga Brasilíu sínum á síðustu öld. Höfundurinn lést 2009, rúmlega aldar gamall og hafði þá dregið sig í hlé frá skarkala heimsins fyrir allnokkru. Þetta er ferðasaga í bland við sjálfsævisögu og heimspekipælingar. Fjallað er um vestræna og suðræna menningu, nýlendustefnu og þjóðarmorð en eftir að Evrópubúar ruddust inn í Suður-Ameríku lágu hundruð þúsunda frumbyggja í valnum. Íslenskir afkomendur nýlenduþræla ættu ornað sér við tragískt hitabelti og frumstætt skógarlíf og læra smá um sögu heimsins í leiðinni.

Spámennirnir í Botnleysufirði

Unknown-4Mögnuð saga um líf í nýlendu Dana á Grænlandi á átjándu öld. Sagan hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2013. Þýðingin er eftir Jón Hall Stefánsson og ekkert áhlaupaverk. Höfundurinn, Kim Leine, bjó sjálfur á austurströnd Grænlands og þekkir aðstæður vel. Margir Danir eru sárreiðir út í hann og telja hann fara með tómt fleipur um misnotkun og arðrán í aldaraðir í hinni dönsku nýlendu. Konur voru í sérstaklega vondri stöðu og réðu litlu um örlög sín. Ef manni finnst sumarið ekki nógu hlýtt eða sólríkt er gott að grípa í þessa sögu, sem manni verður beinlínis hrollkalt af að lesa – ekki bara út af veðurlýsingunum. Endist allt sumarið.

Vinkonuserían

framurskarandivinkonaStefnum við ekki allar á að ná a.m.k. einu góðu kvöldi, jafnvel bústaðahelgi, með bestu vinkonunni í sumarfríinu? Vinkonuserían svokallaða hefur heillað milljónir lesenda um heim allan en þar er lýst stöðu kvenna í íhaldssömu samfélagi í Napólí um miðja síðustu öld. Brynja Cortes Andrésdóttir þýðir lipurlega úr frummáli og aldrei er of oft minnt á hve íslenskir lesendur eiga þrautseigju og þolgæði þýðenda mikið að launa. Elena Ferrante er fræg fyrir að vilja ekki vera fræg, birtir undir dulnefni og fer huldu höfði.

 

Öddubækurnar

Unknown-5Jenna Jensdóttir lést í mars á þessu ári en hún ásamt manni sínum skrifaði Öddubækurnar sem komu allar sjö út í einum pakka í fyrra. Adda naut gríðarlegra vinsælda um 1970 og spennandi að sjá hvernig hún hefur elst. Hún var fátæk og munaðarlaus en það varð henni til bjargar að siðavönd og réttrúuð hjón tóku hana í fóstur. Adda fetar hefðbunda þroskabraut þess tíma, lýkur stúdentsprófi og trúlofast læknanema en þar endar sagan. Það er alveg furðulega stutt síðan að líf kvenna endaði einmitt þarna.