Eva Björg Ægisdóttir

Vesen hinna ríku

Fyrir mér eru fjölskyldur svo áhugaverðar, þetta samansafn af fólki sem eyðir tíma saman eingöngu vegna þess að um æðar þess rennur sama blóð. Það er svo heillandi, ef maður hugsar út í það, hvað bindur einstaklinga saman og hversu langt sumir eru tilbúnir að ganga, bara fyrir það eitt… (307).

Í Englum alheimsins eftir Einar Má segir e- s staðar að ættartré séu einu trén sem vaxi á Íslandi og margt til í því. Í nýrri skáldsögu Evu Bjargar Ægisdóttur, Þú sérð mig ekki, segir frá dramatísku ættar- eða niðjamóti sem haldið er á Snæfellsnesi í nóvember 2017. Snæbergs-ættin frá Akranesi hefur hagnast gríðarlega á sjávarútvegi og greiðir sjálfri sér arð sem eykst með hverju ári. Slektið hefur leigt heilt hótel fyrir viðburðinn enda vellríkt fólk og landsfrægt á ferð og ætlar aldeilis að styrkja trosnuð fjölskylduböndin. Ættingjarnir þekkjast misvel eins og gengur í stórfjölskyldum, dagskrá ættarmótsins er mátulega stíf, glæsilegar veitingar og taumlaus drykkja og auðvitað fer allt úr böndunum.

Fjölskylda mín er ekki fullkomin. Við höfum aldrei þóst vera það. Hvernig aðrir sjá okkur er ekki okkur að kenna. Fólk gefur sér að það að eiga peninga og fallegar eignir sé á einhvern hátt eftirsóknarvert. Fyrir mér hefur það aldrei verið þannig. Hvað mig varðar hefur þetta verið byrði, frekar en nokkuð annað (368).

Ein persóna stígur fram í sviðsljósið í einu; ættingjar, makar, hótelstarfsfólk, lögreglan; og smátt og smátt skýrist myndin af fjölskyldunni og ýmsum óuppgerðum málum hjá þessu fína og léttsnobbaða fólki. Og svo er framið morð. En lesandinn veit ekki hvaða hótelgestur var myrtur fyrr en langt er liðið á þessa efnismiklu sögu. Það er skemmtilegt trix. Hver kafli endar þannig að lesandinn vill vita meira, hver persóna á sína sögu, hefur sinn djöful að draga en öðlast samúð og skilning lesanda þegar brotin raðast saman.

Það er ekki alltaf gaman að vera ríkur og frægur. Áhrifamest fundust mér í sögunni angist og krísa unglingsstúlkunnar Leu. Hún fékk 200.000 króna YSL-veski í afmælisgjöf sem gerði allt vitlaust á samfélagsmiðlum. Í leit að ást og viðurkenningu sendir hún myndir af sér úr símanum til einhvers sem hún þekkir ekki neitt. Og hún þarf að þola gláp og káf frænda síns.

Saga Tryggva, eiginmanns Petru Snæberg, móður Leu, er dramatísk og áhugaverð. Hann passar illa inn hjá fína fólkinu þar sem hann er frekar lúðalegur og hefur allt aðra sýn á lífið, hefur unnið hörðum höndum fyrir sínu.

Sævar, þorpslöggan, er með gott jarðsamband, hann hefur áður birst í bókum Evu Bjargar og í lok þessarar bókar stefnir í að hann kynnist lögreglukonunni Elmu sem er í rannsóknarteymi með honum í fyrri bókum. Svo það er gott í vændum.

Það hefði alveg mátt vinna betur með titil sögunnar og bókarkápuna. Eva Björg (f. 1988) er verðlaunahöfundur, fékk Svartfuglinn 2018, íslensku hljóðbókaverðlaunin 2020 og bresk glæpasagnaverðlaun fyrir þýðingu á Marrinu í stiganum 2021. Útgáfuréttur á bókum hennar hefur verið seldur m.a. til Þýskalands en þar hafa landsmenn mikinn áhuga á íslenskum bókmenntum.

Þú sérð mig ekki er fimmta bók Evu Bjargar. Hún hefur gott auga fyrir persónusköpun, byggingu sögu og næmt innsæi í þjóðarsálina sem skila sér í prýðilegri spennusögu – þótt morðið sé auðvitað klúður eins og oft vill verða.