Í svölum skugga

Að standa sig á vígvellinum

Steinunn Þ. Guðmundsdóttir fæddist aldamótaárið 1900 og lést 85 árum síðar. Á efri árum samdi hún og gaf út sjálf á eigin kostnað bæði skáldsögu, smásagnasafn og ljóðabók. Líklega teiknaði hún einnig bókarkápurnar en þess er þó ekki getið.

Skýr skilaboð

Skáldsagan Í svölum skugga frá 1976 segir frá togstreitu milli vaxandi borgar og hnignandi sveitamenningar, frá djúpu kynslóðabili, áhrifum hernámsins og ýmsum ástarmálum. Vond stjúpa tekur glys og glaum fram yfir sveitalífið, óðalsbóndinn verður utanveltu, veikluleg stjúpdóttir lætur allt yfir sig ganga, ungar stúlkur glepjast af hermönnum og skyndigróði er ekki happadrjúgur.

Skilaboðin eru skýr og frekar íhaldssöm: í sveitinni er best að vera, ekki níðast á minnimáttar, þeim sem bíður mun hlotnast, konur eiga réttindi en hafa jafnframt skyldum að gegna og her á ekki að vera á Íslandi.

Niður fljótsins (1979) inniheldur allnokkrar smásögur og eru margar þeirra ágætar. Ljóst er að Steinunn hefur haft metnað til að vanda til þeirra, fágað formið og dregið upp myndir af stöðu fólks og dýra sem eiga undir högg að sækja.

Frumleik skortir

Um ljóðasafn Steinunnar sem út kom að henni látinni segir bókmenntagagnrýnandinn Jóhann Hjálmarsson í Mbl.:

„Kostir ljóða Steinunnar Þ. Guðmundsdóttur eru einkum þeir að hún vandar málfar sitt og gætir hófs, stefnir að samræmi. Gallarnir aftur á móti þeir að frumleik skortir, ljóð hennar eru mjög slétt og felld, en vekja ekki lesandann til umhugsunar með óvæntri mynd eða sjálfstæðum tökum á yrkisefni. Vissulega geta frumleikakröfur verið strangar og ósanngjarnar, en sviplítill skáldskapur verður ekki eftirminnilegur. Rímuðu Ijóðin í bókinni eru verst. Í þeim koma fram ýmsir helstu gallar slíkra ljóða, m.a. það að lýsa í staðinn fyrir að draga upp mynd, samanber: „Þú ert blómið bjarta og yndisfagra / í blæsins létta mjúka sólskinsdansi“. Barnslegur túlkunarmáti gæðir sum ljóðanna vissu lífi og rómantíkin þótt gamaldags sé á sér eðlilegar forsendur… „

Væri gaman að kanna hvort skáldskapur Steinunnar er virkilega ófrumlegri, meira gamaldags eða verri en annarra skálda á þessum tíma. Einkum var menntuðum körlum á þessum tímum uppsigað við óskólagengnar kerlingar sem sendu í sífellu frá sér bækur sem nutu almennra vinsælda, sbr. kerlingabókamálið mikla þar sem Guðrún frá Lundi var m.a. til umfjöllunar.

Verður kölluð kerlingarbók

Þann 3. desember 1972 birtist viðtal við Steinunni í Þjóðviljanum. Þar sagði hún m.a.:

„— Ef einhver spyrði hvort það væri erfitt að fara út á þessa braut og birta sína fyrstu sögu, þá myndi ég hiklaust svara því játandi. Það væri æskilegt að höfundar þyrftu ekki að ganga á milli útgefenda heldur væru einhverjir aðrir, t.d. samtök rithöfunda, sem byðu fram verkin. Höfundar eins og ég vitum svo lítið um kjör á hverjum tíma.

— Kvíðirðu þvi, að þetta verði kölluð kerlingabók?

— Ég er alveg hárviss um að hún verður kölluð það!… En það er um leið dálítil ögrun. Kerling og karl eru gömul og góð íslenzk heiti, og þá ættu alveg eins að vera til karlabækur!… Það er þá um að gera að standa sig á vigvellinum!“

Birtist 31. júní 2021 á skáld.is