Lýðræði

Virkja nemendur til dáða

Mér er hugleikið að virkja nemendur framhaldsskóla til dáða, bæði í kennslustundum og til lýðræðislegrar þátttöku í skólastarfi til framtíðar. Ég rakst í morgun á rannsókn um þetta efni og niðurstöðurnar eru skýrar:

„Ef kennari sækist eftir virkri þátttöku nemenda er mikilvægt að nota fjölbreyttar kennsluaðferðir til að ná til sem
flestra nemenda. Rannsóknir hafa sýnt að nemendamiðaðar aðferðir hafa jákvæðari áhrif á virkni nemenda í námi heldur en kennarastýrðar aðferðir. Höfundur telur í þessu sambandi að virkniathafnirnar að vinna verkefni og spyrja kennara spurninga, sem voru algengustu athafnir nemenda í kennslustundunum, sýni ekki nægilega fjölbreytta virkni
nemenda. En ég tel að jákvætt viðmót kennara, sem kom fram í 87% virknistundanna, og hinir athafnaflokkarnir þrír, hlýlegt viðmót, skýr fyrirmæli og hvetjandi kennari, hafi góð áhrif á virkni nemenda í kennslustundum.“

Þetta kemur fram í meistararitgerð Heiðrúnar Hafliðadóttur (f. 1991) frá 2019 sem má finna hér. Á vorönn hef ég tekið starfsmannasamtöl í FVA en það er í fyrsta skipti sem ég geri slíkt á ævinni. Það er afar fróðlegt og gagnlegt og skemmtilegt. Ég hef skrifað hjá mér á sérhannað eyðublað punkta meðan á spjalli stendur og setti inn dálk sem heitir Ákvarðanir teknar sem hefur minnt mig á að fylgja því eftir sem fram kemur og ákveðið er í samtalinu. Sem nýr skólameistari hafði ég alltaf hugsað mér að vera sem mest á ferðinni í skólanum, innan um nemendur og kennara. Því miður er ég að mestu föst við skrifborð og hef ekkert getað litið inn í kennslustofur eins og mig dreymir um, og kófið gerði alveg út um þann draum. Ég hugsaði með mér á dögunum að starfsmannasamtöl væru góð og gild – annað hvert ár, en á móti vildi ég fara í kennslustofur og sjá kennara að störfum og boða mitt fagnaðarerindi um lýðræði og virka þátttöku. Við lestur ritgerðar Heiðrúnar fann ég einmitt fínasta eyðublað sem ég get notað í þessum tilgangi næsta skólaár svo nú er mér ekkert að vanbúnaði.

Góður dagur.

Skóli framtíðarinnar er opinn og bjartur og nemendur sjálfstæðir og lausnamiðaðir

Virkni, ábyrgð, áhugi og lýðræði í framhaldsskóla

 

screen-0

Í námskeiðinu Skólaþróunarverkefni KEN213F, við menntavísindasvið HÍ á vormisseri 2014, var öflugur hópur nemenda sem fjallaði um innleiðingu lýðræðislegra kennsluhátta í Menntaskólann í Kópavogi.

Lýðræði er einn af grunnþáttum menntunar skv. aðalnámskrá framhaldsskóla (2011) og er ætlað að auka virkni nemenda í námi með lýðræðislegum kennsluháttum. Skólaþróunarverkefni hópsins góða snýst um að innleiða lýðræði inn í allt skólastarf, kennsluefni, kennsluhætti og námsmat.

Markmiðin eru:

  • að nemendur taki virkari þátt í námi sínu
  • að kennarar nýti sér fjölbreytta kennsluhætti og námsmat og þrói lýðræðisleg vinnubrögð innan skólastofunnar
  • auka möguleika nemenda til að hafa áhrif á inntak og aðferðir náms og kennslu

Lesa má skýrsluna hér: Lýðræðislegir kennsluhættir

Höfundar:

Ásta Kristín Ingólfsdóttir, Haraldur Gunnarsson, Jón Björgvin Hilmarsson, Malla Rós Valgerðardóttir, Melkorka Edda Sigurgrímsdóttir, Steinunn Inga Óttarsdóttir og Sævar Þorleifsson