Einfalt próf sem kennt er við Alison Bechdel er notað sem greiningartæki á myndefni til að mæla og sýna hlut kvenna. Þrjú skilyrði þurfa að vera til staðar til að standast prófið. Efnið verður í fyrsta lagi að innihalda fleiri en tvær nafngreindar konur, helst í aðalhlutverkum, þær þurfa í annan stað að eiga samtal og samskipti sem í þriðja lagi mega ekki snúast um karlmenn. Merkilega fáar bíómyndir og sjónvarpsefni standast þessar kröfur fyllilega, einkum gerist það sjaldan að samtöl kvenna snúist um annað en karla.
Sjónvarpsþáttaröðin Orange is the New Black (OitNB) stenst Bechdel-prófið og er að auki spennandi, fyndin, dramatísk og vel leikin. Sagan segir frá ungri og fallegri, hvítri konu (Taylor Schilling) sem afplánar rúmlega árs mánaða fangavist í Bandaríkjunum fyrir glæp sem hún framdi fyrir alllöngu. Á meðan bíður kærastinn (Jason Biggs) spenntur eftir að hún losni en hvorugt þeirra órar fyrir því hvað betrunarvistin hefur í för með sér fyrir þau bæði. Þættirnir, sem gerðir voru 2013, voru fyrst sýndir í netsjónvarpi og hafa notið mikilla vinsælda og eru nú sýndir á Stöð 2. Söguþráðurinn er að einhverjum hluta byggður á samnefndri bók Piper Kerman sem afplánaði 15 mánuði í kvennafangelsi í Danbury, Connecticut. Handritshöfundur þáttanna er Jenji Kohan (f. 1969) sem einnig skrifaði handrit Weeds.
Í kvennafangelsinu komast persónurnar auðvitað hvergi, þær sitja uppi hver með aðra í endalausum átökum á öllum tilfinningaskalanum. Morðingjar, fíklar og vændiskonur takast á um goggunarröð, völd og áhrif, ást og kynlíf, fríðindi, skömm og heiður og allt er dýru verði keypt. Stutt innslög úr fortíðinni varpa ljósi á persónurnar og ástæður fyrir fangelsisvistinni. Ástin blómstrar í skugga rimlanna en afbrýðin, baknagið og slúðrið þrífst líka vel. Það sem forðar OitNB frá því að verða bara sápufroða er að ekki er dregin fjöður yfir misrétti, misnotkun, valdníðslu og kynþáttafordóma sem viðgangast, svo ekki sé minnst á spillingu og mútur þeirra sem ráða. Það er lýðum ljóst að fangelsismál í Bandaríkjunum eru fyrir löngu komin í öngstræti, bæði í opinberum og einkareknum fangelsum. Einn af hverjum 100 Bandaríkjamönnum er bak við lás og slá, og helmingur þeirra sem situr inni afplánar dóma vegna fíkniefnabrota. Um 40% fanga eru svartir og fjöldi þeirra er meiri en samanlagður fjöldi þræla í Ameríku um 1850. Þetta endurspeglar ekki síst slaka þjóðfélagsstöðu svartra þar í landi, einkum ungra karlmanna sem vegna fátæktar og vonleysis leiðast út í glæpi.
Það er varla hægt að segja að tekist sé á við kynþáttafordóma og klisjur á markvissan hátt í OitNB enda vandratað framhjá pyttunum. Í fangelsinu halda konur af sama kynþætti sig yfirleitt saman í hóp og mynda gengi eða klíkur. Konurnar eru á ýmsum aldri, svartar, asískar, spænskumælandi og hvítar, með sín sérkenni og sitt tungumál og slangur. Aðalpersónan Chapman er vissulega forréttindapíka því hún er hvít, vel máli farin og menntuð, ætli þættirnir hefðu notið eins mikillar athygli eða orðið eins vinsælir ef aðalpersónan hefði verið svört? Það er óvíst að fólk af öðrum litarhætti en hvítum sé sátt við sína fulltrúa í þáttunum þar sem klisjurnar eru alls ráðandi, t.d. mæla asísku konurnar varla orð frá vörum, spænskumælandi hópurinn er hatursfullur og óðamála og þær svörtu eru orðljótar. Fangaverðirnir eru líka klisjulegir, t.d. „Pornstache“ sem er hinn versti dólgur og sér um eiturlyfjadreifingu í fangelsinu. Kynferðislegt ofbeldi, niðurlæging og annað ofbeldi í fangelsismyndum þar sem karlar eru aðalpersónur er af öðrum toga en í OitNB, bæði grófara og blóðugra. Kynlíf stendur með blóma í kvennafangelsinu en tvískinnungs gætir í afstöðu handritshöfundar því það er spurning hvort kynlíf milli kvenna í þáttunum sé bara krydd og stuð handa hvítum gagnkynhneigum áhorfendum eða hvort fengist er af alvöru við fjölbreytileika og frjálslyndi. Chapman er bísexúal, hún hittir Alex (Laura Prepon), fyrrum ástkonu sína í fangelsinu, og styttir sér stundir með henni. Lesbíur í fangelsinu endurspegla því miður leiðar og klisjulegar staðalímyndir, t.d. Crazy Eyes og Big Boo sem eru karlalegar, frakkar og grófgerðar. Hins vegar er saga Sophiu (Laverne Cox), kynskiptings með eiginkonu og barn utan múranna, áhugaverð og dramatísk og þykir leikkonan sýna snilldarleg tilþrif í túlkun sinni.
Þáttaröðin Orange is the New Black sýnir vel hvernig fangelsisvist getur dregið fram það allra versta í fólki og vekur upp spurningar um vald, glæp og refsingu. Í fangelsinu gildir frumskógarlögmálið fyrst og fremst og því fær Chapman fljótt að kynnast. Hún var ekki forhertur glæpon þegar hún fór í fangelsið en hún verður það hægt og örugglega í betrunarvistinni. Fleiri seríur er í smíðum enda formúlan um kynlíf, ofbeldi og húmor í hæfilegum skömmtum þrautreynd – og svínvirkar.