Ræflatestamentið

Eitt vetrarsvartholið enn

Ísak Harðarson er látinn. Síðasta smásagnasafnið hans, Hitinn á vaxmyndasafninu, fannst mér frábært verk. Ég fór honum til heiðurs að gramsa á veraldarvefnum eftir umfjöllun um bækur hans. Það rifjaðist upp að ég skrifaði sjálf örstutt um síðustu ljóðabók hans með titlinum furðulega, Ellefti snertur af yfirsýn þann 23. október 2018 á vef Kvennablaðsins sáluga sem er nú týnt og tröllum gefið. En ég fann greinina í iðrum tölvunnar og deili hér með, ég hafði soldið fyrir því að hafa ljóðabrotin í ComicSans þegar greinin birtist. Takk Ísak fyrir skáldskapinn.

Ísak Harðarson (f. 1956) er eitt af þekktustu skáldum sinnar kynslóðar. Kraftmikil og myndræn ljóð  hans búa yfir mótþróa, kaldhæðni  og heitri trúarþörf. Fyrsta ljóðabók Ísaks, Þriggja orða nafn, kom út 1982. Ljóðabók hans, Rennur upp um nótt (2009), var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2011.

Ísak er ómyrkur í máli í nýrri ljóðabók sem hann nefnir Ellefti snertur af yfirsýn. Bókin er sú ellefta í röð ljóðabóka hans og titillinn tengist ljóðlínu um fjall sem hann verður að ganga á til að fá þó ekki nema snert af yfirsýn á hrun (heimsins) og rústir siðmenningar. Þótt lesandi sé í upphafi varaður við því að orð og slitur myndi ekki neina samfellu, drætti eða mynstur, er heildarsvipur á bókinni. Andúð á efnishyggju, græðgi og offors er ríkjandi og heimsendir er nær en maður hefði haldið.

Það er dómsdagsstemning hvert sem litið er. Allt er hrunið, kurlað í mask, engin hús, engin bók, engin merking en guð er nálægur þótt hann sé hvergi að sjá. Og lítill strákur steinhissa sem fæddist á Allraveraldarvegi er orðinn Grafarvogsbúi. Jörðin, Úfinkolla Sunnudóttir, er á hverfanda hveli og feigðin vofir yfir.

Allt er ögrandi við ljóðabók Ísaks: Orðaleikir, ádeila, textauppsetning, titill, mynd á bókarkápu og hið forljóta letur ComicSans sem ýfir viðkvæmar taugar allra sem telja sig til fagurkera. En glæsileg eru ljóðin:

Lokaljóð bókarinnar er ástarljóð til deildar 33A á Landspítalanum, fullt af ást, þakklæti og von.

Ljóðið er ódrepandi, Ellefti snertur af yfirsýn kemur okkur í gegnum eitt vetrarsvartholið enn.