wheeler

Hjólað í vinnuna

cross-lite-620l

Mynd: everest.is

Eftir að hafa verið bíllaus í hálft ár í Tékklandi gat ég ekki hugsað mér að fara aftur að nota bíl til að fara í vinnuna. Ég minntist þess að hafa forðum lært að hjóla og hugsaði mér gott til glóðarinnar að rifja upp þá takta. Þjóta áfram með vindinn í hárinu, rjóð af súrefni og áreynslu, í spandexgalla með sportröndum yfir vöðvastælt læri og stinna þjóhnappa. Ég minntist þess einnig að hafa forðum eignast reiðhjól, glæstan og óslitinn Wheeler gæðing úr Everest (sbr. mynd). Hann var því grafinn upp úr haug af drasli í bílskúrnum, reyndist hann býsna rykfallinn og alveg loftlaus. Ég skólpaði af hjólhestinum, setti upp huggulegan stand fyrir vatnsflöskuna, keypti lugt, körfu og ofursmartan hjálm og þóttist fær í flestan sjó. En margt hefur greinilega breyst í hjólahönnun á þessum áratugum sem liðnir eru frá því ég steig pedala síðast. Gírarnir eru t.d. þrisvar sinnum fleiri á mínu hjóli en ég hélt… En þegar átti að dæla lofti í dekkin reyndist ventill ekki lengur vera eins og áður var og ekki pumpa heldur.Tvö kerfi eru í gangi, evrópskt og amerískt, sem þurfa hvort sína pumpu. Og á mínu hjóli er amerískt system, ofurviðkvæmt og óskiljanlegt og allt loft þrýstist út við minnstu snertingu. Í fálminu við að koma pumpunni uppá ventilinn, spýttist hann af og hvarf í draslahauginn í bílskúrnum. Eftir að hafa sótt varahluti um langan veg og bisað heilmikið við pumpuna tókst mér að fylla dekkin lofti og svífa loksins af stað. Merkilegt hvað hægt er að gera einfalda hluti flókna, hvað var að gamla pumpukerfinu?

Allt gekk síðan eins og í sögu og ég fíla frelsið sem fylgir því að hjóla um götur og stíga, fylla lungun af súrefni, virkja ónotaða vöðva og hreinsa hugann um leið. Svo vildi ekki betur til í morgun en að keðjan hrökk af tannhjólinu í miðjum hjólatúr. Mig rámaði í að forðum daga var keðja svo strekkt að það var engin leið að koma henni uppá aftur nema með miklu afli, handalagni og hugviti en ekkert af þessu var mér tiltækt á þessari stundu. Hvað var þá til bragðs að taka? Gefast upp? Teyma hjólið í hlað? Hringja í viðgerðarmann? Nei, fjandakornið. En þá hugkvæmdist mér að líta nú aðeins  á keðjuverkið í stað þess að horfa til himins og bíða eftir kraftaverki. Sá ég þá að keðjan var sultuslök, hún hvíldi á litlu hjól að aftan á sveigjanlegum armi og enginn vandi að vippa henni á sinn stað á núll, einni. Hvílíkar framfarir í hönnun og notendaviðmóti frá því sem áður var.

Ég er orðin bæði ráðsnjöll og stælt síðan ég byrjaði að hjóla í vinnuna.