Á degi 5 kl 13.15 var hin langþráða sýnataka á Suðurlandsbraut. Urðu þar fagnaðarfundir því þeir sem voru í boðinu alræmda voru boðaðir á svipuðum tíma. Allan daginn var ég að bíða eftir svari en undir kvöld höfðu flestir fengið neikvætt svar. En ekki ég. Verð að viðurkenna að ég sveiflaðist á milli vonar og ótta þótt ég hefði engin einkenni. Hvað ef ég er með covid? Kæmist ekki til vinnu dögum saman, lægi í bælinu og gæti enga björg mér veitt og yrði jafnvel marga mánuði að jafna mig? Ég mátti ekki til þess hugsa. Vá hvað ég ætlaði að gæta mín framvegis varðandi sóttvarnir. Það varð alveg skýrt í mínum huga hvað ég er í raun heppin en líf hvers manns er brothætt og góðir dagar hverfulir. Í raun þarf ótrúlega litið til að allt fari á hvolf í tilverunni: atvinnumissir, ástvinamissir, vinir fjarlægjast, heilsubrestur, skilnaður, eignatjón, ofbeldi… enginn er undir þetta búinn en þetta er blákaldur veruleiki. Því skyldi hvern dag að kveldi lofa, þakka fyrir það sem er til staðar, fylla sjálfan sig og aðra af kærleika og umburðarlyndi, horfa á stóru myndina en festa sig ekki í nöldri, píslarvætti og smámunum. Leita skýringar á vanlíðan eins og höfnun og ástleysi, vanmætti, uppgjöf, pirringi og reiði; takast á við og vinna úr þeim tilfinningum sem skolast yfir á hverjum degi án ásökunar eða örvæntingar. Iðka æðruleysi og sleppa tökum. Með þessi fögru fyrirheit að leiðarljósi bjó ég mig til svefns þetta sunnudagskvöld. Þegar ég lagðist á koddann barst sms: þú ert ekki með covid.
heilsa
Sóttkví enn
Þriðji dagur í sóttkví. Í gær fórum við Gunna systir, en við erum báðar sóttkvígur, í 7 km gönguferð um Kársnesið sem hressti mig verulega. En annað hvort er ég ímyndunarveik eða covid er að grassera í hausnum á mér í dag. Eitthvað slen í mér og slím í hálsi og svo er ég komin með bumbu af endalausu snarli og kaffiþambi. Tveir Teams vinnufundir í morgun, bréfaskipti og símtöl fram að hádegi, svo hefur verið rólegt hjá mér „í vinnunni“.
Í byrjun apríl er leshringsfundur og efni fundarins er Halla og heiðarbýlið eftir Jón Trausta, sem lést í spænsku veikinni. Í manifesto leshringsins frá síðustu öld segir að meðlimir verði að vera lesnir í heimsbókmenntum og helstu lókal kanónum svo JT hefur lengi legið óbættur hjá garði.
Fyrstu bindin af Höllu og heiðarbýlinu tvö fékk ég hjá Huldu minni og spændi þau í mig . Óttar Har reddaði mér svo síðustu tveimur bindunum af bókasafni þar sem ég má ekki fara neitt, svo ég lagðist í maraþonlestur í kvínni. Laaaangar náttúrulýsingar sem falla að sálarlífi persónanna taka á þolinmæðina, samtöl eru fá, sögumannsröddin er ágeng en persónur lifandi og eru málpípur augljósar og enginn endir á hörmungunum hjá Höllu. Ljóst er að skáldinu svíður stéttaskiptingin, ömurlegur húsakosturinn, hrikaleg fátæktin og örbirgðin. Ræður Péturs á Kroppi og Aðalsteins læknis eru reiðiþrungnar, þær lýsa grimmum örlögum fólksins sem minnst má sín. Þau sem flytja á heiðarbýlin í leit að frelsi og lausn undan arðráni húsbænda sinn strita þar á hungurmörkum, híma í dimmum og köldum kofa allan veturinn, féð sveltur, kýrin er skorin, börnin deyja úr kirtlaveiki og fólkið dregst upp af skyrbjúg. Síðar hafa auðvitað fleiri snillingar eins og Laxness, Guðrún frá Lundi , Oddný Guðm og Hallgrímur Helgason lýst þessu öllu í svipuðum anda.
En ég er viss um að ef JT hefði haldið áfram með söguna hefði Halla óðarar tekið til við að bjarga Þorsteini frá sjálfum sér og fengið jafn litlar þakkir fyrir og þegar hún bjargaði heiðri pokaprestsins unga með því að gifta sig, ekki þeim næstbesta heldur þeim allraversta. Mig blóðlangar að skrifa lokabindið af Höllu og láta hana verða stönduga og virta í kaupstaðnum, koma börnum sínum til náms og mögulega taka saman við Þorgeir verslunarstjóra.
Nú skín sólin og Binni er að drífa sig aftur á gosstöðvarnar. Hann ætlar samt að fara með mér um leið og ég losna. Hlakka til!
Sóttkví, dagur eitt
Það eru aldeilis dramatískir tímar þessa dagana. Eldgos hófst um síðustu helgi á Reykjanesskaga og í dag var gripið til hertra sóttvarnaraðgerða gegn kórónuveirunni. Öll starfsemi í þjóðfélaginu er meira og minna lömuð og allir nemendur grunn- og framhaldsskóla voru sendir heim í fjarkennslu. Til lánsins eru bara tveir dagar þart til páskafríið hefst.
Ég sjálf fór í örlítið fjölskylduboð sl. sunnudag en þar var lítill frændi sem reyndist kominn með smit tveimur dögum síðar. Allir í boðinu fóru í sóttkví. Gestgjafinn var niðurbrotinn. En svona getur alltaf gerst þegar veira geisar, enginn er alveg óhultur.
Í dag er fyrsti dagur í sóttkví hjá mér. Ég svaf ekki sérlega vel í nótt og dreymdi skýran stressdraum um hús og innrás og ofbeldi. En var vöknuð snemma að vanda. Vann að margvíslegum verkefnum sem nóg er af í mínu starfi og vinnudegi lauk rétt fyrir kl 18 á fundi með skólameisturum og mennta-og menningarmálaráðherra.
Brynjar sem alltaf er æðrulaus og mun aldrei fá covid að eigin sögn fór í dag að gosstöðvunum til að taka ódauðlegar myndir. Ég hef ekki enn farið á svæðið og kemst ekki núna fyrr en eftir sóttkví.
Heyrði aðeins í Gunnu systur sem líka var í boðinu og er þess vegna í sóttkví en hún sat aðalfund Rarik og málaði svefnherbergi í dag. Ef ég veikist ekki ætla ég að taka fataskápinn minn í gegn um helgina, hef ekki alveg staðið mig í að halda reglu sem ég setti mér fyrir rúmu ári: ein ný flík inn, tvær gamlar út. Mikilvægt er að setja sér reglur og enn mikilvægara að fara eftir þeim.
Fleira er á döfinni, ég bíð eftir boði í segulómun á hægra hné. Eymsli þar hafa verið að angra mig síðustu mánuði, og ráð heimilislæknis um að bryðja ibufen dugði skammt. Verst var ég í hnénu á gönguskíðanámskeiðinu sem við Brynjar skelltum okkur á í byrjun þessa mánaðar – eins og hálf þjóðin. Átti námskeiðið að vera fimm skipti en snjóleysi, jarðskjálftar og eldgos bundu enda á glæstan feril þegar tvö skipti voru eftir. Ég fékk ægilega byltu í síðasta tímanum, skall með hnakkann og rassinn í hjarnið og er rétt að jafna mig núna. Þetta tók verulega á festingar framan á hálsinum og enn er ég aum í rófunni þegar ég fer upp stiga.
Planið okkar Brynjars um að fara norður um páskana að heimsækja vini og vandamenn er í uppnámi. Sennilega verðum við að ferðast innanhúss um páskana og reyna að gera gott úr því. Það væsir ekki um okkur í fína húsinu okkar þar sem er nóg að bíta og brenna og alls konar við að vera. Heilu dagana situr Brynjar við tölvuna inni í sínum helli með headphone og vinnur þar og ég flögra um stofu og eldhús með útvarpið í botni, glamra á gítarinn, geng frá þvotti, vökva blóm, ét úr ísskápnum, fæ mér gönguferð, legg kapal í símanum, dorma og les. Nr eitt er að sleppa við veiruna og halda heilsu, andlegri og líkamlegri.
Himneskt
Meðan á stórframkvæmdum í fyrrum eldhúsi hússins stendur, samkomubann varir vegna kórónuveiru og kona hangir mest heima til að smitast ekki, er gott að henda sér í hugljúft jóga. Þetta er bara himneskt!
Langferð framundan
Hingað liggur leiðin 2018.
http://www.brittanymthiessen.com/2017/04/responsible-travel-guide-san-marcos-lake-atitlan-guatemala/
Hjólað í vinnuna
Af þeim rúmlega 420.000 km sem voru skráðir í átakinu #hjólaðívinnuna hjólaði ég 152 á 12 dögum, þ.e. í og úr vinnu.
Sátt við það.
Hjólað í vinnuna

Mynd: everest.is
Eftir að hafa verið bíllaus í hálft ár í Tékklandi gat ég ekki hugsað mér að fara aftur að nota bíl til að fara í vinnuna. Ég minntist þess að hafa forðum lært að hjóla og hugsaði mér gott til glóðarinnar að rifja upp þá takta. Þjóta áfram með vindinn í hárinu, rjóð af súrefni og áreynslu, í spandexgalla með sportröndum yfir vöðvastælt læri og stinna þjóhnappa. Ég minntist þess einnig að hafa forðum eignast reiðhjól, glæstan og óslitinn Wheeler gæðing úr Everest (sbr. mynd). Hann var því grafinn upp úr haug af drasli í bílskúrnum, reyndist hann býsna rykfallinn og alveg loftlaus. Ég skólpaði af hjólhestinum, setti upp huggulegan stand fyrir vatnsflöskuna, keypti lugt, körfu og ofursmartan hjálm og þóttist fær í flestan sjó. En margt hefur greinilega breyst í hjólahönnun á þessum áratugum sem liðnir eru frá því ég steig pedala síðast. Gírarnir eru t.d. þrisvar sinnum fleiri á mínu hjóli en ég hélt… En þegar átti að dæla lofti í dekkin reyndist ventill ekki lengur vera eins og áður var og ekki pumpa heldur.Tvö kerfi eru í gangi, evrópskt og amerískt, sem þurfa hvort sína pumpu. Og á mínu hjóli er amerískt system, ofurviðkvæmt og óskiljanlegt og allt loft þrýstist út við minnstu snertingu. Í fálminu við að koma pumpunni uppá ventilinn, spýttist hann af og hvarf í draslahauginn í bílskúrnum. Eftir að hafa sótt varahluti um langan veg og bisað heilmikið við pumpuna tókst mér að fylla dekkin lofti og svífa loksins af stað. Merkilegt hvað hægt er að gera einfalda hluti flókna, hvað var að gamla pumpukerfinu?
Allt gekk síðan eins og í sögu og ég fíla frelsið sem fylgir því að hjóla um götur og stíga, fylla lungun af súrefni, virkja ónotaða vöðva og hreinsa hugann um leið. Svo vildi ekki betur til í morgun en að keðjan hrökk af tannhjólinu í miðjum hjólatúr. Mig rámaði í að forðum daga var keðja svo strekkt að það var engin leið að koma henni uppá aftur nema með miklu afli, handalagni og hugviti en ekkert af þessu var mér tiltækt á þessari stundu. Hvað var þá til bragðs að taka? Gefast upp? Teyma hjólið í hlað? Hringja í viðgerðarmann? Nei, fjandakornið. En þá hugkvæmdist mér að líta nú aðeins á keðjuverkið í stað þess að horfa til himins og bíða eftir kraftaverki. Sá ég þá að keðjan var sultuslök, hún hvíldi á litlu hjól að aftan á sveigjanlegum armi og enginn vandi að vippa henni á sinn stað á núll, einni. Hvílíkar framfarir í hönnun og notendaviðmóti frá því sem áður var.
Ég er orðin bæði ráðsnjöll og stælt síðan ég byrjaði að hjóla í vinnuna.
Hálfmaraþon
Mér tókst að ljúka hálfmaraþoni í RM í sumar. Ég var búin að strengja þess heit að gera þetta á árinu 2014 en var soldið hikandi, mér fannst undirbúningur minn ekki nógu góður. Ég hafði hlaupið mest 19 km og það var í apríl! En æft nokkuð stöðugt í sumar, stuttar vegalengdir, 5-8 km, 2-3 í viku. En félagar mínir í hlaupahópnum höfðu mikla trú á að ég gæti þetta og ég lét spana mig. Síðustu dagana fyrir hlaupið var ég ótrúlega „peppuð“, fór 11, 13 og 15 km og hlakkaði til hlaupsins. Í 10 km hlaupinu í fyrra var ég ekki svona kát, þá var tímapressa á mér, en nú vissi ég ekkert hvað ég var að fara út í og var hin glaðasta. Stutta útgáfan er sú að eftir 5 km fékk ég krampa í kálfann sem varði allt hlaupið svo segja má að ég hafi farið þetta á einni löpp! En þetta var æðislegt! Tíminn 2,10 og ég er alsæl með árangurinn. Næst er það hlaup í útlöndum, ekki spurning!
Uppgjör
Samtals skrönglaðist ég í ágúst 56,6 km og æfingatími er samanlagður 8,46 klst. Það er ekki sérlega mikill tími, eða ca. 2 klst á viku. September verður betri.
Hjartadagurinn
Loksins fór ég út að skokka eftir langa hvíld. Ég er svo ánægð með RM að ég hef setið mest á rassinum síðan og stært mig af afrekinu. Heiðmörkin heillaði í góða veðrinu í gær og þar var skondrast eftir grýttum krákustígum og svitnað sæmilega. Nú er stefnan tekin á Hjartadagshlaup, sunnudaginn 25. sept., það hvetur mann heilmikið að hafa markmið til að stefna að, helst vil ég hlaupa hraðar en síðast… Er einhver sem vill koma með mér? Allir komast 5 km með smáundirbúningi, hver fer á sínum hraða og ekkert stress! Hjartað þarf að pumpa, lungun þrá súrefni, vöðvarnir liðkast og mýkjast við hreyfingu!