heilsa

Fram þjáðir menn í lekum bússum

Hreistur_kapa_prent.inddEf nefna ætti einhvern sem hefur gert íslenskum farandverkamanni almennileg skil í ljóði og myndum, kemur Bubbi Morthens auðvitað fyrst upp í hugann. Töffarinn sem birtist í sjávarþorpinu troðfullur af dópi og hassi og þrælaði sólarhringum saman í akkorði við fiskvinnu. Hann tilheyrði rótlausum verkalýð sem fór pláss úr plássi þegar vantaði fólk í uppgripavinnu í frystihúsum, loðnubræðslum, á togurum eða dagróðrabátum; ílentist hvergi, passaði hvergi. Þetta var áður en fiskveiðikvótinn varð eign sægreifanna með þeim afleiðingum sem allir þekkja.

Farandverkamaðurinn og minningar úr sögu þjóðar eru efniviður ljóðabókar Bubba sem nefnist Hreistur. Bókin sem er tileinkuð fóstru hans og helsta bókmenntapáfa landsins, Silju (Aðalsteinsdóttur) inniheldur 69 nafnlaus og númeruð ljóð og umgjörð þeirra er sjö vökunætur þar sem fortíð vitjar mælandans sem „flæktur í vetrarkvíða“ (1) „fangar ljósfælin botndýr hugans“ (35).

Já, frystihúsið, færibandið og farandverkamaðurinn, allt er það nú gott og blessað en höfum við ekki heyrt þetta allt áður hjá höfundinum? Jú, hrognin eru að koma og ef ég drukkna, drukkna í nótt skjóta upp kolli í Hreistri, þetta þema hefur fylgt Bubba frá upphafi ferils hans seint á síðustu öld og er vörumerki hans. En einhvern veginn hefur hann alltaf lag á að endurnýja sig, koma ferskur inn. Og þetta er harðvítugt efni sem er ekki tæmt, bitur reynsla sem enn á eftir að vinna úr. Vísanir í fyrri verk búa til stemninguna, lesandinn setur sig í stellingar, kominn aftur í tímann, mættur upp á verbúð eftir langa vakt í hvítum stuttermabol með hlandvolgt vokda í kók.

Fiskverkafólkið hírist í fjórtán köldum og subbulegum herbergjum á verbúðinni sem „lykta af fiski, brundi, slori, rakspíra“ (1). Þetta er munaðarlaust, menntunarlaust og skeytingarlaust fólk (3) sem vekur hálfgerðan óhug meðal þorpsbúanna. Sjávarplássin eru í uppgangi á þessum tíma, símstöðin og kaupfélagið á sínum stað, það er næg atvinna og útgerðin blómstrar og það er ball í landlegum. En afturhvarf til hreistraðrar fortíðar er hvorki nostalgískt né fegrað. Þetta er harður heimur sem einkennist m.a. af ofbeldi og vímuefnaneyslu, eins og sjá má í ljóði sem dregur upp mynd af hópnauðgun á verbúðinni; atvik sem brenndi sig í minni ljóðmælandans. Heyrum skáldið fara með ljóð nr 27.

Bubbi les ljóðið 11.23-13.02        http://www.ruv.is/frett/eg-vard-vitni-ad-brutal-naudgun

Ljóðið er grípandi og áhrifamikið. Bubbi hefur sjálfur valið það til upplestrar víða enda smellpassar það inn í þá vaxandi umræðu um kynferðisofbeldi fyrr og nú sem á sér stað í samfélaginu. Í ljóðinu er lýst hinum sundurleita hópi fólks sem dvelur á verbúðinni; krúttlegur prófessor og kona sem segir sögur við „varðeld fiskanna“ en skrýmsli liggur í leyni; ofbeldi á sér stað, eins og „fjólublátt armband“ ber vott um; það er glæpur í gangi og það að hafa ekkert aðhafst hvílir á samviskunni árum saman.

Myndmálið úr mal Bubba samanstendur oftlega af kunnuglegum eignarfallssamsetningum, eins og „ískaldir fingur vetrarins“ og „langir armar myrkursins“. En í Hreistri eru líka ljóðmyndir sem ganga vel upp og eru nýmeti, hressilega jarðtengt og alveg séríslenskt. Ég tíni hér til nokkrar slitrur:

„langir fölgrænir veggir með / blóðblettum vínblettum leifum af uppköstum / voru okkar kjarval (1)

stelpurnar / allar þessar sölkur / með hníf í hendi og hárið frjálst (15)

í þúsund fokkera fjarlægð

var borgin sem við höfðum flúið

(40)

ríkistónlistin barst frá hátalara sem hékk niður úr loftinu

torfbæjarraddir fluttu dánartilkynningar

og jarðarförin var fyrr en varði komin inn til okkar

(40)

fram þjáðir menn í lekum bússum

(53)

sjóveikt viðundur

í óráðinu ljómaði hafið í sökkvandi raunveruleika

spýjan skall á gólfið

hálfmeltar hugmyndir um sjómennskuna

skoluðust eftir þilfari fyrir borð

(62)

Ljóð nr 16 finnst mér gott, líka nr 40, 44, 55. Og að lesa nr 65 er eins og að koma í heimahöfn, það er framlenging á frægasta lagi Bubba sem gaulað er í öllum betri partýum. Hreistur boðar ekki nýjungar í skáldskap, það eru engin átök við form eða efni en vel er farið með. Hreistur er heldur ekki pólitísk bók, það er engin reiði eða ádeila á ferð í þessu uppgjöri heldur stafar einlægni af ljóðunum og jafnvel örlar á viðkvæmni. Hörkuleg ímynd töffarans með stálið og hnífinn hefur dignað og velkst af boðaföllum í lífsins ólgusjó.

Alexandra Buhl annaðist hönnun og umbrot Hreisturs sem er alltof fíngert og nostursamlegt og í hróplegu ósamræmi við hrátt og blautt innihaldið. Og ég verð að segja, sem fyrrum frystihúsgella, að ég hef á tilfinningunni að hreisturgrafíkin sem prýðir bæði bókakápu og blaðsíðurnar snúi öfugt.

 

Víðsjá, 7. sept 2017: http://www.ruv.is/frett/adeilunni-skipt-ut-fyrir-einlaega-vidkvaemni

 

 

Hjólað í vinnuna

cross-lite-620l

Mynd: everest.is

Eftir að hafa verið bíllaus í hálft ár í Tékklandi gat ég ekki hugsað mér að fara aftur að nota bíl til að fara í vinnuna. Ég minntist þess að hafa forðum lært að hjóla og hugsaði mér gott til glóðarinnar að rifja upp þá takta. Þjóta áfram með vindinn í hárinu, rjóð af súrefni og áreynslu, í spandexgalla með sportröndum yfir vöðvastælt læri og stinna þjóhnappa. Ég minntist þess einnig að hafa forðum eignast reiðhjól, glæstan og óslitinn Wheeler gæðing úr Everest (sbr. mynd). Hann var því grafinn upp úr haug af drasli í bílskúrnum, reyndist hann býsna rykfallinn og alveg loftlaus. Ég skólpaði af hjólhestinum, setti upp huggulegan stand fyrir vatnsflöskuna, keypti lugt, körfu og ofursmartan hjálm og þóttist fær í flestan sjó. En margt hefur greinilega breyst í hjólahönnun á þessum áratugum sem liðnir eru frá því ég steig pedala síðast. Gírarnir eru t.d. þrisvar sinnum fleiri á mínu hjóli en ég hélt… En þegar átti að dæla lofti í dekkin reyndist ventill ekki lengur vera eins og áður var og ekki pumpa heldur.Tvö kerfi eru í gangi, evrópskt og amerískt, sem þurfa hvort sína pumpu. Og á mínu hjóli er amerískt system, ofurviðkvæmt og óskiljanlegt og allt loft þrýstist út við minnstu snertingu. Í fálminu við að koma pumpunni uppá ventilinn, spýttist hann af og hvarf í draslahauginn í bílskúrnum. Eftir að hafa sótt varahluti um langan veg og bisað heilmikið við pumpuna tókst mér að fylla dekkin lofti og svífa loksins af stað. Merkilegt hvað hægt er að gera einfalda hluti flókna, hvað var að gamla pumpukerfinu?

Allt gekk síðan eins og í sögu og ég fíla frelsið sem fylgir því að hjóla um götur og stíga, fylla lungun af súrefni, virkja ónotaða vöðva og hreinsa hugann um leið. Svo vildi ekki betur til í morgun en að keðjan hrökk af tannhjólinu í miðjum hjólatúr. Mig rámaði í að forðum daga var keðja svo strekkt að það var engin leið að koma henni uppá aftur nema með miklu afli, handalagni og hugviti en ekkert af þessu var mér tiltækt á þessari stundu. Hvað var þá til bragðs að taka? Gefast upp? Teyma hjólið í hlað? Hringja í viðgerðarmann? Nei, fjandakornið. En þá hugkvæmdist mér að líta nú aðeins  á keðjuverkið í stað þess að horfa til himins og bíða eftir kraftaverki. Sá ég þá að keðjan var sultuslök, hún hvíldi á litlu hjól að aftan á sveigjanlegum armi og enginn vandi að vippa henni á sinn stað á núll, einni. Hvílíkar framfarir í hönnun og notendaviðmóti frá því sem áður var.

Ég er orðin bæði ráðsnjöll og stælt síðan ég byrjaði að hjóla í vinnuna.

 

Hálfmaraþon

10184_1408561496Mér tókst að ljúka hálfmaraþoni í RM í sumar. Ég var búin að strengja þess heit að gera þetta á árinu 2014 en var soldið hikandi, mér fannst undirbúningur minn ekki nógu góður. Ég hafði hlaupið mest 19 km og það var í apríl! En æft nokkuð stöðugt í sumar, stuttar vegalengdir, 5-8 km, 2-3 í viku.  En félagar mínir í hlaupahópnum höfðu mikla trú á að ég gæti þetta og ég lét spana mig. Síðustu dagana fyrir hlaupið var ég ótrúlega „peppuð“, fór 11, 13 og 15 km og hlakkaði til hlaupsins. Í 10 km hlaupinu í fyrra var ég ekki svona kát, þá var tímapressa á mér, en nú vissi ég ekkert hvað ég var að fara út í og var hin glaðasta. Stutta útgáfan er sú að eftir 5 km fékk ég krampa í kálfann sem varði allt hlaupið svo segja má að ég hafi farið þetta á einni löpp! En þetta var æðislegt! Tíminn 2,10 og ég er alsæl með árangurinn. Næst er það hlaup í útlöndum, ekki spurning!

Hjartadagurinn

Loksins fór ég út að skokka eftir langa hvíld. Ég er svo ánægð með RM að ég hef setið mest á rassinum síðan og stært mig af afrekinu. Heiðmörkin heillaði í góða veðrinu í gær og þar var skondrast eftir grýttum krákustígum og svitnað sæmilega. Nú er stefnan tekin á Hjartadagshlaup, sunnudaginn 25. sept., það hvetur mann heilmikið að hafa markmið til að stefna að, helst vil ég hlaupa hraðar en síðast… Er einhver sem vill koma með mér? Allir komast 5 km með smáundirbúningi, hver fer á sínum hraða og ekkert stress! Hjartað þarf að pumpa, lungun þrá súrefni, vöðvarnir liðkast og mýkjast við hreyfingu!

10 km eins og ekkert sé

Ég get hlaupið tíu km, án þess að stoppa og kasta mæðinni! Ég komst að því í Reykjavíkurmaraþoninu í dag þegar ég tók í fyrsta skipti þátt í opinberum íþróttaviðburði. Veðrið var eins og best verður á kosið og stemningin frábær, hvatningarhróp og gleðilæti á hverju horni svo maður var næstum hrærður. Slökkviliðsmenn fá fimm stjörnur frá mér en þeir hlupu sveittir og stæltir í útigalla með fatlaða í kerru. Ég var nr 2778 í röðinni af 4307 konum. Og tíminn (lokatími og „flögutími“):

2778 7095 Steinunn Inga Óttarsdóttir IS200 F 40 – 49 ára 340 01:07:17 01:04:17

Hnémeiðsl

RM eftir 2 daga, stress í hámarki og skipulagið allt í klúðri. Bæði hef ég lítið æft í vikunni og svo sneri ég eitthvað upp á hnéð á mér í dag þegar ég var að klöngrast yfir girðingu. Ég læt það samt ekkert stoppa mig, fæ mér bara voltaren og hnéhlíf. Ætli fall sé ekki fararheill?

Maraþon, já sæll!

Ég er búin að skrá mig í Reykjavíkurmaraþon, 20. ágúst. Ætla að skrönglast 10 km hvað sem tautar og raular, vona að ég lifi það af og að starfsmenn hlaupsins verði ekki farnir heim þegar ég kem í mark. Nú þarf maður víst að fara að æfa sig, við Þóra hlupum rólega 5,6 km í blíðunni í dag og tókum stigann í tveimur lotum.