
Í kvennabúri soldáns
Ég er að lesa Tré Janissaranna, sakamálasögu eftir Jason Goodwin í svolítið stirðri þýðingu Ragnars J. Gunnarssonar. Geldingnum Yashin er falið að rannsaka dularfull morð við hirð Tyrkjasoldáns. Óvenjuleg rannsóknarlöggan, sögutíminn (nítjánda öldin) og framandi umhverfi heimsveldis Ottómana í Istanbúl minnir mig aðeins á sögurnar um Erast Fandorín (Boris Akunin), hinn fræga og rökvísa, rússneska spæjara sem ég held mikið upp á. Yashim er fágætur karakter og merkileg persóna, geltur á unga aldri, kynlaus en ekki alveg laus við langanirnar. Hann er útsmoginn og lunkinn að leggja saman tvo og tvo, fíhraustur og afbragðs kokkur (girnilegar uppskriftir eru í sögunni). Það er gaman að fylgjast með iðandi borgarlífinu, markaðstorgum og moskum, kurteisisvenjum og tedrykkju, stéttaskiptingu og samfélagsgerð þar sem súpugerðarmenn, vændiskonur og sútarar hafa hver sitt umráðasvæði. Fortíð og framandi menningarheimar eru svo sannarlega heillandi söguefni. Janissarar þeir sem bókin er kennd við voru úrvalssveit hermanna sem hafði verndarhlutverk og naut ýmissa forréttinda. Á friðartímum gerðust þeir yfirgangssamir og loks fékk soldáninn nóg, snerist gegn þeim og voru þeir felldir þúsundum saman hvar sem til þeirra náðist. Nú er ég á bls. 204 (af 345) og svo virðist sem einhverjir Janissarar hafi lifað af helförina og hyggi á hefndir. Líst vel á og held að Yashim muni takast að leysa málið en til þess hefur hann aðeins tíu daga.
Nú eru allavega ein ummæli.
Búin með bókina og hún var ekki alveg nógu góð, hvort sem það var þýðingin eða hvað. Datt einhvern veginn botninn úr henni.