
Dickens, 1812-1870
„…Ég hef reynt að lýsa þvi sem kom fyrir mig og mömmu á eynni. Ég hef ekki reynt að fegra neitt. Allir segja það sama og Dickens. Þeir hafa dálæti á sögupersónum hans. En eitthvað hefur breyst innra með mér. Eftir því sem ég hef elst hef ég fjarlægst sögupersónur hans. Þær eru of háværar, þær eru ýktar. En séu grímurnar teknar af þeim má sjá skilning hjá skapara þeirra á mannssálinni og öllum þrautum hennar og fordild. Þegar ég sagði föður mínum frá dauða mömmu féll hann saman og grét. Það var þá sem ég áttaði mig á því að fegrun getur átt rétt á sér. En hún á heima í lífinu – ekki bókmenntunum“ (233).
Herra Pip er frábær bók. Á afskekktri suðurhafseyju geisar stríð en hin 13 ára Matilda kynnist Glæstum vonum eftir Dickens hjá hinum undarlega Hr. Watts, eina hvíta manninum á eyjunni. Hermenn og skæruliðar halda eyjarskeggjum í helgreipum, eina flóttaleiðin er á náðir skáldskaparins en hann getur verið skeinuhættur. Sagan er um kærleika, grimmd og hinn undarlega eiginleika eða náðargáfu mannskepnunnar að geta raðað saman lífi sínu úr rjúkandi rústum.