Allt í hund og kött

Það fer voða vel á með okkur

Á leið út í gönguferð?

Það hefur gengið á ýmsu í hundalífinu síðustu daga. Fyrir rúmri viku fórum við Arwen út að ganga í roki og rigningu og vorum að togast á, ég er að kenna henni að troðast ekki fram fyrir mig, gera ekki árás á alla hunda og ketti sem hún sér eða hlaupa snuðrandi í hringi í gönguferðinni. Ekki vildi betur til en svo að ég skall kylliflöt í götuna með olnbogann á kaf í malbikið, hnakkinn og rófubeinið fengu sömuleiðis skell. Þessu fylgdi gríðarlegur sársauki fyrir utan sjóðheita bræði og niðurlægingu – en sem betur fer var svo vont veður að það var enginn áhorfandi að þessu. Ég hef gengið með umbúðir og teygjusokk um olnbogann í viku og það er fyrst í dag sem ég er ekki sárkvalin í  hendinni. Í fyrradag birtist svo óboðinn gestur á stigaskörinni þegar við Arwen komum heim en það var allvígalegur loðköttur að vísitera í hverfinu. Á mig kom fát og ég stökk til og ætlaði að henda honum út áður en Arwen réðist á hann (en það skynsamlega í stöðunni hefði verið að loka hana inni fyrst) en kötturinn leit hvorki á mig sem bjargvætt sinn né  lífgjafa heldur sem óvin ríkisins nr 1 og sökkti í mig hárbeittum klónum, orgaði og hvæsti og barðist um eins og sært ljón. Ég orgaði engu minna, sleit hann af mér og nú fór allt í hund og kött. Upp hófst eltingarleikur upp á líf og dauða sem endaði með því að mér tókst að handsama tíkina og loka hana inni í þvottahúsi og þeytti kettinum út á hlað í loftköstum með tilheyrandi orðbragði um skítlegt eðli hans sjálfs og kynþáttar hans. Kattarklórið á framhandleggjum mínum tók að bólgna svo og þrútna um kvöldið og til að gera langa sögu stutta neyddist ég til að leita á náðir heilsugæslunnar og endaði með sáraumbúðir, penisilín og stífkrampasprautu.  Arwen er búin að vera doldið lúpuleg síðan þessir atburðir gerðust en við látum  ekki nokkur sár eða væg taugaáföll spilla vinskapnum.

10 athugasemdir

 1. Aumingja Steina ….haltu þig fjarri öllum dýrum á næstunni. Vona að þú náir þér fljótt og vel.
  Heima hjá mér búa gullfiskarnir Óðinn og Þór sem eru frekar friðsælir!

 2. Ég myndi allavega ekki fara í þessum fínu skóm þegar þú ferð með Arwen í gönguferð. Nýja tætta gallabuxnalúkkið sem er að gera allt vitlaust í tískuheiminum þessa dagana gæti hinsvegar hentað þér vel.

 3. Þetta er ljót saga og auðvelt að vera vitur eftirá, ég tel að mistökin séu fyrst og fremst þau að vera að skipta sér af slagsmálum svoleiðis hefur alltaf endað með ósköpum fyrir þann sem það reynir. Köttur sem er nógu vitlaus til að ráðast á bjargvætt sinn og er líka nógu vitlaus til að spranga inn í hús fullt af hundapest á bara varla skilið að lifa

 4. Það er sem ég segi!! Hjá hundatemjurunum labba hundar alltaf við hæl og líta hvorki til hægri né vinstri, en þegar eigandinn er kominn á hinn endann á ólinni verður allt vitlaust. Ég hef tekið þann pólinn í hæðina að vera sem minnst að ganga með kvikindið í ól, heldur hjóla ég með hann (ekkert hættulegt!) Hef að vísu ekkert dottið lengi og þróað með mér sleppibúnað þannig að ef við mætum ketti sleppi ég strax takinu. Hann nær þeim hvort eð er aldrei. Líka er ég dugleg að fara með hann „alla leið“ út fyrir bæinn og sleppa honum þar, annað hvort labba ég eða hann hleypur með bílnum.
  En það þarf að hreyfa kvikindið á hverjum degi, annars verður hann óþolandi, mænir á mig hundaaugum með lafandi tungu og eltir mig hvert fótmál, þannig að ég er dettandi um hann í tíma og ótíma.
  Það er hundalíf að vera hundaeigandi!

 5. ….er þetta hundahlad virkilega svona mikils virði að menn leggja á sig líkamleg meiðsl, skyldur og ómælt ófrelsi ??? Ég bara spyr !

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s