Hundalíf

Besti og fallegasti hundurinn

Frábært ferðalag

Ég hef víða farið um landið á frækna húsbílnum okkar stjörnuparsins og jafnan haldið ferðadagbók sem ég birti hér á vefnum. Í breytingum á útliti vefsins fyrir löngu týndi ég þeim og fann þær aldrei aftur. Því var ég glöð að rekast á þessa pdf ferðasögu í möppu í tölvunni í gær og rifja upp dásamlega daga meðan frostið bítur kinn.

Húsbílareisan 2012

 

cropped-mg_2924.jpg

Tilvitnun dagsins

_MG_7697

„Hundar hafa engin réttindi einsog allir vita, og hin alþekkta kristilega miskunnsemi nær ekki niður til þeirra. Kristileg miskunnsemi er mjög stirð í bakinu, og á erfitt með að beygja sig. Það hentar henni betur að vera með höfuðið í skýjunum.“

Gyrðir Elíasson, 2016

Hundaborgin

Í Prag er háþróuð hundamenning og margir eiga hund að einkavin. Heyrt hefi ég að það sé einn hundur á hverja tvo borgarbúa (íbúafjöldinn er 1,3 milljónir) en sel ekki dýrara en ég keypti. Í blokkinni minni eru fimm hundar í einni íbúðinni á efstu hæð og stór, svartur Labrador veit ég að á heima í íbúðinni beint á móti. Aldrei hafði ég samt heyrt svo mikið sem bofs í honum að heitið gæti, fyrr en síðastliðinn sunnudagsmorgun. Þá brá eigandinn sér á skrall kvöldið áður og skildi hundinn einan eftir, spangólandi af söknuði, hungri eða hlandspreng. Ég er búin að bjóðast til að gæta dýrsins næst þegar útþráin grípur eigandann.

Hér eru hundar agaðir, vel upp aldir og kátir, þeir eru ekki alltaf hafðir í ól en eru gjarnan með munnkörfu, og þeir hlýða skilyrðislaust við minnstu vipru, augnatillit eða blístur. Hundar eru í sporvögnum og lestum, inni á veitingastöðum, á markaðnum, í almenningsgörðum og verslunarmiðstöðvum; þeir fá oft að skokka lausir, enginn kippir sér upp við það og þeir amast ekki við neinum. Við inngang veitingastaða og verslana má sjá vatnsdalla á stéttinni sem eru ætlaðir til þess að hundar geti svalað þorsta sínum. Yfir svölustu vetrarmánuðina eru hundarnir dubbaðir upp í alls konar föt og prjónapeysur, stundum eins klæddir og eigandinn, og einn lítinn stubb sá ég með húfu á hausnum en hann var reyndar ekkert ánægður á svipinn. Það er örmjó lína milli þess að eiga hund og kúga hund.

Langflestir hundaeigendur hirða upp eftir hundinn sinn, séð hefi ég þó einn og einn hundaskít á gangstétt en hann staldrar ekki lengi því sorphirðumenn eru alla daga með sóp og fægiskóflu á lofti við að hirða sígarettustubba, pappírsrusl og annað sem til fellur í dagsins önn í erilsamri milljónaborg, enda er Prag einstaklega hrein og snyrtileg.

IMG_7751

Þessi var á bændamarkaði á sunnudagsmorgni, ekki til sölu samt

En borgin fagra á sér skuggahliðar. Betlarar liggja á sögufrægri Karlsbrúnni í eins konar hundastellingu (hvolpateygju), hvíla þungann á olnbogum og hnjám og rétta fram sprungna lófa í von um ölmusu. Stundum liggur tætingslegt hundspott af blandaðri tegund við hlið þeirra, sneplótt og sultarlegt, sem vekur ekki minni samúð en mannskepnan í eymd sinni og niðurlægingu. Séð hef ég líka fulla og dópaða róna með horaða, vanrækta og óttaslegna hunda, sorgin í augum þeirra er hjartaskerandi.

Prag er líka borg hinna mörgu myndastytta. Á eins kílómetra rölti má búast við að sjá ekki færri en 30 styttur. Og séð hefi ég a.m.k.tvær hundastyttur, reistar til heiðurs þessum ástríku tryggðatröllum, besta vini mannsins.

 

Dýravernd II

Það er kunnugra en frá þurfi að segja, hve oft hundar hafa orðið ferðamönnum að liði, og oft og einatt bjargað lífi þeirra með því að rata í dimmviðrum eða vara við ófyrirséðri hættu. Allir ferðamenn, sem láta hund fylgja sér, skyldu því sýna þessum góða förunaut sínum mestu nákvæmni í allri meðferð, ekki síst á langferðum.

Dýraverndarinn, 1955

Dýravernd

_MG_8601

„Dýravinir hafa ekki það eitt fyrir augum að afstýra grimmdarfullri misþyrming á skepnum, heldur vilja þeir stuðla að því, að öllum skepnum geti liðið svo vel sem kostur er á, hvort heldur eru húsdýr eða aðrar skepnur. En til þess að nálgast það takmark, vita þeir að grafa þarf fyrir margar og djúpar rætur í þjóðlífi voru. Eigingirnin þarf að minnka, mannúðin að vaxa og verða almennari.“

Úr leiðara fyrsta tölublaðs Dýraverndarans, sem kom út í tæp 70 ár, frá 1915 til 1983