
Rosa hasar
Mér tókst að ná mér í næstu bók í Millenium-seríunni svokallaðri, framhald af Menn sem hata konur eftir Stieg Larsson. Það er á ylhýrri dönsku, Pigen der legede med ilden, útleggst svo: Stúlkan sem lék sér að eldinum. Lesturinn gengur ótrúlega vel, ég bý greinilega að fornri dönskukunnáttu frá áttunda áratugnum. Ég er búin með ca. 300 bls. og eftir langar lýsingar á því þegar Lisbeth Salander kaupir sér íbúð og fer í Ikea er hún allt í einu eftirlýst fyrir þrjú morð! Og auðvitað frekar grunsamleg þar sem hún er á skrá yfir léttgeggjað fólk, hún hefur verið svipt forræði og er með skuggalega fortíð. Spennan er rosaleg, ör skipti sjónarhorns, flottur og hraður stíll og stutt samtöl. Að vísu eru tölvupælingarnar stundum doldið hjárænulegar, t.d. lýsingar á alls konar hakkaraforritum, netþjónum, aðgangsorðum, möppum og skjölum, og ræsingu ýmissa forrita (t.d. Word). Mikael sjarmatröll er á sínum stað, kaldrifjaðir glæponar og misgáfaðar löggur flækja málið, alls konar krókar og útúrdúrar og hvert smáatriði er útpælt! Ég fæ þriðju og síðustu bókina eftir helgina, á sænsku og þá reynir á norrönt samarbejde.
Pfff… ég þurfti að loka augunum því ég var svo hrædd um að þú segðir frá söguþræðinum. Ég get sem sagt ekki lesið þessa færslu fyrr en þú hefur sannfært mig um að það sé óhætt!
Það er óhætt, hér er engu ljóstrað upp!
Takk fyrir takk fyrir takk.
Ég hlakka til þegar bókin kemur á íslensku. Nenni ekki nordisk samarbejde!
Svo er líka gaman að hafa eitthvað til að hlakka til, ekki satt?
Finnst þessi best í trílógíunni, góða skemmtun, ég meina god fornöjelse…