
Inga og vinkonur hennar
Inga átti afmæli í dag. Fjórtán ára fimbulskvísa, ákaflega glaðlynd og skapgóð stúlka, góðum gáfum gædd og með frábæran húmor. Það er ótrúlegt að svona langur tími sé liðinn frá því hún fæddist á Landspítalanum undir handleiðslu MFS, þ.e. Meðganga, fæðing, sængur-lega, sem var sérstakt prógramm fyrir hraustar barnshafandi konur og gekk út að hafa rólegt og afslappað andrúmsloft í kringum fæðing-una. Ég man að við fengum huggulegt herbergi til að fæða barnið í, aðeins ein ljósmóðir var viðstödd og hún hafði annast mig alla meðgönguna, ég man að Enya emjaði lágt í græjunum, það var rökkvað í herberginu, kveikt á kertum, allt fullt af púðum og teppum og ég gat hagrætt mér í fæðingunni. Engin lyf voru notuð, aðeins glaðloft. Þetta var frábær upplifun. Þegar Óttar minn fæddist átta árum fyrr, lá ég á bakinu á skjannabjartri og kaldri sjúkrastofu, umkringd læknum og hjúkrunarfólki, stútfull af peditíni og vissi hvorki í þennan heim né annan. Það er mikilvægt að konum líði eins vel og hægt er þegar barn fæðist, í öruggu, þægilegu og afslöppuðu umhverfi. Þá minnkar þörf fyrir lyf og deyfingar og reynslan verður allt önnur og ánægjulegri. En þetta var áður en heilbrigðiskerfinu á Íslandi var rústað. Nú er ég að kynnast því á nýjan leik í gegnum veikindi mömmu og það er ekki nema fyrir fílhrausta menn að glíma við það batterí. Ég óska ykkur, lesendur góðir, góðrar heilsu og langlífis.
Til hamingju þið báðar!