Morgunhani

Sjómannadagsmorgunn kl. 9, frekar kuldalegt og sólarlaust.  Sumarið er tími morgunhanans. Ég er búin að lesa moggann og hita mér te. Plan dagsins er m.a. að skrifa handrit að útvarpsþætti, ég hef ekki minnstu hugmynd hvernig það er gert en hef samt tekið að mér að gera einn slíkan. Við höfum sagt upp áskriftinni að Stöð 2 og ég get ekki sagt að ég sakni hennar, þar eru endalaust einhverjar leiðindabíómyndir og yfirborðslegir hjalþættir, bæði innlendir og erlendir. Nú verður tíminn sem fór í sjónvarpsdoða nýttur til hluta sem eru skapandi og gefandi. Framkvæmdir á svölum hússins eru komnar á lokastig, búið er að múra svalagólfið, fræsa það og grunna og borið verður lútsterkt epoxy-lakk á í dag ef ekki rignir. Handrið er næst á dagskrá og skiptar skoðanir meðal íbúa hússins um hvernig það á að líta út. Vonandi næst samstaða um það sem fyrst svo hægt verði að drífa fram garðstólana og njóta blíðunnar á bikiníinu með góða bók á svölunum því haustið kemur fyrr en varir með kvöldkul og rökkur.

6 athugasemdir

  1. Vúúú, spennandi…Og um hvað er útvarpsþátturinn? Æskuminningar frá Akureyri? Ferðasögur frá 18. öld? Samband manns og hunds? Maður spyr sig.

  2. Það er hausverkurinn, efnið er nefnilega valið fyrir mann, það sem um er að velja er eins og ritgerðarefni úr barnaskóla: 1. Vegamót, 2. frelsi, 3. dagur í lífi þáttastjórnanda. Búin að byrja þrisvar á hverju en andinn kemur ekki yfir mig.

  3. Mér finnast þetta mjög áhugaverð efni, hvað er frelsi ? Er það mismunandi hvernig einstaklingar upplifa frelsi ? Er eitthvert frelsi til í nútíma samfélagi, er maður ekki alltaf undir einhverjum siðareglum og lögum ? Eða felst frelsið í því að vera maður sjálfur ? Allavega erum við svo til hætt að hlaupa nakin um í skógi líkt og Tarzan forðum. Hvað er frjáls maður í dag ?
    Vegamót er líka spennandi efni …
    Koma svo : you can do it !!!

  4. Kæra hæna.

    Það er þrennt sem kúgar þínar kynslóð:

    1) Sjónvarpið. Fólk eldra en 35 virðist eiga afskaplega erfitt með að slökkva á sjónvarpinu, og hafa slökkt á því. Status quo lífsins er að sitja fyrir framan sjónvarpið, sama hvað er í því og stara. Þeir eru ekki margir klukkutímarnir í lífinu og ætli þeim sé ekki einna verst varið í að láta gubba yfir sig ælunni sem fyrirfram ákveðin sjónvarpsdagskrá spúir í von um að hitta fyrir lægsta samnefnara.

    2) Samfélagslegur þrældómur launa og skulda. Búið er að telja hundruðum milljóna vesturlandabúa trú um að drasl sé eftirsóknarvert og að eina leiðin til að ná sér í drasl sé að afsala sér frelsinu og skrifa undir hjá skrattanum upp á vítahring vinnu og skulda. Frelsi það sem fullorðnir telja að börn hafi hefur ekkert með aldur að gera, heldur aðstöðu. Hví ekki að eyða lífinu að reyna að losna undan þessari ánauð sem þessi bölvaða samfélagsgerð er? Lifa eins og róni í nokkur ár til að geta verið kóngur til dauðadags. Það kalla ég frelsi(tm).

    3) Hugmyndafræði í neytendapakkningum. Enginn í heitapottinum reynir að segja það sem honum finnst. Allir eru alltaf að reyna að láta sínar skoðanir og hugsanir passa við þekkta hugmyndafræði. Engu skiptir að engin hugmyndafræði stenst rökfræðilega greiningu, enn sem komið er. Það er ekki þar með sagt að menn eigi að trúa á stólpípur (þekkt hugmyndafræði) og drauga (þekkt hugmyndafræði), heldur þora að losa sig undan hálfvitaböndum fyrrnefnds lægsta samnefnara. Ef ræðið fólk svarar ekki hugleiðingum þínum í heita pottinum þá þýðir það að það er að hugsa. Ef það svarar þá er það væntanlega með tilbúið svar og var ekkert að hlusta á þig. Frjáls hugur!

    Mbk,
    Eggið

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s