Hrafnseyri við Arnarfjörð heitir eftir Hrafni Sveinbjarnarsyni sem oft hefur verið nefndur fyrsti læknir á Íslandi (veginn 1213). Þar er safn tileinkað Jóni Sigurðssyni (1811-1879) og stílhrein minningarkapella um hann. Við komum þar í brakandi sól og fengum okkur kaffi og vöfflu með sultu og rjóma. Útsýnið af bæjarhlaðinu er dýrðlegt og ekki furða að hugur Jóns hafi stefnt hátt eftir að hafa notið þess í uppvextinum. Safnið er áhugavert og alltaf jafn sérstakt að sjá Jón og Ingibjörgu saman á mynd, hann svo ungur og myndarlegur, dökkhærður og sposkur, en hún eins og herfa enda beið hún eftir honum í 12 ár og yngdist ekki á meðan. Hrafnseyri er fornt prestsetur og þar er gullfalleg kirkja með útskornum skírnarsá eftir Ríkharð Jónsson. Æskuheimili Jóns, fallegur burstabær, hefur verið endurgerður mjög smekklega og þar er veitingasalan. Þar má sjá svefnherbergi prestshjónanna og rúmið sem Jón fæddist í. Einnig er þarna reisulegur bautasteinn til heiðurs Jóni og auðvitað er flaggað þarna alla daga.