Sagan af Faust hinum lífsþreytta sem seldi djöfsa sál sína forðum er sígild og Goethe gerði hana að efnivið sínum í samnefndu verki. Faust Goethes er sundurlaus ljóðabálkur sem hann var áratugi að hnoða saman en innan um eru gullmolar. Til eru tvær hálfkláraðar þýðingar á íslensku á Faust. Hið frábæra Vesturport hefur samið leikgerð af Faust og ég var á lokaæfingu í gær í Borgarleikhúsinu. Margt er gott og fallegt í sýningunni en ég var samt ekki alveg heilluð þótt þarna sé frábært og sérlega myndarlegt listafólk. Hilmir Snær er Mefistóteles og æðir frussandi um sviðið með ýktri rödd eins og vanalega, Björn Hlynur er litlaus sem Faust ungur og Rúnar Freyr alltaf jafnstirður. Nína Dögg var algerlega frábær og Þorsteinn Gunnarsson líka, alvöruleikarar sem lýstu upp sviðið með nærveru sinni, góðri framsögn og blæbrigðaríkri tjáningu. Gréta, ungmeyjan sem heillaði Faust með sakleysi sínu og fegurð, var ekkert sérstök, hvorki sérlega saklaus né tælandi. Sviðsmyndin er smart útfærð en oft hrikti í henni þegar leikararnir klifruðu í henni. Yfir áhorfendur er strengt net þar sem leikið er og dansað af mikilli innlifun. Loftfimleikar þessir komu vel út fyrir djöfla og púka og innkoma t.d. Rúnars sem Valentinos (sem er orðinn einhver Valli skrípafígúra) var áhrifamikil en í sumum atriðum voru þeir næstum því kjánalegir. Í leikgerðina finnst mér vanta að túlka miklu dýpra angistina, bölið og efann í breysku manneðlinu. Hins vegar er þetta flugeldasýning í flottum sviðs- og leikhúslausnum, húmor og leikgleði og mér leiddist aldrei. Ég mæli hiklaust með því að fólk sjái þessa sýningu, hún er smart, frumleg og skemmtileg.
Spennandi – ég fer þann 29. jan – heldur þú að netið haldi þangað til? Annars gæti náttúrulega Gunnar Eyjólf bætt það eins og hann gerði svo listavel í Hart í bak !!!!!