Gerpla

„Tveir eru garpar er einna hafa orðið nafnkunnastir á Vestfjörðum, þeir Þorgeir Hávarsson og Þormóður Bersason svarabræður, og er að vonum mart í frásögum af þeim við Djúp, þar sem þeir hófust upp, svo og í Jökulfjörðum og á Hornströndum; hafa þeir og í þessum stöðum öllum frægðarverk unnin…Flestar þykja oss sögur garpa þessara svo merkilegar að andvaka nokkur sé til gerandi að rifja þær upp enn um sinn…“

 Fór að sjá Gerplu í gærkvöldi í Þjóðleikhúsinu. Baltasar Kormákur leikstýrir og samdi leikgerðina ásamt Ólafi Egilssyni og leikhópnum, hún er ansi snjöll og húmorinn algjörlega í öndvegi. Sögumannsformið var notað í góðu hófi, Ólafur Darri þrumaði yfir salinn þegar við átti. Leikmynd Gretars Reynissonar er mjög flott, snarbrattur hamar, loðnar þúfur og burstabæir úr tjöldum sem geta á einu augnabliki breyst í lokrekkju eða æstan sjó. Lýsingin er útpæld og nær algjörlega fram þeim áhrifum sem henni er ætlað,  glímubúningarnir eru óvænt útspil, stíla inn á þjóðrembuna og eru sérlega notadrjúgir. Tónlistin kemur skemmtilega á óvart og kitlar hláturtaugarnar. Leikararnir stóðu sig allir með mikilli prýði, þeir léku t.d. altaristöflu, dauðan hval, feigan hrút og fjöruga hesta eins og ekkert væri og það er nú ekki heiglum hent að tala saman á 14. aldar íslensku og láta það virka. Kolbrún og Þórdís í Ögri eru skýrar andstæður sem takast á um skáldið og elskhugann Þormóð. Björn Thors var mjög flottur,  ekki vitund líkur Katli Mána í þessu stykki, og það er sérlega gaman að sjá  Ólafíu Hrönn og Ilmi leika fögur og tragísk tálkvendi af mikilli reisn og innlifun. Jóhannes Haukur var flottur Þorgeir, brjóstumkennanlegur og meinfyndinn með sína eilífu hetjufrasa og óslökkvandi bardagafýsn. Óborganlegt og ógleymanlegt er ástaratriði á ís þar sem leikararnir skauta um sviðið og auðvitað er atriðið með hvönnina Þorgeirs á sínum stað. Það er ekki víst að þeir sem ekki þekkja Gerplu Laxness  fái jafnmikið út úr sýningunni, miklu er sleppt og margt einfaldað og sumt túlkað í botn eins og gengur þegar heimsfræg skáldsaga er færð í leikbúning í fyrsta skipti. En þetta er frábær sýning, sjónræn og leikræn, falleg og skemmtileg.

4 athugasemdir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s