Tengdadóttirin

Guðrún Árnadóttir frá Lundi (1887-1975) var afkastamikill  og afar vinsæll rithöfundur sem samtals skrifaði 26 skáldsögur. Flestar eru þær ástar-og fjölskyldusögur sem gefa góða innsýn í íslenska sveitamenningu fyrr á öldum. Úr þeim má margt lesa t.d. um kjör fólks fyrr á tímum, stöðu kvenna, stéttaskiptingu, vinnubrögð til sveita, tíðaranda almennt, afþreyingu og tómstundir svo dæmi séu tekin. Það er svo löngu orðið tímabært fyrir metnaðarfulla bóka-og menningarþjóð að gera vandaða sjónvarpsþætti eftir verkum Guðrúnar og selja um allan heim. Ég las Dalalíf mér til mikilar ánægju á sínum tíma og á dögunum las ég Tengdadótturina, 3ja binda skáldsögu sem gerist í Fellssveit einhvern tímann um og eftir aldamótin 1900 gæti ég trúað. Að vísu er fyrsta bindið ekki til á bókasafninu, sennilega verið  lesið upp til agna og seinni bindin tvö eru þokkalega lúin og þvæld af mikilli notkun.  Í Tengdadótturinni segir bæði af þeim Hraunhamrafeðgum, Þorgeiri og Hjálmari, sem eru vel stæðir og nægjusamir (næstum nískir) sjálfseignarbændur og af stórbændunum á Hálsi sem hafa aðra sýn á lífið. Meðan Hálsfólkið með elstu dótturina, rúmlega þrítuga dugnaðarkonuna Sigurfljóð í fararbroddi, fer illa með vinnufólkið sitt, hefur allt í sukki og safnar skuldum, þumlungast og þumbast „það á Hraunhömrum“, gerir vel við sitt fólk og safnar fé í skattholið sitt. Hjálmar verður ástfanginn af Ástu í Heiðargörðum, fátækri en afar laglegri stúlku, en er þvingaður af foreldrum sínum til að trúlofast Sigurfljóð sem er 12 árum eldri en hann. Eru þær afar ólíkar stöllurnar, Ásta er hæglát ljóska, fíngerð, þögul, auðsveip, góð og falleg og bíður þess sem verða vill með Hjálmar sinn en Sigurfljóð er rauðhærð og skapstór, framhleypin, stjórnsöm, harðdugleg saumakona og mikil hestakona, og afar stórbeinótt sem er henni ekki til framdráttar (nef, hendur og fætur er allt í stærra lagi). Sigurfljóð lítur líka stórt á sig enda býr hún á fallegustu og ríkustu jörð sýslunnar og er skólagengin. Ekki er annað hægt en að hafa samúð með henni blessaðri, hún gerir margvísleg mistök í lífinu og lærir seint af þeim. Hún er þó hreinskiptin í öllum brussuganginum og dregur ekki dul á skoðanir sínar en Hjálmar er rola og heigull, a.m.k. framan af sögunni. Sigurfljóð elskar Hjálmar út af lífinu en sú ást er algjörlega óendurgoldin. Það svíður og særir og ástamálin flækjast, tekist á er á um stolt og heiður, ást og afbrýði blossa upp, bréfin berast eða misfarast, slúðrið dafnar og misklíð vex milli sveitunganna og allt er þetta svo skemmtilega skrifað og sviðsett, persónur og samtöl svo lifandi  að maður fyllist notalegri nostalgíu, sogast inn í dimman  torfbæinn, sötrar sjóðheitt kaffið með sögupersónunum og lifir sig inn í dramað.

3 athugasemdir

  1. Ekki má gleyma því að Sigurfljóð er rauðhærð – það er viðsjárvert fólk – og með blakkar tennur = allt sem úr hennar munni kemur er stórhættulegt. Samt rökrétt útlitslýsing, miðað við allt þetta kaffiþamb, það setur auðvitað mark sitt á tennurnar þegar fólk er komið yfir þrítugt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s