Megas og Þórunn Valdimars skrifuðu erótíska sögu fyrir nokkrum árum og hefur hún legið í handriti óbætt hjá garði ef marka má texta á bókarkápu. Sagan kom út fyrir síðustu jól og er stórskondin, grótesk og gamansöm og minnir helst á stíl og frásagnarhátt Guðbergs Bergssonar. Hér erum við að tala um heilmikla nýsköpun og ögrun í stíl, nýyrði og töffaraskap, stuðla, rím og hrynjandi. Karlar og konur eru bordýr og skordýr, skotdýr og gotdýr, raufdýr og skaufdýr, strax á fyrstu bls. Ástarsaga Máneyjar og Himinhrjóðs er skemmtileg og safarík. Gaman að reynslusögum þeirra úr kynlífinu, alltof sjaldgæft stöff í bókmenntum.
En svo er það kvenfrelsisbaráttan 1975 sem er skotspónninn, á soldið karlrembulegan hátt verð ég að segja. Systralag, höfuðgribbur, kvennakirkjugarður, leggöngulög, skessur og brauðsokkur o.s.frv. Gömul mussuklisja er dregin upp og dustað af henni mesta rykið, valdið er vagínunnar, karlar eru til óþurftar. Soldið síðbúin fyndni.