Ekki druslaðist ég á neitt á bókmenntahátíð þótt skömm sé frá að segja. En ég er með Adam og Evelyn eftir Ingo Schulze undir leslampanum. Sagan gerist um 1990, nokkrum mánuðum áður en Berlínarmúrinn féll. Hún fjallar um austur og vestur, stöðnun og drauma, von og óvon, framtíð og fortíð, ást og hatur. Adam og Evelyn hætta saman eftir syndafall hans en halda samt í fyrirhugað sumarferðalag, þ.e. hann eltir hana og vini hennar um langan veg, yfir landamæri og inn í garð til vinafólks. Eftir japl og jaml og fuður og löng samtöl sem eru krúttlega þreytandi og þrungin bældri reiði reyna þau Adam og Evelyn að nálgast hvort annað aftur en ljóst er að þau stefna nú hvort í sína áttina. Persónurnar eru ekki sérlega aðlaðandi fólk, mest nöldrarar og leiðindapúkar og fer Adam þar fremstur í flokki. Milli línanna má lesa um vald skriffinnskunnar og kommúnismans í austurhluta Þýskalands, það er njósnað um fólk, útvaldir fá að fara í nám, eignast íbúð, borða góðan mat eða ferðast og fólk er á flótta í leit að nýrri framtíð. Það er umtöluð bókmenntaleg tenging við Paradísarmissi og fall Berlínarmúrsins, þau skötuhjú hafa séð betra líf og þá er ekki aftur snúið. Og það hriktir í öllum stoðum. Elísa Björg Þorsteinsdóttir þýðir þessa sögu úr þýsku náttúrulega bara snilldarlega eins og hennar er von og vísa. Hún hefur mikinn orðaforða og stíllinn er kjarnyrtur og fjölbreytilegur og það er því að þakka að ég er ekki löngu búin að henda þessari bók út í horn.
Nýr stíll í bókakápum: svarthvítar ljósmyndir af pörum…
Aðaltrendið í ár. Þetta er orðið svo auðvelt í photoshop.