Frostrósir 2011, klassík í Eldborg

Við fórum á klassíska frostrósatónleika í gær í hinum glæsilega sal, Eldborg í Hörpu og fengum gamaldags jólastemningu beint í æð. Þetta var yndisleg kvöldstund og ógleymanleg, allir voru í sparifötum og hátíðaskapi. Hljómburðurinn er frábær og hljómsveitin yndisleg. Þarna voru fjórir söngvarar á dagskrá, Garðar Cortes jr., Hulda Björk Garðarsdóttir, Kolbeinn J. Ketilsson og Ágúst Ólafsson. Þau sungu miskunnugleg lög og lagasyrpur auk aðalstjörnunnar, Sissel Kyrkjebö sem því miður syngur bara 5 lög (af 21). Í kynningarbæklingi segir að hún sé bókuð mörg ár fram í tímann en hafi fyrir löngu ákveðið að taka sér frí í desember 2011 til að verja tíma með fjölskyldu sinni. En hún stóðst ekki gott boð um að koma til Íslands þar sem hún á marga einlæga aðdáendur, m.a. mig. Það verður að segjast að hún og Garðar Cortes báru af þótt hann hafi verið eins og spýtukall við hlið sjarmadívunnar, hún var svona heillandi og glaðleg en hann virðist bara enga útgeislun hafa, þessi fallegi piltur. Hin þrjú voru hreinlega ekki alveg á sama kaliberi og e.t.v. ekki í sanngjarnri samkeppnisstöðu. Þau náðu sér alla vega ekki á strik, fipuðust og komu t.d. ekki inn á réttum stað þótt Árni Harðarson minnti þau á með skýru látbragði en hann stjórnaði fjórum kórum og stórhljómsveitinni líka af mikilli snilld. Lýsingin var stundum flumbruleg, rauð og blá ljós skiptust á  og allavega einu sinni breyttist birtan þegar lagið var byrjað. Þetta voru fyrstu tónleikarnir af fjórum þessa helgi og þetta hefur örugglega allt slípast til. Hápunktur kvöldsins var þegar Sissel söng Helga nótt – á íslensku. Þá klökknaði ég og hjartað fylltist af ást og fögnuði.  Það var líka hjartæmt þegar salurinn tók undir með söngvurunum öllum í lokin í Heims um ból á góðu tempói undir stjórn Árna (en sálmurinn er alltof oft sunginn of hægt!). Stjörnur kvöldsins voru þau tvímælalaust Árni og Sissel.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s