Árið 2011 var mér og mínum gott. Þegar ég lít um öxl stendur sumarferðalagið uppúr ásamt tilburðum mínum til að hlaupa mér til heilsubótar. Í janúar byrjaði ég á hlaupanámskeiði hjá Daníel og tók síðan bæði þátt í RVK-maraþoninu og Hjartadagshlaupinu auk þess sem ég skokkaði einn sumardag milli Hellissands og Ólafsvíkur sem ég er afar stolt af. Þá vorum við MK-kellur mjög duglegar að skokka tvisvar í viku í allt haust en dró af okkur í desember vegna snjóa og ófærðar. Tvær reisur fór ég til útlanda, í maí fór ég til. Pétursborgar og Helsinki með MK og í október fórum við Brynjar til Boston í nokkra daga. Ég las mikið, skrifaði ekkert, ekki einu sinni ritdóma fyrir Moggann sem ég hef gert í áratug en ég tók sæti í launanefnd úthlutunarsjóðs rithöfunda og þýddi eina smásögu eftir Katherine Mansfield mér til skemmtunar og geymi í skúffunni. Við stóðum í miklum framkvæmdum á árinu, tókum baðherbergið í nefið með ærinni fyrirhöfn og miklum tilkostnaði en erum nú með besta og flottasta baðið í bænum. Ég er í betra formi en nokkru sinni á ævinni, börnin mín eru hress og frísk, mamma spræk en pabbi heilsuveill þótt alltaf sé hann spaugsamur og elskulegur. Systur mínar og þeirra fjölskyldur eru í góðum gír og vinir mínir hressir og skemmtilegir. Við frænkur í móðurætt hittumst á árlegum Budduleikum, 2011 á Rangárbökkum, svaðalegt geim sem stendur alltaf eina helgi. Félagsskapur Ringó-liða er frábær upplyfting og samkomur 63-stelpna úr Barnaskólanum óborganlegar. Þótt lífið sé oftast bjart og gott þá dimmir stundum. Í árslok lést ástkær frænka mín, Diddamma, eftir langa baráttu við krabbamein. Dauðinn minnir mann á að lífið er dýrmætt en hverfult og vinir manns ekki til taks að eilífu. Á haustdögum hóf ég nám í stjórnun sem stendur fram á næsta vor og skráði mig á 2 námskeið hjá endurmenntun sem bæði féllu niður vegna nemendafæðar (um Michel Houellebecq og verk Gyrðis). Ég guggnaði á gamlársdagskhlaupinu og mig langaði á matreiðslunámskeið en fór ekki því ég þóttist hafa of mikið að gera og ég var ekki nógu dugleg að heimsækja vini mína og ættingja eða bjóða fólki heim til mín. Tíkin Arwen var gleðigjafi eins og alltaf, síkát og fögur, skemmtileg og kelin. Og aldrei fór ég norður. En margt gott dreif á daga mína. Jólin voru yndisleg, ekki síst jólaboðið mitt og okkar systra sem að þessu sinni var í sveitasælunni. Við áramótin eru ýmis fyrirheit í gangi um enn meiri heilsubót og betra líf, en er virkilega heilt ár síðan ég varð ekki að betri manneskju?
Skemmtilegur pistill en vil minna á að þú verður betri manneskja með hverju ári, skilningsríkari, þroskaðri, vitrari, reyndari, vandaðri og yndislegri, og varst þetta allt saman fyrir en kannski erfitt fyrir þig að mæla það 🙂 já lífið er hverfult og við eigum að þakka fyrir hvern dag, hann er dýrmætur og kemur ekki aftur, njóta lífsins í sátt við Guð og menn, láta gott af sér leiða og auðga lífið eins og hægt er.
Sammála systur hér að ofan. Þú ert mikill penni og blessuð komdu þessari þýðingu á prent svo við hin getum fengið að njóta. Þú er með betri manneskjum sem ég þekki og þarft ekkkert að verða betri, en ég þigg með þökkum matarboð og þess háttar 🙂
Mér finnst þú dugleg, klár og glæsileg fyrir utan að vera raunagóð og elskuleg systir.
Maður á bara þetta eina líf og það er um að gera að njóta þess með þeim sem manni líður vel með og vera sáttur við Guð og menn eins og Gunna segir. Mitt áramótheit var að naglalakka mig oftar!!!
get nú ekki annað en tekið undir með systrum þínum þó ég voni að þú sért „raungóð fremur en raunagóð“ eða hvað, kveðja frá þeirri sem aldrei hefur strengt áramótaheit
Hvenær er hvítt orðið nógu hvítt?
Takk fyrir skemmtileg skrif sem ávallt!