Steinar Bragi er einn af flottustu „ungu“ skáldunum í mínum huga og nýja bókin hans er mögnuð. Hálendið segir frá tveimur pörum á jeppaferðalagi, með veiðigræjur, ipod, steikur og hvítvín í skottinu. Þau hyggjast gera sér glaðan dag í fögru landslagi í grennd við Öskju. Þetta er borgarfólk, malbiksgaurar og framapotarar, hrungæjar og uppagellur, dramatískar og lífsreyndar persónur sem eiga hver sína fortíð, brotakennda sögu um uppvöxt og mótun sem varpar ljósi á þær. Heilmikil sálfræðistúdía. Hrafn hefur auðgast á verðbréfum og yfirtökum, Vigdís er einmana og reynir að halda sönsum í trylltum heimi, Egill hefur tapað öllu og stefnir í glötun, Anna er með minnimáttarkennd, sjálfhverf og týnd. Hvernig vegnar þessu fólki þar sem náttúran er viðsjál, myrkrið varasamt og hættur í hverjum hól? Dularfullir atburðir gerast, pörin setjast upp hjá grunsamlegum skötuhjúum á afskekktum bæ, vinátta og fjandskapur takast á, nánd og samskipti reyna á þolrifin, alls konar tilfinningar, flækjur, fortíðarvandi, losti og græðgi skjóta upp kolli og sundra hópnum þar til hver og einn mætir hryllilegum örlögum sínum. Hrikalega spennandi saga sem í lokin er hvorki hægt að lesa né leggja frá sér.
hljómar spennandi….Mælir þú með henni í leshring?
Algjörlega, heitt stöff.
Hann fær nú mínus fyrir kápuna…
Satt er það. Hún er frekar púkaleg.
Verð að vera algerlega ósamála um ágæti þessarar bókar. Sagan af tengslalausa nútímafólkinu er ekki neitt neitt, hvað þá hryllingssagan. Ég bara get ekki fundið mig í neinu af þessu, klisjur á klisjur ofan sem vekja hvorki áhuga minn né ónotakennd