Nýjasta bók Murakami, 1Q84, er tæplega 1000 bls doðrantur og ég rogaðist með hana út um allt í sumarfríinu því ég gat ekki hætt að lesa. Sagan gerist á hinu sögufræga ári 1984 og er flókin og margslungin en í stuttu máli skipta aðalpersónurnar tvær Aomame, einkaþjálfari og leigumorðingi, og Tengo, sem er leigupenni og stærðfræðikennari, sögunni á milli sín og svo birtast mergjaðar aukapersónur sem dregnar eru skýrum dráttum. Milli Aomame og Tengo liggja þræðir og þau dragast hvort að öðru þótt þau hafi aðeins kynnst lítillega þegar þau voru 10 ára og búi hvort í sínum borgarhluta. Fantasía í heimi lítillar bókar eftir 17 ára stúlku tekur yfir raunveruleikann, tunglin eru tvö á himni, furðuverur á sveimi og lífshætta vofir yfir. Bókin skiptist í 3 hluta sem hafa afar rólegt yfirbragð eins og höfundar er siður og en sá síðasti er langhægastur og reynir verulega á þolrifin. Fengist er við ástina og bókmenntirnar, kynlíf, ofbeld, barnaníð og dauða, sjálf og raunveruleika, bernsku og uppvöxt, einveru, trúna og tilganginn, auk þess sem maður sogast inn í japanska menningu; misosúpu og te, heiður, kurteisi og yfirvegun. Stíl Murakami er heillandi (á ensku), hugsanir persóna eru skáletraðar en oftast lýsir hann á sinn einfalda, ljóðræna og hlutlausa hátt. Kynlíf skipar stóran sess í bókinni,þar eru skyndikynni, framhjáhald, yfirnáttúrulegt kynlíf, ofbeldiskynlíf og Murakami er sérlega upptekinn af brjóstastærð og síðu hári þegar hann lýsir kvenfólki. Draumar og minningar koma mikið við sögu, og tónlist, aðallega jazz og sígild tónlist, ekki síst þessi stutta sinfónía. Þetta er segulmögnuð bók á sinn sérstaka hátt.