Freddie Mercury (1946-1991), drottningin í Queen, var einn allra besti rokksöngvari 20. aldar, hann var öflugur laga- og textahöfundur og hafði rödd sem spannaði fjórar áttundir. Fjörug sviðsframkoma, há kinnbein, skakkar tennur, ber bringa og þröngar sokkabuxur tryllltu lýðinn í þau 20 ár sem hann var í sviðsljósinu.Í gær voru tónleikar til heiðurs honum í Hörpu. Fimm karlar (Hulda Björk Garðarsdóttir söng eitt lag) tóku Queen- lögin með flottri hljómsveit og bakröddum, það voru þeir Eiríkur Hauksson, Eyþór Ingi, Friðrik Ómar, Magni og Matthías Matthíasson. Tónleikarnir fóru rólega af stað, nokkrar syrpur voru teknar og svo skiptust söngvararnir á að flytja uppáhaldslögin sín. Síðasta lag fyrir hlé var Bohemian Rhapsody í mjög vel heppnaðri útsetningu. Ég er ánægð með tónleikana þótt salurinn væri daufur og þvingaður, Eldborg býður ekki upp á mikið stuð, allir eru í fínu fötunum og sitja eins og dúkkur í dýru sætunum sínum. Ekki fannst mér Friðrik alveg nógu góður í uppáhaldslagin mínu, Somebody to love, en hann bræddi mig samt þegar hann snaraðist að trommusettinu í lokin og spurði út í sal: Hélduði að hommar gætu ekki spilað á trommur? Eyþór Ingi var langmesti stuðboltinn, röddin alveg frábær og það geislaði af honum sönggleði og ástríða fyrir flottri rokktónlist. Magni er góður líka með kröftuga rödd og töffaralega sviðsframkomu en hann rífur alltaf míkrófóninn frá andlitinu svo lokatónar hverrar hendingar verða endasleppir. Hjálagt er heiðursvídeo sem gert var um Mercury í tilefni af 65 ára ártíð hans í fyrra. Hann veitti ekki mörg viðtöl um ævina og forðast fjölmiðla en var hundeltur af gulu pressunni, ekki síst síðustu æviárin vegna þráláts orðróms um heilsubrest vegna alnæmis sem varð svo hans banamein.
Ég á miða á tónleikana 8. sept nk. í Hofi. Hlakka mikið til.
Góða skemmtun í Hofi.
Mercury á afmæli í dag, hann er ári yngri en mamma…
Ég fékk gæsahúð næstum með hverju lagi, þetta var snilld.
Við erum nokkrar kellur búnar að stofna aðdáendaklúbb Mercury sem verður með partí 5. sept. á hverju ári, og svo verður ægileg hátíð 2016. Þú ert hér með skráð í klúbbinn!