Ég fór að sjá generalprufu Bastarða um daginn í Borgarleikhúsinu. Það var skrautleg sýning, kunnuglegt plott úr heimsbókmenntum, faðir hafnar ástinni og trúnni og fyrirlítur afkvæmi sín sem eru stórskemmd fyrir vikið. Verkið er sagt tengjast eða byggja á síðustu skáldsögu Dostojevskís, Karamazov-bræðrum, en sú tenging er harla óljós. Faðirinn hyggst giftast ungri konu og boðar öll börnin til sín í veisluna til að losa sig endanlega við þau. Jóhann Sigurðarson lék pabbann, frekar tilgerðarlega fannst mér. Hann er ótrúlega grimmur við börnin sín og svívirti báðar barnsmæður sínar en það vantar alveg skýringu á eðli hans. Hilmir Snær var rosa góður enda í frjóu hlutverki, frussaði mjög en framsögnin var minna ýkt en oft áður og hann var í senn brjóstumkennanlegur og fyndinn í eymd sinni og niðurbroti. Innkoma hans og Elvu Óskar var flott. Nína Dögg var rosa sexí en skorti verulega dýpt í karakterinn, hvar var sársaukinn og ofbeldið sem hún hafði mátt þola í gegnum lífið vegna fegurðar sinnar? Stefán Hallur var einhver veginn úti á túni, ekki sannfærandi persóna með sinn trosnaða víkingaboðskap. Þórunn E Clausen var í sjóræningjabúning úr Gulleyjunni sýndist mér, ekki sannfærandi leikur og erfitt hlutverk. Víkingur Kristjánsson lék skemmtilegasta hlutverkið og fór mjög vel með, vakti bæði kátínu og samúð, hann er enda eina persónan sem klýfur sig út úr ruglinu. Yngsta soninn lék ungur leikari sem ég man ekki hvað heitir en stóð sig vel. Handritið var gloppótt en leikgleðin mikil, umgjörðin flott og auðvitað loftfimleikar og pollur í miðjunni sem leikarar stungu sér eða veltu sér í eftir atvikum. Óljóst er hvað leikritið á að gerast og skiptir etv ekki máli, sviðið er rosa flott, soldið frumskógalegt, en til að færa verkið til Íslands hefði pollurinn getað verið heitur pottur og staðsetningin sumarbústaður við Þingvallavatn. Yfir sviðinu er glerþak, það er etv hlaðið táknrænu en tilgang þess sá ég ekki alveg fyrir mér nema sem uppbrot á innkomum persóna. Þar rölti um hálfber maður og dundaði sér við ýmislegt, etv draugur fortíðar eða listamaður en það hefði kannski getað verið kvenpersóna, kona sem er dæmd til að hrekjast, móðirin svívirta?