Frá því ég las ljóðabækur og smásagnasafnið Doris deyr eftir Kristínu Eiríksdóttur hef ég beðið spennt eftir næstu bók hennar. Skáldsagan Hvítfeld kom út 2012 og er alveg hörkugóð. Þetta er ættar- og fjölskyldusaga og segir aðallega frá þeim systrum Jennu og Eufemíu sem alast upp á níunda áratugnum og foreldrum þeirra. Óhamingja, lygar, geðveiki og alkóhólismi gegnsýra líf fjölskyldunnar. Móðirin Hulda er saklaus og dreymandi námsmær sem verður sjúklega ástfangin af kennaranum sínum en hann er og notar hana til að svala fýsnum sínum. Rómantískar hugmyndir hennar um ást og kynlíf bíða skipbrot. Hún gengur svo í hjónaband hennar með Magnúsi, vænum pilti í laganámi en það byggir á lygum, Hulda þjáist af fæðingarþunglyndi í heilt ár en systir hennar hjálpar henni og heldur því leyndu fyrir öllum. Magnús drekkur og fær skapofsaköst, dæturnar Jenna og Eufemía vita aldrei hvaðan á þær stendur veðrið, Loks skilja þau hjónin, Hulda stendur ein uppi með dæturnar í blokk í Breiðholtinu og Magnús vill vera í friði með nýju konunni. Jenna er sjúklega metnaðargjörn og flytur loks búferlum til Texas til að afla sér fjár og frama en Eufemía leiðist út í ruglið vegna skorts á ást og athygli. Þegar hún deyr neyðist Jenna til að koma til Íslands með litlu dóttur sína og horfast í augu við sjálfa sig og fjölskyldu sína. Hún hefur spunnið upp sögur um velgengni sína og frægð í útlöndum, til að lappa upp á lélega sjálfsmynd og nú er komið að skuldadögum. Jenna lýgur svo listilega að lesandinn trúir sögum hennar eins og nýju neti. Líf hennar byggir á lygum eins og líf foreldranna en það er spurning hvort dóttirin Jackie leikur sama leikinn eða hvort í henni leynist vonarglæta. Persónurnar eru breyskar og harmrænar og glíma við drauga fortíðar, fíkn, óheiðarleika og skapbresti. Syndir feðranna koma niður á börnunum, áföll sem ekki er unnið úr viðhalda óhamingjunni. Sumt má ekki tala um en liggur grafið í minninu og eitrar úr frá sér. Um leið og sagan fjallar um persónulega harmleiki er hún samfélagsgreining, innsýn í tíðaranda, uppeldi og siðferð kynslóðanna. Spurningin er: Hættum við einhvern tímann að leika, þykjast og ljúga?