Hin eilífa þrá

hin_eil_fa_r__jpg_200x800_sharpen_upscale_q95Hin óborganlega lygadæmisaga Guðbergs sem kom út á áttræðisafmæli snillingsins rústar öllu sem maður vildi hafa í skáldverki. Framvindan er hæg, persónur ógeðfelldar, efniviðurinn rotþró og forarvilpur fullar af fordómum, fyrirlitningu og klisjum. Sagan hefur einstakan, kaldranalegan og beittan húmor, stíllinn einkennist af ýkjum og grótesku. Í verkinu er ískaldur tónn, samtöl og tilsvör eru óborganleg, senur neyðarlegar og ádrepan miskunnarlaus. Samfélagsmyndin er svört, ömurlegt úthverfi, útpískaður verkalýður með vöðvabólgu og lágkúrulegt fólk með lágar hvatir. Sagan segir aðallega af Feita, verkamanni sem spilar í lottóinu því eins og allir Íslendingar vill hann verða ríkur áreynslulaust, það er hin eilífa þrá. Hann elskar lottóstúlkuna Fögru, þarf að heimsækja Mömmu á elliheimilið (hún er drepfyndin), vinna með saumakonum nr 1-6, fer á árshátið og stendur í skrýtnu sambandi við sólbrúna og hnýsna nágrannakonu. Sögumaður er ótukt, grimmur og erfiður, dregur lesandann inn í söguna, sýnir enga miskunn, hæðist að honum, persónunum og sögunni.  „Við þekkjum þetta líka, þú og ég, lesandi góður, af eigin reynslu og höfum lent þúsund sinnum í svipaðri aðstöðu og Feiti (það er einhver Feiti í okkur öllum), að taka ákvörðun um að hætta en fara síðan út í sama fenið af auknum krafti, fegin yfir að hafa farið ofan af því að láta ákvarðanir taka ákvörðun fyrir mann. Fyrir bragðið skiljum við Feita út frá eigin reynslu. Við mundum gera nákvæmlega það sama og hann, að hrista ósætti við veruleikann af okkur með vinnu“ (18).

Heimska og grimmd, græðgi sem nær út yfir gröf og dauða, svaðaleg kynlífssena í kirkju, einelti gagnvart fötluðum, ekkert er heilagt og engu hlíft, allt er yfirgengilegt og óborganlegt, háðskt og meinhæðið, sett fram til að hneyksla mann og ergja. Og það er gott, þetta er ekki saga sem maður les til að sættast við tilveruna.

2 athugasemdir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s