Guðbergur Bergsson

Sögur að handan

Trúir þú á framhaldslíf? Að tilgangur sé með þessu jarðlífi? Að til sé endurholdgun, karma, eilíft líf? Þá ættir þú að gefa gaum að bók sem ber heitið Smásögur að handan (2017) eftir Ingibjörgu Elsu Björnsdóttur.

Bókin inniheldur 10 smásögur sem allar eiga það sameiginlegt að fjalla um líf handan þessa heims. Höfundur er hugmyndaríkur og mikill húmoristi. Leonardo da Vinci flytur inn í raðhús á Selfossi og kynnust Emblu litlu, eigandi Galdrabókar Sæmundar fróða kynnist ástinni, hinn lífsleiði Drakúla greifi fer til geðlæknis og erkiengillinn Raziel sýnir enga miskunn. Í eilífðinni rætast draumar, kærleikur umlykur allt og „hvert andartak hefur eilífa vídd og við getum komið hingað aftur og aftur af fúsum og frjálsum vilja á hvaða öld sem er“ (53). Ingibjörg Elsa virk á samfélagsmiðlum og „heldur uppi heilbrigðu andófi á fésbókarsíðu sinni gegn allskyns skerðingu á almennu tjáningarfrelsi.“ Hún málaði sjálf dulúðuga mynd á bókarkápu.

Aftast í bókinni eru þakkir til Braga Jósefssonar og Guðbergs Bergssonar og Rithrings „því þar hófust smásagnaskrif mín og án Rithringsins hefði ég sennilega aldrei uppgötvað smásöguna sem mitt uppáhalds tjáningarform (113), segir Ingibjörg Elsa að lokum.

Birt á skáld.is, 9. júlí 2021

Skáldskapur sem stendur fastur í hænuhaus lesandans (aftur)

Á sjöunda áratug síðustu aldar var módernismi í íslenskri sagnagerð í uppsveiflu og Guðbergur Bergsson var manna djarfastur í formbyltingunni. Skáldsaga hans, Anna (1969), þótti ekki þægileg náttborðslesning á sínum tíma; framvindan lúshæg í ofurraunsæi sínu, söguþráðurinn sífellt brotinn upp með löngum einræðum og samtölum, nærgöngulum lýsingum, hringlandi hugsunum, kynórum, draumum og tímaflakki.

Þýtt úr módernísku

Anna lýsir hverdagslegu, íslensku alþýðufólki en líf þess snýst um uppfyllingu frumþarfanna: vinna, éta, sofa. Í sögunni felst mikil samfélagsgagnrýni og hún fjallar ekki síst um flókin tengsl skáldskapar, höfundar, persóna og lesanda um leið og ráðist er að ýmsum viðteknum hugmyndum um líkama, tungumál, sögu og menningu. Að brjótast í gegnum Önnu var eins og að glíma við flókna en heillandi gestaþraut. Nú hefur Guðbergur einfaldað þrautina verulega og endurritað Önnu; eiginlega þýtt hana úr „módernísku“.

Í Önnu er unnið markvisst að því að tefja fyrir lesandanum og trufla hann, ögra honum og brjóta hann niður. T.d. eru persónur sögunnar þokukenndar, ýmist nafnlausar eða heita mörgum nöfnum. Lesandinn verður sjálfur að finna út hver segir hvað og hver hugsar hvað: „Það gildir einu hver er hvað, allar persónurnar eru sama markinu brenndar og ég greini þær ekki í sundur“ segir húsmóðirin og rithöfundurinn Katrín (410). Hugsanir persónanna eru oft án greinarmerkja – af tryggð við raunsæið; við hugsum ekki með greinarmerkjum.

Atburðarásin er langdregin, óljós og óskiljanleg, ekkert „gerist“ í sögunni; myndmálið er óvenjulegt; umhverfið óljóst og tíminn flókinn. Aftast í bókinni eru Svörin og þar standa m.a. þessi frægu orð tiltölulega lítið breytt: „Ef höfundur gefur rótgrónum söguþræði á kjaftinn ruglast hefðbundin frásögn. Þetta getur snúist á ýmsa, óvænta vegu og orðið margbrotinn skáldskapur sem stendur fastur í hænuhaus lesandans“ (463).

Ropað og rekið við

Sagan hefst á sunnudegi, útvarpsmessunni er nýlokið og fjölskyldan sameinast við steikarát og gosþamb. Í Ásgarði (eða Valhöll) búa þrjár kynslóðir, hjónin Sveinn og Katrín (maðurinn og konan / Anna), börnin þrjú: Valdís (Valgerður, Valla), Kristján (líka kallaður Gulli) og Boggi (stundum er nafnið hans ritað afturábak: Iggob;, heitir líka Hermann) og gamla konan, móðir Sveins. Í kjallara hússins býr Svanur sem á dularfullan hátt er Höfundurinn og hefur undarlegt vald yfir Katrínu / Önnu sem segir söguna: „Höfundurinn brúkar okkur Önnu, hvora með sínum hætti, og lætur okkur ganga með hugarfóstur sín og fæða þau í þann heim sem lesmál getur orðið“ segir Katrín (440).

Að auki dvelur í húsinu undarlegur gestur frá annarri hvorri nýlendu Dana: Færeyjum eða Grænlandi. Hann vinnur skítverkin meðan hinir græða á nýlendu Kana á Suðurnesjum. Hjá kynslóðunum þremur í Ásgarði ríkir styrjaldarástand: foreldrarnir óttast börn sín og þola þau ekki, berja þau og varna þeim inn- og útgöngu, börnin fyrirlíta foreldrana og segja ömmunni að halda kjafti en hún lifir í þokuheimi þambandi malt. Allar persónurnar eru frekar ógeðfelldar auk þess sem þær ropa, reka við og froðufella í erg og gríð sem gerir þær síst geðslegri.

Bítur í sporð á sér

Atburðarás sögunnar er í sjálfu sér ekki flókin. Kristján skreppur í veiðiferð með vini sínum eftir matinn en ferðin tekur óvænta stefnu; Boggi og Valla standa í stórræðum í sjoppunni á staðnum og til sögu koma hjónin Diddi og Dóra Aggý; Lollý sem afgreiðir í sjoppunni og er ófrísk; nokkrir unglingar og fleira fólk í Kanapartíi. Sveinn og Katrín fara aldrei út úr húsi í sögunni en tala endalaust um lífið og tilveruna við gestinn og fá vinkonurnarnar Sollu, Möggu og Böggu í heimsókn en þær eru nýkomnar heim frá Ameríku – vonsviknar eftir kynni sín af fyrirheitna landinu. Sveinn og Katrín verða svo andvaka, tala saman eða réttara sagt í kross og Katrín sinnir ritstörfum en hvorugt þeirra furðar sig á hvar börnin eru. Undir morgun er Kristján ókominn, Valla fílefld á leið í vinnuna eftir næturgöltrið en Boggi liggur lífvana á gólfinu með tómt pilluglas og kveðjubréf sér við hlið. Sveinn fer í vinnuna og Katrín / Anna vaknar undir hádegi við að vinkonurnar þrjár eru komnar í mat. Þar lýkur sögunni, hún bítur í sporð á sér eins og „góðar sögur gera í lokin“ (segir Katrín, 364).

Stjórnlaus orðaflaumur

Persónur sögunnar gegna því hlutverki að enduróma þreyttar skoðanir og innantómar hugmyndir. Þær eru uppsprettur stjórnlauss orðaflaums í sundurlausum eintölum og stefnulausum samtölum þar sem engin niðurstaða fæst en soralegur hugarheimur þeirra birtist í skýru ljósi. Stöðnun, vonleysi og vani setja mark sitt á persónurnar, þær taka hvorki þroska né breytingum í sögunni. Þær tala ekki saman heldur talar hver í sínu horni. Orðræðan einkennist af hjali og tauti, hátíðlegu og klisjulegu máli innihaldslausum skipunum og yfirlýsingum, merkingarlausum og þversagnakenndum málsháttum, fjölmiðlasíbylju og áróðri. „Við erum auðvitað hér glaðvakandi, andvaka og ráðvillt. Eftir sögunni að dæma er það í eðli okkar að vaka myrkranna á milli, skynja hvorki stund né stað og vera með mælgi“ segir Katrín (407-8). Talinu er markvisst er beitt til að sýna fram á og deila á vaðalinn og klisjurnar sem einkenna samskipti fólks yfirleitt.

„Allt lafir slappt og þróttlaust“

Sögumaður á í dularfullu sambandi við persónur sínar. Svo virðist sem Katrín / Anna sé að skrifa bókina jafnóðum og sagan gerist. Sífellt er lesandinn minntur á að hann sé að lesa BÓK með tilbúnum blaðsíðum og kaflaskilum og persónurnar séu leiksoppar, háðar valdi sögumannsins. „Krakkar, núna ek ég ykkur úr sögunni og í háttinn, sagði Dóra Aggý, ekki laus við tilgerð… Mér er sama hvert þið farið, ef þið farið, þið eruð bara aukapersónur, allar nafnlausar“ (336). Og á einum stað segir Katrín: „Flettu upp á síðu hundrað fjörutíu og átta í þessari bók“ (440). Veruleikalíking eða blekking skáldverksins er þannig rofin sífellt enda lífið allt of flókið til að komast fyrir í skáldsögu.

Botnlaust grín er gert að rithöfundinum (Katrínu / Önnu) sem situr í skáldskapartjaldi og íhugar samband bókmennta og samfélags, í kulda og trekki (því kuldi og gremja er undirstaða listanna) með fæturna í fötu með volgu vatni þar sem plastleikföng synda um (til að varðveita barnið í sér) og horfir á heiminn af sjónarhóli reynslunnar (354): „Konan sat á buxunum einum fata uppi á háum stól. Þannig ætlaði hún að vera persónugervingur nakta sannleikans með penna í hönd á svipaðan hátt og réttvísin heldur á vogarskálum. Slöp, lúin brjóstin löfðu niður með síðunum og hún hugsaði oft af þeirri kaldhæðni sem einkennir kveneðlið: Þannig er komið fyrir skáldagyðjunni og listunum í lok þessarar aldar: Allt lafir slappt og þróttlaust nema símalandi tungan“ (353).

Prútt lesmál

Anna er gagnrýnin saga á mörgum sviðum. Hún ræðst að smáborgarahætti, hræsni, þýlyndi og þröngsýni, og gagnrýnir vana, andlegan doða og yfirborðsmennsku. Firring persónanna er leidd í ljós í margbrotnu formi sögunnar og klisjurnar í tali þeirra endurspegla stöðnun og ófullnægju. Form og efni haldast þétt í hendur (kaflanúmer bókarinnar má skilja á þann veg að hana eigi að lesa aftur og aftur eða jafnvel afturábak), firringin og endurtekningin er í senn efni sögunnar og búningur hennar. Anna gamla átti brýnt erindi við 68-kynslóðina og boðskapur hennar er enn í fullu gildi.

Nútímalesendur fá söguna í þægilegum neytendaumbúðum, formið er orðið aðgengilegra og sagan læsilegri, textinn er fyllri af skýringum og útleggingum Guðbergs auk þess sem greinarmerki og greinaskil hjálpa nú aðeins til. Lesmálið er orðið býsna stillt og prútt miðað við fyrri gerð en minna stendur eftir af töfrum gátunnar fyrir vikið; merkingin er nú tekin fram yfir leyndarmálið (182). En fyndnin og orðsnilldin halda sínum hlut.

Guðbergur segir fremst í bókinni að veruleiki skáldsögunnar sé margvíslegur og „fyrir bragðið ættu að vera gefnar út að minnsta kosti tvær gerðir af sömu skáldsögu svo hægt sé að bera saman þá fyrri og fylgju hennar sem hugsanlega lokagerð.“ Endurvinnsla í myndlist, tónlist, kvikmyndum og bókmenntum blómstrar nú sem aldrei fyrr. Að endurrita eigin bækur eða annarra stunduðu Íslendingasagnahöfundar til forna með góðum árangri og nýlegt tilbrigði við þetta stef má t.d. sjá í Höfundi Íslands eftir Hallgrím Helgason. Það er tilhlökkunarefni að sjá hverju Guðbergur tekur upp á næst og hverju fram vindur í fylgjumálum hans. Nýrri, aukinni og endurbættri útgáfu (fylgju) Önnu 2001 ber tvímælalaust að fagna með látum, helst flugeldum og kampavíni.

 

Áður birt í Mbl, 2001

BÆKUR Skáldsaga ANNA. ÍSLENSKA ÆVINTÝRABÓKIN. eftir Guðberg Bergsson. 463 bls. Forlagið, 2001. Bókarkápan eftir Jeffrey Ramsey er einföld, falleg og vel viðeigandi: eldhúsklukku vinnuþrælsins er snúið á haus og vísarnir sýna að klukkan er að ganga eitt en sagan hefst um það leyti á sunnudegi og henni lýkur sólarhring síðar. Skáldsagan Anna kom áður út 1969 en ekki 1968 eins og segir í annars sönnum og góðum káputexta. Nokkrar leiðinlegar prófarkarvillur eru í bókinni.

Heimssöngvari og átthagaskáld

Gabriel Garcia Marquez Wins Nobel Prize

Marques tekur við bókmenntaverðlaunum Nóbels, 1982 (Getty images)

Einn þekktasti bókmenntajöfur heims, kólumbíski rithöfundurinn Gabriel Garcia Marques, safnaðist til feðra sinna árið 2014, 87 ára að aldri. Marques hlaut nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1982 en hann varð heimsfrægur á einni nóttu fyrir sína fyrstu bók.

Skemmtilegar sögur af skemmtilegu fólki

Suður-amerískar bókmenntir voru heiminum lítt kunnar fyrir hans dag en heillandi og töfraraunsær heimur skáldsagna hans hitti beint í mark á sínum tíma. Í verkum hans er sérkennileg blanda af þjóðlífslýsingum, hefðum og hjátrú, súrrealisma og alþýðuraunsæi; þau ólga af ímyndunarafli sem lætur orð og myndir lifna fyrir augum lesandans og persónur eru litskrúðugar, blóðheitar og meinfyndnar. Allir þekkja liðsforingjann sem aldrei fær bréf og landsmóðurina gömlu, flestir kannast við Flórentínó sem ritar ástarbréf á torginu, Úrsúlu hina harmþrungnu og allir taka fyrir nefið þegar þeir finna þefinn af rotnandi líki Santíagós Nasars. Segja má að Marques hafi opnað nýjar leiðir í skáldsagnagerð á öndverðri 20. öld með því að segja skemmtilegar sögur af skemmtilegu fólki. Helstu þemu verka hans er tíminn og dauðinn, harðstjórn og þjáning; manneskjan í margbreytileika sínum.

Marques sló í gegn með Hundrað ára einsemd, skáldsögu sem fljótlega var þýdd á fjölda tungumála og hefur selst í yfir 30 milljón eintökum um heim allan. Marques óttaðist í fyrstu að geta aldrei aftur náð sömu hæðum á ferli sínum en alls skrifaði hann 15 aðrar skáldsögur, smásagnasöfn og æviminningar og hefur öllum bókum hans verið vel tekið. Guðbergur Bergsson snaraði flestum verkum Marquesar úr frummáli á íslensku af sinni alkunnu snilld og á heiðurinn af því að hafa fært okkur þennan sjóðheita skáldskap hingað í fásinnið.

Heimssöngvari og átthagaskáld

„Marques hefur manna best lýst veruleika Suður-Ameríku. En hann er ekki síður heimssöngvari en átthagaskáld. Í verkum sínum kryfur hann jaðaraðstæður og þversagnir mannlífsins — hvar sem er. Söguhetjur hans eru númer eitt manneskjur. Og erindi hans um „margboðað morð“ á fullt erindi til okkar á tíma kjarnorkuslysa og margboðaðrar gjöreyðingar“, sagði Matthías Viðar Sæmundsson í ritdómi í DV, 22. nóvember 1982. Stjórnmál voru Marques hugleikin um tíma og dró hann ekki dul á andúð sína á einræðisstjórn Pinochets hershöfðingja en studdi hins vegar Castró Kúbuforseta af heilum hug, mörgum til sárrar skapraunar. Víst er að ólíkindatól var hann að mörgu leyti og hundleiður á kastljósi fjölmiðla og hélt sér að mestu til hlés síðustu áratugi.

Í lifanda lífi varð Marques svo mikil bókmenntakanóna að yngri höfundum stóð stuggur af honum og risu gegn skáldskap hans, m.a. hinn magnaði Roberto Bolaño, en skáldsaga hans Verndargripur kom út á íslensku fyrir stuttu. Sumir gengu svo langt að segja að spænskumælandi rithöfundar gætu hvorki notað „Soledad“ né „Cien años“ í skáldverki framar. En hann er nú dauður fyrir nokkru, krabbamein og elliglöp komu honum á kné. Ungskáldin geta óhrædd skriðið fram úr skugga hans og við lesendur heiðrað minningu hins aldna snillings með því að dusta rykið reglulega af af töfrum slungnum skáldsögum hans, ekki síst nú þegar sumarið er í grennd.

Íslenskar þýðingar á verkum Gabriel Garcia Marques:

Fást á næsta bókasafni (heimild: Hugrás, vefrit hugvísindasviðs HÍ):

 • Hundrað ára einsemd, 1978 – þýð. Guðbergur Bergsson
 • Liðsforingjanum berst aldrei bréf, 1980 – þýð. Guðbergur Bergsson
 • Frásögn um margboðað morð, 1982 – þýð. Guðbergur Bergsson
 • Af  jarðarför landsmóðurinnar gömlu, 1985 – þýð. Þorgeir Þorgeirsson
 • Ástin á tímum kólerunnar, 1986 – þýð. Guðbergur Bergsson
 • Saga af sæháki, 1987 – þýð. Guðbergur Bergsson
 • Hershöfðinginn í völundarhúsi sínu, 1989 – þýð. Guðbergur Bergsson
 • Um ástina og annan fjára, 1995 – þýð. Guðbergur Bergsson
 • Frásögn af mannráni, 1997 – þýð. Tómas R. Einarsson
 • Minningar um döpru hórurnar mínar, 2006 – þýð. Kolbrún Sveinsdóttir
 • Nokkrar smásögur í tímaritum – þýð. Ingibjörg Haraldsdóttir, Stefán Sigurkarlsson

 

Birt í Kvennablaðínu, 23. júní 2017

Fokkið ykkur öll

Smásagnasafn Steinars Braga, Allt fer, er hnausþykkt og efnismikið og inniheldur nítján langar og fullburða sögur. Þær eru hvorki fallegar né meinlausar og ekki allar nýjar, þær eru margar og misgóðar en það er í þeim miskunnarlaus kraftur. Ef Steinar Bragi fær ekki bókmenntaverðlaunin, af þeim sem tilnefndir eru 2016, eru þau bara prump.

418lzlyrfslHvergi verður maðurinn eins lítill og ófrjáls, svo augljóslega roðhundur og þræll, eins og í fríhöfninni, þeim óskáldlega stað þar sem „meira að segja skórnir voru tortryggðir“ (11). Þar gengst fólk undir lög, vald og skrifræði af fúsum og frjálsum vilja, „Hver einasti fermetri verðlagður og öryggisvottaður oft á dag“ (11) og sætir sjálfviljugt rannsókn á persónulegum farangri, jafnvel eigin líkama. Glansandi fríhöfnin er sögusvið fyrstu sögunnar í safninu, „Reykjavík er að vakna“ þar sem firring vestrænnar menningar er undirtónninn, þar sem hjarðhegðunin nær hámarki. Engin tilviljun að þetta er fyrsta sagan í safninu, hún er þrusugóð.

Karnívalísk útrás

Myndir úr fleiri sögum safnsins sitja fastar á heilaberkinum að loknum lestri. Í „Kaiser Report“ hittast tveir kunningjar sem báðir eru búnir að mála sig út í horn. Kyrkislanga og kettlingar koma við sögu og atburðarásin er svo hrollvekjandi að ráðsettur lesandi unir ekki lengur undir leslampanum heldur hrökklast fram á bað til að skvetta framan í sig köldu vatni. „Páfastóllinn“ er sprenghlægileg, um par sem glímir við ófrjósemi, og karnivalísk útrásin nær hámarki í órum rúnksenu á læknastofu í Smáralind; verulega kröftugt atriði. „Kristalsgíraffinn“ er nútímalegt ævintýri um að selja sál sína djöflinum, það er sígilt þema sem vísar ekki síst til nútímamannsins sem gín yfir öllu. Sama þema er  á ferð í „Sögunni af þriðjudegi“. Báðar nöturlegar frásagnir af mannlegri eymd.

„Hvíti geldingurinn“ vekur upp þanka um tilvist mannsins. Hvað verður um mann sem ekki aðeins glatar frelsi sínu heldur er kynhvötin líka frá honum tekin? Hvað drífur þann áfram sem er án löngunar, án ástar? Sagan er ofbeldisfull og grimmdarleg en með sérkennilegu seiðmagni, ein af myndrænustu sögunum í safninu. Í „Ósýnileikanum“ nýtir kona sér að geta horfið sjónum annarra, hún njósnar um fólk og hnýsist í sjálfan dauðann, rýfur friðhelgi á viðkvæmum tímum þegar vanmáttur og óreiða ríkir, hún mætir í jarðarfarir og erfidrykkjur og sest við banabeð:

_Fyrstu tvær jarðarfarirnar sat ég úti í sal með hinum, svo færði ég mig upp á altarið til prestsins, ekki til að vanvirða neinn, en ég er forvitin, mig langaði að sjá andlit allra í kirkjunni, horfa í andlit sorgarinnar. Úti í kirkjuskipinu sér maður aldrei nema út eftir sætaröðinni, inn í hnakkann á fólkinu fyrir framan og það er ókurteist að teygja fram hausinn og glápa. Af hverju sitjum við ekki í hring í kirkjum – þær eru formaðar fasískt og við horfum aldrei nema í andlit prestsins og það er andstætt öllu sem munnurinn á honum segir um bræðralag og kærleika!“ (312).

Allt í rassgati

Titill smásagnasafnins Allt fer vísar í ýmsar áttir; til forgengileika, missis og hrörnunar sem er kannski klisja, hver segir sosum að allt þurfi alltaf að halda áfram (296) en líka til þess að allt fer einhvern veginn, tíminn líður og hugsjónir og draumar fjara út, fólk þroskast saman eða í sundur, dofið af dópi eða vana í bullandi sjálfhverfu. Hverjum er það að kenna þegar flosnar upp úr sambandi sögumanns og Jennýjar í raðhúsahverfinu inni í rassgatinu á Sigmundi Davíð?

„Við erum bæði ágætis manneskjur  og viljum vel og ég segi það í alvöru: ef helmingur þessara endaloka skrifast á brestina í okkur og allt helvítis kjaftæðið úr æskunni, fullyrði ég að hinn helmingurinn fellur skuldlaust á leigumarkaðinn og  barninginn í öll þessi ár og helvítis pólitíkusa sem hafa gleymt því fyrir hverja þeir vinna, og græðgina í bönkunum og Gísla í Gamma og gamla Quarashi-tillann Sölva viðskiptafræðing, allt þetta lið sem liggur eins og vampírur á hjörtum okkar sem gæðum miðbæinn lífi – fokkið ykkur öll (299-300).

Trump-týpan

Síðasta sagan, „Garðurinn“, er glæsilegur endasprettur á þessu sagnamaraþoni. Stórgrósser á ráðstefnu  vopnasala í sótugri Shanghai er sama týpa og Donald Trump: erkiillmenni, siðblindur, firrtur og lyginn, glúrinn á markaðstækifæri en orðinn mettur á lífinu. Hann hefur reynt allt, keypt allt og fyrir honum er veröldin tóm og grimm flatneskja:

„Í partýi um daginn fékk ég hugmynd sem rifjast upp fyrir mér núna: að reisa verulega há og sparsöm háhýsi með engum gluggum sem þýðir allt önnur lögmál í burðarþoli, en fella skjái í innanverða veggina, alla með sérsniðnu útsýni – allir fengju hornskrifstofur með útsýni af hundruðustu hæð yfir borg að eigin vali, eða breytilegt, með mánudaga á tindi Everest, þriðjudaga úr Alþjóðlegu geimstöðinni. Skjáir eru orðnir ódýrari en gluggar og kostar ekkert að þrífa þá, upplausnin HD í metersfjarlægð, færa sig svo yfir í þrívíddina. Þemadagar á föstudögum með útsýni yfir Kabúl, Raqqua eða Jemen og hádegisfyrirlestur um þær sætu hörmungar, eftir því við hvað fyrirtækin í húsinu eru að díla“ (324-325).

„Garðurinn“ er bæði reiðilestur yfir mannkyni sem skilur eftir sig sviðna jörð en líka elegía um mennskuna sem er á niðurleið, ástina sem er glötuð og ógeðið sem alls staðar viðgengst.

Manneskjan er bara líkami

Smásagnasafn Steinars Braga sker sig bæði að öllu leyti frá hinum óvenju mörgu smásagnasöfnum  sem út komu 2016 og frá öðrum skáldverkum síðustu áratuga.   Það er ekki verið að gæla við tungumálið, stílinn, orðlistina. Ekki verið að daðra við ismana, tala undir rós eða blikka ljóðrænuna. Það eru hugmyndirnar sem ráða ríkjum, þær vella fram, tæpitungulaust. Brýnt erindi og eldmóður einkenna þessar sögur allar, skapandi kraftur og ádeila sem helst minna á skáldskap Guðbergs Bergsson á góðum degi. Hið háleita er einskis vert, manneskjur eru ekkert merkilegar eða dularfullar,  þær eru bara líkamar.  „ – Líkamar að gera eitthvað við sjálfa sig, við aðra líkama eða við hluti… En líklega værum við ekkert án þessara litlu leyndarmála okkar, hvert í sínu horni að pota í holur, skera okkur með naglaþjöl, kasta upp. Hvað veit ég“ (307).

Engin miskunn

Á sagnaslóðum Steinars Braga eru fáir á ferli, hér eru óskáldlegir staðir eins og Eiðistorg, Perlan og Húsasmiðjan, skítugar stórborgir, fráhrindandi persónur, barnagirnd, tabú og töfrar og ógnvekjandi atburðir. Maður er hvergi óhultur, hræðilegir hlutir gerast í sífellu og alls staðar. Og það er enga miskunn að finna, aðeins myrka heimsmynd og dapurlega framtíðarsýn: „Ég er lappalaus fugl, hugsaði ég, líf mitt er sífellt flug úr einum stað í annan og ég get hvergi lent eða fundið hvíld“ (301).

Smásögur eru í senn bæði strangt og róttækt bókmenntaform sem býr yfir sérstökum áhrifamætti. Steinar Bragi hefur fullkomin tök á forminu og sýnir frábæra takta.  Allt smellur.

Mál og menning, 2016

351 bls.

Sérlega smart bókarkápa: Eyþór Páll Eyþórsson

Birt í Kvennablaðinu, 10. janúar 2017

Síðustu fjörkippir kerlingar

Er gamalt fólk ekki mestmegnis til óþurftar í samfélaginu? Úrelt og afdankað? Hætt á vinnumarkaði og komið á stofnanir þar sem það  hangir á horriminni vælandi um hærri ellistyrk. Það hefur gegnt sínu hlutverki, ætti það ekki bara að vera til friðs? Og ef það fer að hlaupa út undan sér, eyða arfinum eða verða ástfangið, þá er illt í efni.

12493764_682634515213193_3080483639432154021_oStutt skáldsaga, Tvöfalt gler eftir Halldóru K. Thoroddsen, hlaut nýlega Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna 2015. Sagan birtist fyrst í tímaritaröðinni 1005 en kemur nú út hjá bókaútgáfunni Sæmundi.

Halldóra er enginn nýliði þótt ekki sé hún afkastamikil, frá 1990 sent hún sent frá sér þrjár ljóðabækur og tvö smásagnasöfn í knöppum og íronískum stíl. Orðheppin er hún með afbrigðum og ætti að fá aukaverðlaun fyrir að nota svo hnyttilega orðasambandið að selja blíðu sína um áratuga starf við umönnun og barnakennslu. Hún vakti verulega athygli með eitursnjöllum örsögum, 90 sýni úr minni mínu (2002) þar sem hún sagði stórar sögur með fáum orðum. Í Aukaverkunum sem komu út 2007 tekur hún sér stöðu annálaritara eða þjóðsagnasafnara með gagnrýna sýn á nútímann en Halldóra hefur sterkar skoðanir á þjóðfélagsmálum. Ljóð hennar eru sömuleiðis beitt og bæði meitluð og myndvís.

Gamlingjar og geldingaást

Hingað til hefur Guðbergur Bergsson aðallega róið á gamlingjamiðin í íslenskum bókmenntum og dregið upp gróteskar myndir sem sýna einsemd, firringu og margrætt eðli mannsins. Í Tvöföldu gleri er fjallað um ellina og stigvaxandi hrörnun líkama og hugar á nærfærnari hátt, um það að hafa ekkert hlutverk í öllum hamaganginum, horfa á samfélagið utan frá, bíða dauðans og taka síðustu fjörkippina.

78 ára gömul kona þreyr þorrann í lítilli íbúð á Lindargötunni. Hún er þokkalega ern og sýslar við sitt, prjónar og hlustar á útvarpið, hittir vini sína sem brátt tína tölunni og fylgist með lífinu fyrir utan gluggann. Óforvarendis kynnist hún manni og tekur upp sambúð við hann, öllum til hrellingar. Kerling þarf reyndar að hugsa sig vel um áður en hún stígur inn í ástina á ný og breytir svona hressilega til í lífinu. Hún óttast að sprengja upp einmanalega veröld sína en vill heldur ekki verða doðanum að bráð (32). Hún hefur hingað til varast sársauka og hikað, alltaf staðið sína plikt og er „siðprútt gamalmenni“ (44).

Ástir eldra fólks eru tabú, einhvers konar geld ást sem stangast á við lífseigar hugmyndir okkar um norm í samfélaginu:

„Sjálft ímyndunarafllið verður feimið við hugmyndina um krumpuð og þurr gamalmenni að riðlast hvort á öðru með aðstoð sleipiefna“ (52).

Ansi svæsin mynd en í sögunni er þetta bæði  fallegt og sjálfsagt.

Kynslóðabil og hið vélræna líf

Í kyrrstæðu bændasamfélagi á öldum áður skipti aldur engu máli. Fólk lifði og starfaði eins og geta þess og heilsa leyfðu uns það lagðist í kör eða dó. Kynslóðir bjuggu saman og unnu að velferð heildarinnar. Þegar ellin og dauðinn færðust frá heimilinu til stofnana myndaðist rof í samhengið. Í sögunni er kynslóðabilið til gagnrýninnar umfjöllunar, ádeilan er grímulaus og beinist einnig að vélrænu lífi þræls gróðaaflanna:

„Hún fæddist inn í iðnbyltinguna sem seint og um síðir barst inn í íslenskar miðaldir og þá loksins gat þetta sker brauðfætt ættbálkinn. Hennar tími var heimskur þurs sem þurfti þó að fá sinn þroska. Það var í upplýsingunni, já, hún man það, sem við fórum að rífa allt í sundur til að skoða innviðina. Upp úr því grúski iðnvæddum við félagið og hólfuðum það niður í núverandi bása. Vinnuna í sérstakt hólf, þar sem hún smám saman hrökk í sjálfstýringu og snýst nú aðallega um eigin vöxt. Rányrkja dugnaðarforkanna eirir engu. Hver kynslóð ratar í sín hólf, bernsku og elli skipað í einangrun. Við hrópum í helli okkar og nemum aðeins eigið bergmál“ (17-18).

Harðsoðin og ljóðræn

Sagan er fallega skrifuð, harðsoðin og ljóðræn í senn, hvert orð er valið af kostgæfni. Myndmálið rímar fullkomlega við efni og þema; konan „hrærir næturkvíðanum út í dimmt kaffið“ (25) og það er „Hem á pollum, ósnertur dagur undir kristal“ (28). Glerið hefur margvíslegt tákngildi, það bæði einangrar og veitir útsýni og birtu, verndar um leið og það er brotgjarnt og skeinuhætt. Skáletruð (gler)brot með þönkum konunnar fleyga textann og þau síðustu bera feigðina í sér; sprungin pera, lekur eldhúskrani, nornagrátt hár og grimmt skammdegismyrkur, minnisleysi og einsemd taka völdin.

Halldóra hefur sýnt að hún er jafnvíg á örsögur og breiðari verk. Það er af ótal mörgu að taka í þessari sögu þótt stutt sé, hún fjallar um tilvist og tilgang, líf og dauða; þrungin speki, lífsreynslu og ríkri réttlætiskennd; tær og hvöss eins og titill hennar ber augljóslega með sér.

Bókaútgáfan Sæmundur, 2015. 75 bls

Birt í Kvennablaðinu, 14. 02. 2016

 

Ógæfuleg, íslensk þjóð

ThrirSneruAftur-175x269

Guðbergur Bergsson er einna merkastur rithöfunda hér á landi. Ferill hans er langur og skrautlegur og spannar allt frá módernískum umbrotaskáldsögum frá sjöunda áratug síðustu aldar, með hvassri ádeilu á undirlægjuhátt og þjóðrembu, til ljúfsárra endurminningabóka sem villa á sér heimildir og ögrandi og umdeildra ástarsagna, að ógleymdum ljóðum hans og meistaralegum þýðingum.  Guðbergur hefur ekki legið á skoðunum sínum um land og þjóð og er jafnan með vöndinn á lofti. Í nýjustu bók sinni, Þrír sneru aftur, sem tilnefnd er til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2014, er höfundurinn á kunnuglegum slóðum. Sagan gerist á fimmta áratug síðustu aldar og segir á ansi kaldhæðinn hátt frá áhrifum hernáms og veru ameríska varnarliðsins á íslenskt þjóðlíf og þeirri djúpu gjá sem myndaðist milli kyrrstæðs bændasamfélags og ungu kynslóðarinnar sem kærði sig hvorki um kotið, bátskelina né eilífðarbaslið lengur.

Sagan gerist framan af á afskekktum sveitabæ þar sem stelpur tvær, sem oftast renna saman í eina, búa með afa sínum og ömmu og önugum syni þeirra hjóna sem hatar þær og öll eru þau að drepast úr leiðindum. Eina tilbreytingin er þegar ferðalangar eiga leið um, tveir góðlátlegir Bretar birtast einn góðan veðurdag og skjóta svo aftur upp kolli síðar sem hermenn, Þjóðverji sem felur sig í hrauninu um tíma og íslenskur umrenningur sem flakkar um landið og  vekur óhug hjá stelpunum. Það er eins og að vera staddur í baðstofunni í Sumarhúsum eða Fæti undir Fótarfæti þegar gamla konan hlýðir stelpunum yfir skræðurnar frá Ríkisútgáfu námsbóka fyrir ferminguna, bækur sem má ekki selja eins og stendur á kápunni, meðan afinn liggur í kör, hlandblautur á dívan. Myndin sem dregin er upp af sveitalífi og búskaparháttum fyrri tíma er svo sannarlega ekki fegruð.

Einangrunin er rofin þegar heimstyrjöldin síðari skellur á og Ísland er hernumið. Mæður stelpnanna  eru löngu stungnar af úr sveitinni í fjörið í þorpinu, þær heillast af hermönnunum og flytja síðan til Ameríku, fyrirheitna landsins. Með aldrinum grípur útþráin stelpurnar líka þrátt fyrir uppeldi í guðsótta og góðum siðum og þær stökkva líka að heiman og er fátt um kveðjur. Gömlu hjónin hokra áfram ásamt syninum og strák úr þorpinu sem hefur hrakist þangað vegna veikinda móður sinnar. Þeir tveir kúra undir súð og lesa í fásinninu á kvöldin bókina Þrír sneru aftur, sem fjallar um skipbrotsmenn í stríðinu.  Lýsingar á því hvernig sú saga þeytist um í hausnum á þeim og hvaða  skilning þeir leggja í hana eru óborganlegar. Á meðan er gamla konan eitthvað að úðra, ung var hún gefin bóndanum sem er til lítils gagns og hún er alvön sjá um búskapinn, trúa á sinn guð og taka því sem að höndum ber. Henni berast bréf frá öðrum breska hermanninum sem dúkkaði upp á bænum sumarið góða forðum og vangaveltur hans um stríðsrekstur og fleira vekja upp hjá henni efasemdir um hlutverk sitt og tilgang með þessu jarðlífi en henni tekst þó oftast að hrista þær af sér með vinnu. Strákurinn fer frá bænum og brátt eru gömlu hjónin, dætur og dætradætur úr sögunni. Strákurinn og sonurinn verða miðja frásagnarinnar í seinni hluta sögunnar þegar nútíminn heldur innreið sína. Sonurinn gengur í barndóm, selur stráknum jörð foreldra sinna og dregst upp í eymd og volæði, „eirðarlaus í óhreinum sængurfötum, þakinn kaunum, sífellt að klóra sér og rífa sig til blóðs og sleikja fingurgómana (178). Strákurinn situr yfir honum og hlustar á endalaust raus hans á daunillum dánarbeði til að fylla í skörð glataðrar æsku og sakleysis. Hann og kona hans koma síðan á fót náttúruvænni hótelþjónustu á jörðinni og þá gerist það ótrúlega, þrír snúa aftur!

Stíll sögunnar er eins og aðdáendur Guðbergs þekkja, þéttur, harkalegur, miskunnarlaus og meinfyndinn. Víða eru skýr tákn og vísanir enda er hér um táknsögu að ræða því hún fjallar um íslenska þjóð sem var fáfróð, einangruð og afskekkt, hreifst með útlendum straumum og hrekst síðan stjórnlaust í endalausum sjávarháska. Persónurnar eru allar nafnlausar og afskaplega ógeðfelldar og lastafullar í lágkúru sinni þar sem þær velkjast um í sögunni. Kona stráksins er t.d. skýr táknmynd fyrir séríslenska græðgi og sjálfbyrgingshátt, gamla konan stendur fyrir fornar hefðir og gömul gildi sem enginn kærir sig lengur um og hafa glatast.

Víða eru gullmolar að hætti Guðbergs, eins og: „Af umræðunum varð hið skringilegasta gaman sem grípur sumt fólk á efri árum þegar fortíðin er mikil en framtíðin stutt. Allt fer eftir því hvort minnið er gott og heilsan sæmileg, en hvað sem minni og heilsu líður verður framtíðin aldrei annað en takmörkuð óvissa sem endar á fullvissu“ (200). Guðbergi er ekkert heilagt og hann lætur gamminn geisa. Íslendingasögurnar og fégráðug þjóðin fá makið um bakið:

„Í þessum sögum var ekki að finna neinar hetjudáðir heldur þann hroka, öfund, hégómlyndi og smámunasemi sem fylgir einangrun eftir að fólk af vissri þjóð hefur slitnað að mestu frá stærri evrópskri menningarheild og myndað sína eigin sögu… Í þessum sagnaheimi, sem minnti á heim nútímans, verðlagði fólk allt. Ættirnar verðlögðu jafnvel manndráp innan þeirra og fjölskyldur mátu bæturnar misjafnlega. Allt fór eftir því hver hafði verið drepinn. Mikið fékkst fyrir dráp á sumum, minna á öðrum“ (208).

Samhliða þemanu um stríðsgróða, undirlægjuhátt og Kanamellur sem sífellt endurtekur sig í sögu þjóðarinnar er fjallað um vanrækslu og ofbeldi, elli og sjúkdóma, hnignun og hrörnandi líkama eins og Guðbergi er einum lagið:

„…þegar angistin nístir holdið fer hugurinn að leita frelsis og tungan fæst til þess að viðurkenna margfaldleika lífsins og grimmdina sem því fylgir. Maður er þá orðinn gamall  og þunglyndur og ófær um að líta á sig með hliðsjón af öðru en sjúkdómunum sem þjá hann, ólíkt því þegar hann var ungur og sá aðeins hreystina og hélt að heilbrigði fælist í hæfileika til að blekkja sjálfan sig, að verða nógu blindur til að sjá ekki hvað leiðir til uppgjafar“ (191).

Kvenfólkið í sögunni hefur lágar hvatir og þráir ekkert heitar en hjónaband, helst með Kananum, og skeytir engu um tilfinningar karlmannanna. Þeir enda í bælinu, hlandblautir og getulausir í kör, ástlausir og einmana. Strákurinn er undir hælnum á konu sinni, pirraður yfir því að hún er honum fremri í flestu og nær sér niðri á henni og föður sínum í leiðinni á óvæntan og kvikindislegan hátt. Boðskapurinn er skýr, hér rekur allt á reiðanum og okkur er ekki viðbjargandi. Menn binda vonir við að ferðaþjónusta komi í staðinn fyrir Kanann, túristar í stað hermanna, þetta reddist og allir græði og verði ríkir. Þó er ekki neinu að treysta:

„Nú sá hún ekki fram á mikla aðsókn, að ekki væri hægt að reiða sig á ferðafólk fremur en annað í þessu landi óstöðugleikans. Allt var óstöðugt: veðurfarið, gengið gjaldmiðilsins, verðlagið, samgöngur og yfirvofandi fellir í fjármálastjórn ríkisins. Það var sama sagan og í landbúnaði áður. Og fiskgengd á miðin fór eftir duttlungum strauma. Jafnvel fjöllin tóku allt í einu upp á einhverjum fjanda, eldgosum og stöðugum jarðskjálftum með frosti fram eftir sumri og kolrugluð trén áttu það jafnvel til að bruma í skyndilegum  hlýindum á miðjum vetri. Konan fór að formæla náttúrunni, allt væri orðið nútímalegt nema hún, hér væri til allt af öllu, allt stæðist samanburð við aðrar þjóðir, framfarir væri hvarvetna, en loftslagið og náttúran eins og aftan úr rassgati“ (206).

Þrátt fyrir ömurleikann og vonleysið er ekki hægt annað en að lesa þessa mögnuðu bók upp til agna til að komast að því hvernig fer fyrir okkar ógæfulegu, íslensku þjóð sem er dregin sundur og saman í nístandi háði og afhjúpuð svona miskunnarlaust og snilldarlega.

Kvennablaðið, 16. janúar 2015

Tíðindalítið bókamenntaár (breytt útg.)

Þegar horft er um öxl á bókmenntaárið 2014  má segja að engin stórtíðindi hafi sosum orðið. Nokkrir rithöfundar settust við að semja endurminningar sínar, td Pétur Gunnarsson og Sigurður Pálsson, um námsárin, þroskaferli og glatað sakleysi. Mikil nostalgía er á ferð, 68-kynslóðin er að gera upp fortíðina, orðin makindaleg og sæmilega efnuð millistétt og hefur tapað hugsjónunum í streðinu og saknar eldmóðsins, hippafílingsins, kröfuganganna og þess að leggja sitt af mörkum til baráttunnar fyrir betra þjóðfélagi.

Gullöld 68 kynslóðarinnar er sjálf í brennidepli. Sjávarþorpin eru í tísku, sjoppan, frystihúsið og kaupfélagið eru í hillingum, en undiraldan er ádeila á kvótaruglið og landsbyggðarpólitíkina. Um þetta efni fjalla t.d. Eiríkur Guðmundsson og Jón Kalman vel og vandlega. Mál sem brennur á mörgum (kvenrithöfundum aðallega) er samband mæðgna og uppgjör við uppeldi og fortíð, bælingu og þöggun, misnotkun og ofbeldi, Auður Jónsdóttir á stjörnuleik í því. Kreppa miðaldra karla og kvenna er vinsælt yrkisefni, þar má nefna höfund eins og Steinunni Sigurðardóttur sem tekur á því af list sinni og stílkunnáttu.

Mikið um konur að skrifa um konur, árið 2015 eru 100 ár liðin frá því konur fengu kosningarétt og þá verður þess minnst á margvíslegan hátt, þá fá þvottakonur uppreisn æru, svo og alþýðukonur sem komu börnum á legg í sárri fátækt, um þetta skrifa td Kristín Steinsdóttir og Kristín Marja Baldursdóttir og halda heiðri formæðranna  á lofti. Líklega verður lífshlaup og ferill fyrstu alþingiskvennanna rifjaður upp, megum eiga von á bók/um um þær. Sögulegar skáldsögur eiga upp á pallborðið enda virðist sem þjóðin sé óðum að týna uppruna sínum, tungu og menningararfi. Á þessum miðum rær Ófeigur Sigurðsson lífróður en mikið var látið með hann á árinu.

Fleiri höfundar Íslands vinna með sjálf og samtíma, tíma og minni, tungumál og bókmenntaarf. Gyrðir var iðinn við kolann á árinu, listaskáld sem hann er, Oddný Eir og Steinunn Sigurðar skrifuðu flottar bækur um ástina,  glæpasögurnar eru samar við sig, þeim fer reyndar frekar fram en hitt og verma jafnan efstu sæti metsölulistanna. Ljóðið blaktir sæmilega og í ár kom myndrænn bálkur frá Gerði Kristnýju sem fékk góða dóma og hefðbundin ljóð Bjarka Karlssonar slógu í gegn 2013 og voru endurútgefin á árinu, en það er afar sjaldgæft, hefðbundið form, rím og stuðlar eiga greinilega upp á pallborðið. Nýir barnabókahöfundar skutust upp á stjörnuhimininn  (leikarar voru áberandi enda hæg heimatökin varðandi markaðssetningu) og þar er fantasían allsráðandi. Nokkur ládeyða er í íslenskri leikritun, enn er verið að setja upp skáldsögur á svið með misjöfnum árangri.

Þau stórtíðindi urðu þó á árinu að Lolita eftir Vladimir Nabokov kom út í íslenskri þýðingu Árna Óskarssonar. Þá var nýjasta bók Murakami þýdd snarlega, það gerði Ingunn Snædal en áður hefur Uggi Jónsson þýtt verk Murakami afskaplega vel. Um mikilvægi góðra þýðinga á heimsbókmenntum fyrir íslenskar bókmenntir er aldrei of mikið talað.

Vonandi kemur bók frá t.d. Vigdísi Grímsdóttur og Auði Övu á nýju ári, báðar eru höfundar sem búa yfir frumlegri hugsun, eiga brýnt erindi og hafa frábær tök á íslensku máli.

Kiljan á rúv hefur ennþá gríðarleg áhrif á íslenska bókmenntaumræðu, þar sitja karlar og tala við karla um bækur eftir karla. Bókaforlög hafa haldið áfram að renna saman og einleitni eykst, þeir selja sem hafa efni á að auglýsa og í menningarumræðunni safnast völdin á fárra hendur. Undir lok ársins átti sér stað furðuleg umræða um gagnrýnanda Víðsjár, Björn Þór Vilhjálmsson, á facebook og óvænt afhjúpaðist sú hneigð að það yrði að þagga niður í honum þar sem hann þótti ekki þóknanlegur. Sætti hann persónulegum svívirðingum sem hann sem betur fer lét ekkert á sig fá. Nokkrir rithöfundar og málsmetandi menn höfðu hátt um þetta um stund en urðu svo að biðjast afsökunar á þessu undarlega hátterni. Hvert stefnir í bókmenntagagnrýni á Íslandi ef þetta verður lenska?

Það urðu ss engir stórviðburðir á árinu í okkar litla bókmenntaheimi nema að stjórnvöld skutu sig í fótinn með að hækka verð á bókum þrátt fyrir mjög svo fyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir sjálfstæða og gagnrýna hugsun, þróun samfélags og tungumáls. Og hvað getum við gert í því? Ádeiluhöfundar eins og Guðbergur Bergsson og Steinar Bragi halda okkur við efnið eins og er, við erum kannski ekki ánægð með að fá á baukinn en þurfum þess svo sannarlega. Er ekki hlutverk bókmennta m.a. að vekja okkur, opna augu okkar, breyta heiminum? Það er löngu kominn tími á öxina frægu, beint í hausinn á okkur.

Álfabækur

Álfabækur Guðlaugs Arasonar. Verður bók framtíðarinnar listmunur í hillu, miniature, minjagripur, skraut?

Hin eilífa þrá

hin_eil_fa_r__jpg_200x800_sharpen_upscale_q95Hin óborganlega lygadæmisaga Guðbergs sem kom út á áttræðisafmæli snillingsins rústar öllu sem maður vildi hafa í skáldverki. Framvindan er hæg, persónur ógeðfelldar, efniviðurinn rotþró og forarvilpur fullar af fordómum, fyrirlitningu og klisjum. Sagan hefur einstakan, kaldranalegan og beittan húmor, stíllinn einkennist af ýkjum og grótesku. Í verkinu er ískaldur tónn, samtöl og tilsvör eru óborganleg, senur neyðarlegar og ádrepan miskunnarlaus. Samfélagsmyndin er svört, ömurlegt úthverfi, útpískaður verkalýður með vöðvabólgu og lágkúrulegt fólk með lágar hvatir. Sagan segir aðallega af Feita, verkamanni sem spilar í lottóinu því eins og allir Íslendingar vill hann verða ríkur áreynslulaust, það er hin eilífa þrá. Hann elskar lottóstúlkuna Fögru, þarf að heimsækja Mömmu á elliheimilið (hún er drepfyndin), vinna með saumakonum nr 1-6, fer á árshátið og stendur í skrýtnu sambandi við sólbrúna og hnýsna nágrannakonu. Sögumaður er ótukt, grimmur og erfiður, dregur lesandann inn í söguna, sýnir enga miskunn, hæðist að honum, persónunum og sögunni.  „Við þekkjum þetta líka, þú og ég, lesandi góður, af eigin reynslu og höfum lent þúsund sinnum í svipaðri aðstöðu og Feiti (það er einhver Feiti í okkur öllum), að taka ákvörðun um að hætta en fara síðan út í sama fenið af auknum krafti, fegin yfir að hafa farið ofan af því að láta ákvarðanir taka ákvörðun fyrir mann. Fyrir bragðið skiljum við Feita út frá eigin reynslu. Við mundum gera nákvæmlega það sama og hann, að hrista ósætti við veruleikann af okkur með vinnu“ (18).

Heimska og grimmd, græðgi sem nær út yfir gröf og dauða, svaðaleg kynlífssena í kirkju, einelti gagnvart fötluðum, ekkert er heilagt og engu hlíft, allt er yfirgengilegt og óborganlegt, háðskt og meinhæðið, sett fram til að hneyksla mann og ergja. Og það er gott, þetta er ekki saga sem maður les til að sættast við tilveruna.

Guðbergur Nóbell

Allir sem einhvers máttu sín litu svo á að tungan væri aðeins fyrir Íslendinga, einu þjóðina í heiminum sem fékk að hafa móðurmál sitt í friði fyrir öðrum, þótt friðurinn stafaði einungis af gagnsleysi þess fyrir utan landsteinana. Tungan var ekki einu sinni nothæf til að selja með henni þorskalýsi og lopa á erlendum mörkuðum. Hið algera gagnsleysi varði tunguna, ekki hún sjálf með notagildi sínu. Menn hrósuðu sér af því að eiga tungumál sem væri svo djöfullega snúið að ekki væri á færi annarra en innfæddra að læra það og fæstum tókst það fullkomlega… (Ein og hálf bók, hryllileg saga 2006)

Endalausir gullmolar eru í verkum hins síunga snillings, Guðbergs Bergssonar. Þetta t.d. rakst ég á í gær, á áttræðisafmæli hans, þegar ég seildist í eina bók úr hillunni af handahófi. Hver einasta bók hans hefur sinn sjarma og snilld, það er stíllinn og orðaforðinn, háðið, kaldhæðnin, viska og yfirsýn, ádeila, tabú, þjóð og menning, remba og rotinpúrra, útnáraháttur, skáldskapur, pólitík, kellingar, æska og elli, ást og hjónaband osfrv. Mest held ég uppá Önnu og bernskubækurnar. Hvenær fær hann eiginlega nóbelinn?