Jón landlæknir var meðalmaður á hæð og vel þrekinn og sterklegur, ekki feitur, sköllóttur snemma, með mikið kinnskegg; hann var margfróðastur manna um allt sem fram fór í heiminum og lagði sig mest eftir ensku; má vera að Magnús í Viðey hafi haft áhrif á hann því Magnús var mesti enskumaður. Jón átti margar góðar bækur, einkum um lækningar og náttúruvísindi en einnig söguleg verk, og var hann vel að sér í hvívetna þótt ekki væri hann beinlínis vísindamaður. Hann var sá ótrauðasti og ötulasti læknir sem hugsast getur og vitjaði sjúklinganna hvað sem það kostaði, endar var hann sterkur og ákaflega heilsuhraustur, hófsmaður mesti, skemmtinn og glaðvær og jafnlyndur; hann óð Hraunsholtslæk í beltisstað í hörkugaddi og í annað sinn var hann sóttur frá Ráðagerði eða Gróttu um nótt í vetrarhörku; beið maðurinn eftir honum og hélt hann væri að búast á stað; en eftir nokkuð langa stund kemur Jón þar að honum fyrir utan húsið, og var þá kominn aftur utan af nesinu. Innan húss var hann afskiptalítill, eða sýndist vera. Elín Thorstensen var skörungur mikill, stór og fönguleg, og höfðingleg sem hún átti ætt til, og undir eins fannst einhver höfðingjabragur þegar inn var komið í „Doktorshúsið“. Þrír voru „drengirnir“, Jónas, Stefán og Theodór; dætur tvær: Ragnheiður og Guðrún. Við Jónas vorum hér um bil jafn gamlir og urðum brátt vinir þótt við værum ólíkir að eðli því hvor hefur fundið hjá öðrum það sem sig vantaði; hann er einn af þeim fáu – kannski sá eini, sem ég get kallað vinar nafni, og hélst það meðan hann lifði.
Dægradvöl, 2014:87-88