Sumarbækurnar streyma nú inn á markaðinn og fylla metsölulistana, léttar og spennandi, fljótlesnar, ódýrar kiljur sem fara vel í vasa. Flestar eru þýddar, misvel, en ein og ein frumsamin og því ber að fagna. Ein þeirra er Þessi týpa eftir Björgu Magnúsdóttur sem kom út nýlega. Bókin er sjálfstætt framhald af fyrstu bók Bjargar, Ekki þessi týpa, og segir frá fjórum ungum og hressum vinkonum í Reykjavík. Sjónarhornið í sögunni skiptist á milli þeirra fjögurra en þær eru ólíkar týpur, Inga er snobbaður lögfræðingur í úthverfi með fullkomnunaráráttu, Bryndís vanrækt alkabarn, Tinna er soldið óljós og Regína fyndin og forhert. Sögumaður heldur utan um alla þræði, gefur öllum köflum lýsandi heiti og kynnir aðstæður í upphafi hvers þeirra með smáu letri þótt treysta mætti flestum lesendum til að ráða í efnið án þessara hjálpartækja. Í heild er sagan létt og skemmtileg aflestrar og auðvelt að gleyma sér í sumarhitanum við trylltan brúðkaupsundirbúning Ingu, vonlaust samband Bryndísar við lúðann Gumma, brussugang Regínu og hikandi fálm Tinnu í blaðamennsku og makaleit. Stundum er gengið fullhratt til verks við að ganga frá lausum endum í sögunni, t.d. í umsátri Rafns fjölmiðlastjörnu sem endar jafnsnöggt og það byrjaði og þegar Regína er tekin úr umferð með því að pakka henni ofan í farangursgeymslu. Margt er fyndið, bæði uppákomur og orðaskipti en það er líka slegið á viðkvæma strengi, stundum tekst það vel og stundum miður. Nauðgun og anorexía eru alvörumál sem afgreidd eru af fullmikilli léttúð. Ýmislegt er fyrirsjáanlegt í sögunni, s.s. hlutverk tengdamóðurinnar, hommans Jóns Ting og besta vinarins, Davíðs. Senur með Bryndísi og Regínu eru sterkastar enda mest spunnið í þeirra persónur. Sagan er aldrei leiðinleg og nær hámarki þegar brúðurinn tilvonandi grípur til örþrifaráða. Margt minnir á hressa unglingabók, bæði í byggingu, söguþræði og persónusköpun. Í málfari og stíl mætti sitthvað betur fara og fyrstu efnisgrein sögunnar (sem hér fer á eftir) og þeirri síðustu hefði að ósekju mátt eyða úr handritinu áður en bókin fór í prentun.
Er ég bara blind dúfa í voldugri krumlu sem kreppist allt í einu saman? Eða áttavillt dádýr sem veiðist í lásboga úti í skógi af því að það veit ekki í hvorn fótinn á að stíga? Flækir ef til vill fótleggina saman af taugaveiklun og endar nokkrum tímum síðar í bútum í ofni hjá þýskum skógarverði. Eða er þetta eitthvað allt annað? Hann á ekkert tilkall til athygli minnar en fær hana samt á þess að ég hafi nokkra stjórn á því (5).
Skvísubók eða unglingabók, merkimiðinn skiptir ekki öllu en það þarf alltaf að vanda sig. Björg á eftir að þroskast sem höfundur og sögumaður og það verður áhugavert að fylgjastmeð því, hana skortir hvorki hugmyndir né eldmóð.