Að elska of mikið

I-leyfisleysi-175x290

Áttugasta og fjórða Neonbók Bjarts, Í leyfisleysi eftir Lenu Andersson, kom út á dögunum. Þórdís Gísladóttir þýddi úr sænsku og tekst vel að halda tilgerðarlausum og klínískum stíl Anderssons til haga. Söguþráðurinn er kunnuglegur, kona verður ástfangin af þekktum listamanni, karl er í meðallagi hrifinn en hún verður fórnarlamb sjálfsblekkingar og vonar sem nærist á einu orði, raddblæ, örlitlu brosi eða bliki í auga (195). En þrátt fyrir gamalkunnugt plott er hér er frumlega farið með efnið.  Vandlega er fylgst með framvindu ástarsambandsins með tilheyrandi væntingum og síðar angist aðalpersónunnar, Esterar. Hún er tilbúin til að fórna ýmsu fyrir ástina sem hún ber til Hugo en sama gildir ekki um hann. Það sem í huga hans er þægileg dægradvöl er hjartans mál fyrir Ester sem sveiflast milli vonar og ótta og þjáist bæði á sál og líkama yfir stuttaralegum tilsvörum Hugos, afskiptaleysi og ósvöruðum sms-um. Því meira sem hún þráir Hugo, því meir fjarlægist hann. Með tímanum sækja höfnunartilfinning og biturð að Ester en alltaf lifir hún í voninni. Jafnvel þótt vinkvennakórinn reyni að leiða henni fyrir sjónir að orustan sé löngu töpuð.

Þau hjúin eru jafnólík og dagur og nótt. Hann er sjálfhverfur í frægðarljóma sínum, léttur á bárunni, þrífst á aðdáun annarra og rígheldur í frelsi sitt og sjálfstæði, hún er nákvæm og gagnrýnin, orðheppin og tilbúin í langtímasamband. Fyrir honum er tíminn fljótandi en hún er vön tímasetningum og skipulögðum fundum, líf hennar verður eintóm bið eftir áheyrn hjá honum, hans líf snýst fyrst og fremst um að þjóna list sinni og losta. Hann hefur völdin og hún þarf að stíga varlega til jarðar til að fæla hann ekki frá með krefjandi örvæntingu sinni: „hún átti að vera glöð og hress þegar þau hittust í kvöld, ekki ásakandi og vonsvikin, ekki sýna neitt af því sem kraumaði innra með henni“ (76)

Ástin er þversagnarkennt fyrirbæri, með sínar endalausu flækjur, kröfur og væntingar. Hvað þýðir sameiginlegur morgunmatur eftir heita ástarnótt? Er það næring og orka til að takast á við daginn framundan? Eða yfirlýsing um ást og skuldbindingu? Og ef maður vill ekki morgunmatinn, er það þá flóttaleið til að sleppa við nánd? Hversu langur tími á að líða frá ástarfundi þangað til maður hringir?

„Hún var ákveðin í að hringja ekki í hann. Hann vann mikið, hún varð að sýna honum virðingu og að hún væri sjálfstæð, óháð og fullorðin manneskja með stjórn yfir eigin lífi án þess að vera í stöðugu sambandi. Vissulega fannst henni undarlegt ef einhver vildi ekki vera í stöðugu sambandi við manneskju sem viðkomandi væri nýbyrjaður í ástarsambandi með, en hún varð að hafa aðlögunarhæfni“ (90).

Í sögunni er m.a. fjallað um tungumál ástarinnar, um þagnir og orð sem eru endalaust misskilin og oftúlkuð. „Í hita augnabliksins áttaði Ester sig ekki á að setningar gætu verið léttar og álíka útbrunnar og aska. Þeim var dreift af kæruleysi, þær sáldruðust niður, ein og ein. Orð voru ekki traust minnismerki um skoðanir og sannleika. Þau voru hljóð til að fylla þagnir“ (123). Frasi eins og „verðum í sambandi“ er léttúðugur hjá þeim sem lítið elskar en tendrar vonarglætu og felur í sér skuldbindingu fyrir manneskju sem er ástfangin.

Sagan fjallar ekki síður um kynhlutverkin sem þróast hafa í menningunni í aldanna rás. Vilja karlar ekki það sama og konur? Veitir nokkurra daga ástarsamband Ester sérstakan rétt til að krefjast einhvers af Hugo? Stendur Hugo ógn af gáfum og orðfimi Esterar? Er hann svikari? Snýst ástin um vald, þvingun? Er Ester of aðgangshörð, er hún harðstjóri? Ástarklisjurnar eru krufnar til mergjar í sögunni, sambandið er skilgreint lið fyrir lið, orð og  framkoma beggja aðila túlkuð og stúderuð. Miði á ísskápnum er táknrænn og lýsir Ester vel, hún skrifar á hann ástarorðin þrjú og skilgreinir  setningarfræðileg hlutverk þeirra í huga sér, „frumlag, sögn, andlag“ (87). Þessi makalausa ástarsaga er ekki laus við íroníu og er býsna grimm á köflum en undirliggjandi er samúð með þeim sem láta blekkast af tálvonum ástarinnar og elska of mikið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s