„Lars Kepler“ er dulnefni sænskra hjóna sem ákváðu að leggja í púkk og skrifa saman sakamálasögur. Verk þeirra eru mergjuð og hafa enda slegið í gegn, verið þýdd á fjölmörg tungumál og seljast í bílförmum. Parið hefur skrifað svo til eina bók á ári frá 2009 og í haust er væntanleg fimmta bók þeirra, Stalker (Eltihrellir), sem vonandi verður þýdd á íslensku hið snarasta. Sandmaðurinn frá 2012 kom út í afbragðsgóðri þýðingu Jóns Daníelssonar á síðasta ári og er ómissandi sumarlesning.
Raðmorðinginn ógurlegi, Jurek Walter, hefur setið inni á lokaðri geðdeild í Svíþjóð í 13 ár þegar eitt meintra fórnarlamba hans finnst á lífi. Þrjóskasta lögga í heimi, hinn finnskættaði Joona Linna, tekur málið upp og þar með hefst hrikalega spennandi atburðarás sem lesandinn sogast inn í og endar með ósköpum. Helstu persónur sögunnar eru listavel smíðaðar. Joona Linna er hörkunagli sem hefur fórnað lífshamingju sinni fyrir öryggi fjölskyldunnar, hann er ráðagóður og einbeittur, eldklár og gefur sig aldrei ef hann telur sig vera kominn á sporið. Hann þaulþjálfaður í sjálfsvörn og bardaga í návígi að hætti ísraelska hersins og bregður sér hvorki við sár né bana. Fyrri hluti bókarinnar fer í að rifja upp forsögu Jurekmálsins og það er ekki fyrr en eftir 150 blaðsíður sem Saga, hin aðalpersónan, birtist. Hún er yfirfulltrúi hjá Öryggislögreglunni og ekki minni jaxl en Jooni. Hún er fimur boxari, hárnákvæm skytta og sérmenntuð í yfirheyrslutækni auk þess að vera svo fögur að flestir „sem sjá hana fyllast undarlegum söknuði. “ (150). Hún fær það flókna verkefni að ná til Jureks Walters innan rimlanna og veiða hann í net sitt.
Að vera grafinn lifandi hlýtur að vera ein versta martröð sem til er og það er einmitt aðferðin sem Jurek Walter notar. Hann er stórhættulegur maður, skarpgreindur og snarbrjálaður. Jurek er haldið í algerri einangrun og starfsfólkið á geðdeildinni setur í sig eyrnatappa því hann býr yfir seyðandi afli sem fær fólk til að skelfast hann og hlýða skipunum hans umyrðalaust. Í sögunni kemur skýrt fram að lög og mannréttindi eru að engu höfð á deildinni, sjúklingar eru beittir valdi og sprautaðir með lyfjum til að auðveldara sé að eiga við þá. Það hindrar Jurek samt ekki í ætlunarverki sínu og grimmd hans virðast engin takmörk sett.
Nokkrum hliðarsögum fer fram um leið og spennan vex og allt er þetta afar vel smíðað. Hinn þjóðsagnakenndi Sandmaður gegnir svipuðu hlutverki og Óli Lokbrá, en það sofnar enginn fyrr en þessi bók er á enda lesin. Langt er síðan ég hef lesið svo magnaðan reyfara og löngu eftir að ég lauk við hann velti ég enn fyrir mér örlögum persónanna. Og sagan er ekki búin, enn meiri ógn og hryllingur bíða í næstu bók.