Ferðalangur 2015

Þá er ég heim komin eftir árlegt úthald í fjallatrukknum VWLT40. Að þessu sinni hófst ferðalagið í Vestmannaeyjum og voru gosstöðvar alveg til friðs þessa fjóra daga sem við dvöldum þar. Veðrið var nú ekkert sérstakt, frekar kalt, sól af og til en einn daginn rigndi. Við gengum á einhverja hóla til að taka myndir og reyna eitthvað á okkur, fengum okkur að borða á Slippnum, nýjum og trendí veitingastað, og keyptum sitthvað í Útgerðinni sem er afar smart hönnunar- og sælkerabúð. Farið var í fótsnyrtingu hjá Snyrtistofu Ágústu sem reyndist svo vera skólasystir mín úr Kennó og urðu fagnaðarfundir. Tjaldstæði Þórs var bara huggulegt og tjaldvörðurinn var einstaklega hress og almennileg kona sem greinilega fannst gaman í vinnunni.

Síðan var stefnan tekin upp á land eins og Eyjamenn segja. Veðrið var að batna, við vorum eina nótt hjá Gljúfrabúa að mynda Seljalandsfoss í sól og blíðu. Þar er tjaldstæði einkar huggulegt og snyrtilegt (ekki gömlu klósettin samt) en enginn kom að rukka og ég er viss um að landeigandinn tapaði þúsundum þennan sólarhring sem við vorum þarna. Næsta morgun var rigningarúði og ekki til setunnar boðið. Ekið var sem greiðast upp að Geysi en þar var einstök veðurblíða enda dýrasta tjaldstæði landsins, 1700 kr á mann. En aðstaða fyrir tjaldgesti þar er til mikillar fyrirmyndar. Að loknum sólböðum, myndatökum og veisluhöldum var ekið upp á Snæfellsnes en þar var besta spáin á landinu. Skemmst er frá því að segja að við vorum þar það sem eftir lifði af ferðalaginu, þvældumst milli víkna og tanga, hóla og stapa. Náttúrufegurð og saga hvert sem litið var. Tjaldstæði á nesinu eru til fyrirmyndar, nema á Arnarstapa, þar er salernisaðstaðan orðin heldur þreytt.

Það er fátt eins endurnærandi eins og að ferðast um landið sitt og umgangast náttúruna. Þá gildir bara að láta aðra ferðamenn ekki fara í taugarnar á sér. Umgengnin um helstu ferðamannastaði er því miður slæm, sígarettustubbar og klósettpappír eru til ama og leiðinda, tjöld útum hvippinn og hvappinn og meira að segja sáum við tjald í sjálfum þjóðgarðinum. Það er ekki við ferðamenn að sakast, heldur ferðaþjónustuaðila, bílaleigur, landeigendur, sveitarfélög, stjórnvöld og löggjafarvald sem ekki gera skyldu sína. Hvað er flókið eða dýrt við að upplýsa fólk, t.d. setja upp skilti sem bannar því að tjalda utan tjaldstæða og hvetur til að henda ekki rusli á víðavangi? Reyndar þurfum við sjálf að ganga þar á undan með góðu fordæmi. Það ætti að banna rútum að taka farþega nema vera með klósett innanborðs, reisa litla kamra við helstu viðkomustaði hið snarasta og sjá til þess að vel sé gengið um þá. Það þarf að setja skýrar reglur og upplýsa ferðamenn vel, tvær stúlkur á puttaferðalagi sem við spjölluðum við vissu ekki annað en það mætti tjalda hvar sem er á Íslandi, það höfðu þær heyrt eða lesið einhvers staðar. Sömu upplýsingar höfðu hress hjón frá Ísrael sem voru með lítinn kúkakamper, á bílaleigunni var þeim sagt að þau mættu hafa náttstað hvar sem er.

Allir ferðamenn sem koma til landsins ættu að fá einfaldan og skýran upplýsingabækling um ferðamennsku á Íslandi; t.d. umgengni, umferð, utanvegaakstur, upplýsingar um færð og veðurspá o.s.frv. Það þarf að efla vegalöggu á sumrin, 2-3 bíla í hverja sýslu til að fylgjast með umferð og umgengni. Það ætti gefa út sérstakt útileguhjóla- og göngukort með helstu leiðum þar sem salerni er sérstaklega merkt inn á. Skítapoka ættu menn að geta tekið með sér í hverri sjoppu og sett í gám í þeirri næstu. Og það þarf að gera þetta allt strax, ef við viljum fá ferðamenn til landsins verður að vera eitthvað fallegt fyrir þá að skoða og þeir verða að finna að þeir séu velkomnir. Góða ferð!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s