Hundaborgin

Í Prag er háþróuð hundamenning og margir eiga hund að einkavin. Heyrt hefi ég að það sé einn hundur á hverja tvo borgarbúa (íbúafjöldinn er 1,3 milljónir) en sel ekki dýrara en ég keypti. Í blokkinni minni eru fimm hundar í einni íbúðinni á efstu hæð og stór, svartur Labrador veit ég að á heima í íbúðinni beint á móti. Aldrei hafði ég samt heyrt svo mikið sem bofs í honum að heitið gæti, fyrr en síðastliðinn sunnudagsmorgun. Þá brá eigandinn sér á skrall kvöldið áður og skildi hundinn einan eftir, spangólandi af söknuði, hungri eða hlandspreng. Ég er búin að bjóðast til að gæta dýrsins næst þegar útþráin grípur eigandann.

Hér eru hundar agaðir, vel upp aldir og kátir, þeir eru ekki alltaf hafðir í ól en eru gjarnan með munnkörfu, og þeir hlýða skilyrðislaust við minnstu vipru, augnatillit eða blístur. Hundar eru í sporvögnum og lestum, inni á veitingastöðum, á markaðnum, í almenningsgörðum og verslunarmiðstöðvum; þeir fá oft að skokka lausir, enginn kippir sér upp við það og þeir amast ekki við neinum. Við inngang veitingastaða og verslana má sjá vatnsdalla á stéttinni sem eru ætlaðir til þess að hundar geti svalað þorsta sínum. Yfir svölustu vetrarmánuðina eru hundarnir dubbaðir upp í alls konar föt og prjónapeysur, stundum eins klæddir og eigandinn, og einn lítinn stubb sá ég með húfu á hausnum en hann var reyndar ekkert ánægður á svipinn. Það er örmjó lína milli þess að eiga hund og kúga hund.

Langflestir hundaeigendur hirða upp eftir hundinn sinn, séð hefi ég þó einn og einn hundaskít á gangstétt en hann staldrar ekki lengi því sorphirðumenn eru alla daga með sóp og fægiskóflu á lofti við að hirða sígarettustubba, pappírsrusl og annað sem til fellur í dagsins önn í erilsamri milljónaborg, enda er Prag einstaklega hrein og snyrtileg.

IMG_7751

Þessi var á bændamarkaði á sunnudagsmorgni, ekki til sölu samt

En borgin fagra á sér skuggahliðar. Betlarar liggja á sögufrægri Karlsbrúnni í eins konar hundastellingu (hvolpateygju), hvíla þungann á olnbogum og hnjám og rétta fram sprungna lófa í von um ölmusu. Stundum liggur tætingslegt hundspott af blandaðri tegund við hlið þeirra, sneplótt og sultarlegt, sem vekur ekki minni samúð en mannskepnan í eymd sinni og niðurlægingu. Séð hef ég líka fulla og dópaða róna með horaða, vanrækta og óttaslegna hunda, sorgin í augum þeirra er hjartaskerandi.

Prag er líka borg hinna mörgu myndastytta. Á eins kílómetra rölti má búast við að sjá ekki færri en 30 styttur. Og séð hefi ég a.m.k.tvær hundastyttur, reistar til heiðurs þessum ástríku tryggðatröllum, besta vini mannsins.

 

Ein athugasemd

  1. Fyrsta efnisgreinin er svona úr Google Translate:
    In Prague is sophisticated culture and many dogs have a dog that einkavin. I have heard that there is one dog for every two residents (population is 1.3 million) but do not sell more expensive than I bought. In memory block are five dogs in one apartment on the top floor and a large, black Labrador knows I live in the apartment opposite. I had never yet heard so much as bofs in him a promise could, until last Sunday morning. Then the startled owner himself recorded the night before and left the dog alone, Golant span of loss, hunger or urine explosion. I’ve offered to take care of the animal next time útþráin grabs owner.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s