Sérvitringur með fullkomnunaráráttu

Sérvitringur með fullkomnunaráráttu

Ingibjörg Haraldsdóttir, skáld og þýðandi, (1942-2016), er í hópi albestu ljóðskálda landsins og hefur haft mikil áhrif á íslenskar bókmenntir. Fyrir andríka ljóðlist hennar og stórvirki heimsbókmenntanna í öndvegisþýðingum verður seint nógsamlega þakkað.

Ingibjörg sendi frá sér fimm ljóðabækur um ævina og tvær safnbækur. Ljóð hennar eru frumleg, persónuleg og gjarnan íronísk og þannig gerð að þau eiga alltaf erindi við mann. Hún hlaut margvíslegar  viðurkenningar fyrir skáldskap sinn, m.a. íslensku bókmenntaverðlaunin 2003 og íslensku þýðingarverðlaunin 2004. Tvisvar var hún tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs; árið 1993 en þá hreppti danski rithöfundurinn Per Hultberg verðlaunin og 2004 en þá var Finninn Kari Hotakainen hinn útvaldi (nú eru allir búnir að gleyma þeim fyrir löngu).

Ingibjörg var eldheitur femínisti; konur, kvenmyndir og staða skáldkvenna í bókmenntaheiminum voru henni hugleikin viðfangsefni. Í fyrirlestri sem hún hélt í Norræna húsinu árið 2005 sagði hún m.a.:

„Á einhvern hátt erum við alltaf byrjendur, hver ný skáldkona er Júlíana Jónsdóttir om igen, stúlka sem passar ekki inn í hefðina af því að þar eru fyrir eintómir karlar. Annað hvort lendir hún utanborðs og reynir bara að gleyma þessu, eða hún setur undir sig hausinn og þráast við, storkar hefðinni, hvort sem hún er þess meðvituð eður ei.“

Og Ingibjörg setti svo sannarlega undir sig hausinn; kannski höfuð konunnar sem hún orti um 1995 og frægt er orðið. Alla tíð stóð hún vörð um jafnrétti, félagslegt réttlæti og frið.

Húm

Með húminu
kemur mýktin

raddirnar fá flauelsáferð
sjáöldrin verða fjólublá

í húminu
er enginn sannleikur
engin trú
ekkert stríð

aðeins þessi mjúki dökki friður
augnanna
aðeins þessi kyrra mjúka dýpt
andartaksins

áður en myrkrið skellur á

(Hvar sem ég verð, 2002)

Mikilvægi þýðinga fyrir grósku og viðgang bókmenntalífs hér á landi er óendanlegt.  Þýðingar Ingibjargar, úr rússnesku og spænsku, eru úr frummáli og með þeim bestu sem gerðar hafa verið á íslensku. Hún þýddi m.a. Meistarann og Margarítu eftir Búlgakov, en sú bók er talin ein af merkustu skáldsögum tuttugustu aldar, og helstu doðranta Dostojevskís, Glæp og refsingu, Djöflana, Karamazov-bræðurna og Fávitann.

Í áðurnefndum fyrirlestri sagðist Ingibjörg hafa í gegnum árin haft skemmtun og ánægju af þýðingarvinnunni„…þetta starf sem er einsog skapað fyrir fólk einsog mig, pedantíska sérvitringa með fullkomnunaráráttu“.

Íslenskir bókmenntaunnendur horfa á eftir skáldi sínu og merkasta þýðanda með hjartað fullt af þakklæti.

Sigling

Ótryggar gerast nú stundirnar:
enginn sem vakir
við stýrið í kolsvartri
nóttinni enginn
sem veit
hvert halda skal
dögunin
óviss djúpið
hlakkandi nærtækt
— í skutnum
skelfingin ein.

TMM 1990

Birt í Kvennablaðinu, 9.nóv.2016

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s