þýðingar

Í gruggugum lögum ólgandi mannhafsins

Það er allt á suðupunkti í Hinum smánuðu og svívirtu, 514 blaðsíðna skáldsögu rússneska skáldjöfursins Fjodors Dostojvevskís (1821-1881), sem út kom á dögunum hjá Forlaginu. Sagan birtist fyrst árið 1861 sem framhaldssaga í tímariti í heimalandinu eins og fleiri sögur Dostojevskís. Þetta er ein af fyrstu skáldsögum meistarans, sem um þessar mundir var í fjárhagskröggum vegna spilafíknar og átti ástríðufulla ástkonu en hafði ekki enn kynnst Önnu Snitkínu, hraðritara, sem varð eiginkona hans og tryggði honum vinnufrið og sálarró til dauðadags. Hann hafði afplánað pyndingar og fangavist í Síberíu og horfst í augu við aftökusveit en lét engan bilbug á sér finna og tók að hamast við að skrifa sígildar heimsbókmenntir.

 

Grugg mannhafsins

Saga þessi gerist í St. Pétursborg á nítjándu öld þar sem örlög fursta og fagurra kvenna, róna og ráðsmanna, flogaveikra unglinga og furðufugla fléttast saman í þessu kostulega og margradda verki. Titill sögunnar er eins konar ranghverfa á hinu fagra og háleita, boðskap rómantíkurinnar sem var allsráðandi í bókmenntum á ritunartímanum. Andstæður milli stétta eru skýrar og sjónum er beint að smælingjum sem hrekjast og svelta meðan ríka fólkið gerir sér að leik að smána þá og svívirða.

„Myrk var hún, þessi saga: ein af þeim drungalegu og átakanlegu sögum sem eiga sér iðulega stað undir þungbúnum himni Pétursborgar en fara lágt, eru svo sjaldan færðar til bókar að furðu sætir, i dimmum og dularfullum afkimum þessarar ægilegu borgar, í gruggugum lögum ólgandi mannhafsins, innan um og saman við sljóa sjálfselsku, hagsmunaárekstra, forboðnar nautnir, leynilega glæpi, mitt í þessu svartasta helvíti, þessari glórulausu og öfugsnúnu tilveru…“. (245-246)

Ivan Petrovítsj (eiginlega Jón Pétursson, kallaður Vanja) er aðalpersóna, rithöfundur og sögumaður sem gengur algerlega fram af sér, bæði í því hlutverki og sem sáttasemjari og boðberi. Ást hans á fegurðardísinni Natöshu er óendurgoldin en þrátt fyrir höfnun, fátækt og annir við skriftir þeysist hann á milli fólks og staða og reynir að hafa áhrif á atburðarás sem stefnir öllum í glötun. Hann gengur erinda allra persóna á einn eða annan hátt og undir lokin er hann aðframkominn á spítala, párandi minnisblöð að farast úr sorg og dulrænni sálarangist (76). Bent hefur verið á að sögumaðurinn eigi margt sameiginlegt með Dostojevskí sjálfum (538-541) en persónur hans, sálfræði og sagnaheimur er þannig hannað frá höfundarins hendi að alltaf kemur eitthvað undarlegt upp úr kafinu.

Sápuópera?

Í meðförum meðaljóns væri söguþráður af því tagi sem hér er á ferð í mesta lagi lélegur farsi eða sápuópera. En í mjög stuttu máli gengur sagan út á að Natasha hin fagra og Alosja furstasonur eru elskendur en furstinn ætlar að stía þeim í sundur og fá syninum ríkt kvonfang, þ.e. Kötju sem er hin geðugasta stúlka. Alosja er ístöðulaus strákhvolpur sem elskar alla en særir þá um leið, Natasha vill ekki þvinga hann til neins þótt henni hafi verið útskúfað af foreldrum sínum vegna sambandsins við hann og upphefst nú mikið drama þar sem Vanja reynir að miðla málum sem auðvitað er vonlaust verk. Að auki sest munaðarlaus, fátæk og flogaveik unglingsstúlka upp hjá Vanja sem tekur ekkert eftir því að hún elskar hann bókstaflega út af lífinu. Við sögu koma fleiri magnaðar persónur, nægir að nefna spæjarann slynga og sífulla, Maslobojev, sem er aldeilis spaugilegur, algerlega kominn á flöskubotninn.

Eftirminnilegt illmenni

Mannlýsingar Dostojevskís eru bráðlifandi og meinfyndnar, samtöl eru líka fyndin og afar dramatísk enda verið að brugga ýmis ráð, ræða hugsjónir og þjóðfélagsmál og takast á um skömm, heiður og ást. Persónurnar eru hávaðasamar og heillandi, þær æpa, gráta, baða út öngum, riða á fótunum, engjast af sálarkvölum, fölna og falla í yfirlið. Furstinn er eftirminnilegt illmenni sem fær útrás fyrir valdagræðgi og losta með því að leika sér að tilfinningum fólks. Lífsafstaða hans er kaldranalega ógnvekjandi og hún veður uppi nú, 150 árum síðar: „Það eina sem ekki er kjaftæði – það er einstaklingurinn, ég sjálfur. Allt er falt og heimurinn skapaður fyrir mig“ (366).

Í þessari skáldsögu Dostojevskís eru kvenlýsingar óvenju djúpar og samúðarfullar. Ekki er annað hægt en finna til með Natöshu, sem í senn stolt og niðurbrotin þjáist af nagandi afbrýðisemi og ofurást á Alosja, og dást að Kötju sem tekst á við sára sektarkennd vegna hamingju sinnar á kostnað Natöshu. Og Nellý, munaðarleysinginn sem sest upp hjá Vanja, á í miklu og erfiðu sálarstríði sem lýst er á nærfærinn hátt.

Tekur einhver mark á „Ritaranum“?

Ingibjörg Haraldsdóttir (d. 2016) þýddi sjö þekktustu skáldsögur Dostojevskís úr rússnesku með miklum sóma og var byrjuð á þessari sögu þegar hún varð frá að hverfa vegna veikinda. Gunnar Þorri Pétursson, sem segist í fróðlegum eftirmála vera „lúsugur Rússlandsfari“, tók þá við og það verður að segjast að yfirbragð þýðingarinnar er dálítið annað en maður á að venjast hingað til. Þýðingin er hvorki verri né betri heldur öðruvísi, einhvern veginn hrárri, léttari og nútímalegri en sennilega er sagan það líka á frummálinu. Það er tilhlökkunarefni að fá fleiri þýðingar úr rússnesku frá Gunnari Þorra, þessi hefur kostað býsna yfirlegu en lofar svo sannarlega góðu. Aftast eru ritskýringar sem varpa ljósi á ýmsa frasa, sögulegar staðreyndir og vísanir auk áðurnefnds eftirmála og lista yfir helstu sögupersónur og er það allt þakkarvert og hjálplegt.

Undir lok skáldsögunnar stígur bókmenntagagnrýnandi fram, þ.e. „Ritarinn“ sem fjallar um síðustu skáldsögu Vanja (481) og segir söguna lykta af svita, hún sé skrifuð af alúð og elju, fágun og nostursemi en afraksturinn sé nokkuð tormeltur. Þetta á ágætlega við um Hina smánuðu og svívirtu. En hver tekur sosum mark á bókmenntagagnrýni?

 

Birt í Kvennablaðinu, 29. júní 2018

Svartur í Sumarhúsum

Chinua-Achebe

Chinua Achebe (1930-2013)           Mynd: Paris Review

Skáldsagan Allt sundrast (Things fall apart) eftir nígeríska rithöfundinn Chinu Achebe  er komin út á íslensku í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Bókin kom fyrst út 1958 og er fyrsta skáldsaga þarlend um nýlenduvæðingu Afríku sem skrifuð er af innfæddum. Áður höfðu lærðir yfirstéttarmenn í Evrópu skrifað um það sem fyrir bar í framandi heimsálfum en náðu aldrei að fanga blæbrigði og margræðni sögu, menningar og samfélags Afríku enda voru þeir fulltrúar heimsveldis sem hugðist ná valdi yfir frumbyggjunum undir yfirskini kristni og framfara og létu greipar sópa um auðlindir hennar.

Stríðsmaðurinn Okonkwo er karlmenni mikið sem hefur með ærinni fyrirhöfn komist til metorða meðal ættbálksins. Hann á þrjár eiginkonur, góðan forða af mjölrótum og mikla belgi pálmavíns. Í huga hans er heimurinn heill og óbreytanlegur. En honum verður á að brjóta slysalega gegn reglum ættbálksins og er gerður brottrækur. Að sjö árum liðnum snýr hann aftur í þorpið sitt en þá er allt breytt. Hvítu mennirnir eru komnir á vettvang og hafa öll völd. Þeir hafa byggt kirkju, komið verslun á fót og m.a.s. reist dómshús þar sem sýslumaður skipar hrokafullum réttarþjónum sínum fyrir og hegnir innfæddum fyrir minnstu yfirsjónir.

„Hvíti maðurinn er mjög snjall. Hann kom hljóðlega og friðsamlega með sína trú. Við hentum gaman að kjánaskap hans og leyfðum honum að vera. Nú er hann búinn að vinna bræður okkar á sitt band og ættflokkurinn getur ekki lengur staðið saman. Hann bar hníf að því sem sameinaði okkur og við erum sundraðir“ (213).

Öllu hefur farið aftur í þorpinu í fjarverunni og Okonkwo þarf að taka til sinna ráða. En hvers má hann sín gegn ofureflinu? Örlög hans ráðast af því að hann breytist ekki, aðlagast ekki og efast aldrei, í rauninni er hann í augum vestræns bókmenntagagnrýnanda alveg fáránlega þver og bældur; eins konar Svartur í Sumarhúsum. Og sögulokin eru í þeim anda, í senn bæði tragísk og algerlega snilldarleg.

Tungumálið er eitt af mörgu sem gerir þessa sögu eftirminnilega. Hún er skrifuð á ensku, tungu kúgarans, en er samt „vopn gegn vestrænni hlutdrægni“ eins og segir í eftirmála Maríu Ránar Guðjónsdóttur (253). Þýðing Elísu Bjargar er algjörlega trú tærum og kímnum, eiginlega íronískum stíl frumtextans. Víða koma fyrir afrísk orð og heiti sem enskan nær ekki yfir og eru óþýdd en aftast í bókinni er orðalisti með þýðingum þeirra. Framandi orðin, speki öldunganna, myndrænir málshættir ásamt þjóðsögunum sem þrælandi konurnar þekkja og segja, skapa skemmtilegan, seiðandi brag. Sögusviðið verður svo skýrt og raunverulegt að lesandinn hlammar sér hiklaust inn í obi og er farinn að kjamsa á fúfú áður en hann veit af. Þýðanda er ávallt vandi á höndum að gera framandi menningarheim aðgengilegan lesendum en ekkert bendir til þess að hann tilheyri ekki menningu frumtextans, svo vel er þýðingin af hendi leyst.

Siðir innfæddra sem hafa verið við lýði kynslóð fram af kynslóð eru ekki allir röklegir eða fallegir og langt frá því að vera göfgaðir í sögunni heldur er talað um þá af virðingu og fordómaleysi. Konur í þorpinu þurfa að þola margvíslegt misrétti og ofbeldi, ungum drengjum er fórnað og börn eru borin út. Hinir fátæku, ættsmáu og útskúfuðu innan ættbálksins sjá fljótlega tækifæri í að ganga til liðs við guð hvíta mannins og öðlast nýja framtíðarmöguleika. Kyrrstætt og lagskipt samfélag sem byggir á feðraveldi, helgisiðum töfraanda og afrekum hraustra stríðsmanna riðar til falls.

Allt sundrast er margræðari lesning en hún virðist vera við fyrstu sýn enda svart og hvítt, rétt og rangt, heilt og sundrað ekki eins einfaldar andstæður og ætla mætti.

Angústúra, 2018.
Birt í Kvennablaðinu, 14. maí 2018

Sögumaður sem þegir

„Þetta er margfalt stærri bók en hún lítur út fyrir að vera og ágeng eftir því. Allt sem þögnin leynir brýst fram í meitluðum, viðkvæmnislegum stíl,“ segir Steinunn Inga Óttarsdóttir, bókmenntagagnrýnandi Víðsjár, um bókina Velkomin til Ameríku eftir Lindu Boström Knausgård sem nýlega kom út í þýðingu Þórdísar Gísladóttur.

Steinunn Inga Óttarsdóttir skrifar:

680

Stundum eru skáldsögur ágengar og djúpar í einfaldleika sínum, stórar í smæð sinni, fáorðar um svo margt. Líkt og þríleikur hins norska Jon Fosse (2016) sem lýsir sögu kynslóða í Noregi á fyrri öldum með svo knöppum stíl að það er undravert; svo sannarlega efniviður í óralanga sjónvarpsþáttaröð eða 3ja tíma dramatíska bíómynd. Sænski rithöfundurinn Linda Boström Knausgård (f. 1972) er einnig spör á stóru orðin þegar hún lýsir geðveiki og örvæntingu brotinnar fjölskyldu á 95 blaðsíðum í glænýrri bók sem ber þann vongóða titil, Velkomin til Ameríku.

Á bókarkápu er svarthvít sjálfsmynd af stúlku sem heldur á einhverju, kannski fornri selfie-stöng (því ljósmyndarinn dó 1981). Stúlkan horfir ekki í myndavélina, hún lítur undan og hárið hylur andlit hennar. Myndin er ekki í fókus og öll frekar óskýr og drungaleg sem slær svo sannarlega tóninn fyrir stemninguna sem koma skal.

Sögumaðurinn er ellefu ára stúlka en skynjun hennar á heiminum er fullorðinsleg og uggvekjandi, hún er einmana og öryggislaust barn sem  heldur fast í myrkrið (32), með eilífan kvíðahnút í maganum og óskar þess að deyja, hún sér enga aðra útleið. Hún hefur þolað margs konar ofbeldi og niðurlægingu á sinni stuttu ævi; orðið fyrir geðveiku stjórnleysi föður síns og beygt sig undir líkamlegt og andlegt ofbeldi bróður síns sem situr um að kvelja hana. Hún heitir Ellen og hún hugsar með sér – en segir það ekki upphátt: „Það er ekki auðvelt að alast upp“ (82).

Því segir hún það ekki upphátt? Tja, Ellen lumar nefnilega á aðferð til að lifa af í hörðum heimi. Það er þögnin, hún hefur ekki mælt orð frá vörum í langan tíma. „Ég hætti að tala þegar ég byrjaði af vaxa of hratt. Ég var viss um að ég gæti ekki bæði talað og vaxið“ (6). Hún hefur rekið sig á að tungumálið er lika hvort sem er fullt af lygum. Hún vill heldur ekki skemma þá glansmynd sem hampað er af fjölskyldulífinu né afhjúpa léttinn innra með sér; hún óskaði þess svo heitt að pabbi dæi og óskin rættist.

Á heimili Ellenar eru tæplega nokkur samskipti milli móður og barna, þar er eilíf valdabarátta: „Kannski fannst bróður mínum að ég réði, og mér fannst það vera hann og mamma hélt að það væri hún, þó að í raun vissi hún það ekki. Það var eins og friðsældin, sem ég upplifði stundum heima, orsakaðist af því að þar væri fínriðið net af skilningi og góðvild, að enginn braut gegn óskrifuðu reglunum. Allir urðu að leggja sitt af mörkum, annars brysti allt“ (92). Ellen hefur mikla þörf fyrir að hafa stjórn á öllu: á hvatvísinni, hugsunum sínum, vexti líkamans; að endurraða húsgögnunum í litla heiminum sínum, teygja á þráðum öryggisnetsins með þrjóskunni (92) og reyna þannig að halda fjölskyldunni saman.

Bróðirinn er alltaf með lúkurnar á lofti, lokar sig heiftúðugur inni í herberginu sínu og hefur neglt dyrnar aftur. Mamman er heillandi leikkona, valdamikil með gleði sína og styrk, „það er bjart yfir fjölskyldunni okkar“ (10), segir hún í tíma og ótíma, í einhverri undarlegri afneitun eða til að verjast myrkrinu sem ásækir þau öll, en þegar hún bugast og grætur eftir skapofsaköstin fellur heimurinn saman (16). Kannski er hún alltaf að leika leikrit á sviði (95) þar sem pabba er ekki hleypt inn til að trufla sýninguna. Ellen elskar og dáir mömmu sína og lítur á hana sem náttúruafl og frelsara þrátt fyrir að hún sé augljóslega djúpt sokkin í sjálfsblekkingu, jafnvel sjálfhverfu. Pabbinn var drykkfelldur og geðveikur, þrúgaði allt heimilislífið og heldur því áfram eftir skilnað og dauða, hann birtist í herbergi Ellenar, horfir á hana sofa, treður sér inn í líf hennar. Sjálf segist Ellen vera ljúflynd og góð stelpa, hún heldur dauðahaldi í minningar um útivist, veiðiferðir og hamingjuríka barnæsku áður en ógæfan dundi yfir, og hún býr yfir  djúpri bókstafslegri barnatrú. En hún hefur tekið á sig ábyrgð á velferð annarra, axlað sorg þeirra og geðveiki. Með því að velja þögnina ver hún sig, þá er færra sem þarf að taka ábyrgð á, færra sem þarf að hafa stjórn á en afleiðingarnar eru yfirþyrmandi einsemd og skömm. „Það er bjart yfir fjölskyldunni okkar…“

Ellen hefur ákveðið að þegja en hvorki mamman né bróðirinn nýta sér tungumálið heldur. Þögnin hentar fjölskyldunni ágætlega, þannig kemst hún af. „Þögnin í kringum mig óx og varð líka að þeirra þögn. Mamma talaði enn við mig en hún gerði ekki ráð fyrir að fá svar. Ég held það hefði hrætt hana ef ég hefði skyndilega sagt eitthvað. Það er líkt og allar aðstæður leiti jafnvægis. Þegar við rekumst hvert á annað við ísskápinn, er hver einasta stund eins og eitthvað sem þarf að jafna út með einhverju öðru. Að búa saman var kannski einmitt þetta. Að færa jafnvægispunktinn til þar til allir væru sáttir. Margar leiðir voru mögulegar. Eitt var ekki verra en annað“ (30).

Í tungumálinu felst menning, vald, sjálfsmynd, gildismat, kennisetningar, kerfi, karlveldi, kúgun og útilokun svo eitthvað sé nefnt og það er merkingarþrungin ákvörðun að snúa við því baki. Svo sannarlega er það áskorun fyrir rithöfund að lýsa því með sjónarhorni persónu á mörkum bernsku og unglingsára og fjalla um trámatíska reynslu og uppeldi sem mótar og herðir, þroskar í besta falli eða eyðileggur til frambúðar, án þess að verkið verði klénn sálfræðiþriller eða hvunndagsleg vandamálasaga. Það tekst í þessari meitluðu bók. Að alast upp við aðstæður Ellenar er ekki boðlegt en viðgengst samt alltof oft víða í skeytingarleysi og sjálfhverfu vorra tíma. Ef nefna ætti höfund sem hefur helst verið á þessum slóðum í íslenskum bókmenntum koma Vigdís Grímsdóttir og Auður Jónsdóttir fyrst upp í hugann en í sögum þeirra má sjá álíka örvæntingarfullar tilraunir barna til að lifa af og halda heimi fjölskyldu sinnar saman.

Harmsaga pabbans, geðveiki hans og dauði, er undiraldan í sögunni. Sjálf þekkir Linda Boström Knausgard andleg veikindi enda hefur hún glímt við þau  sjálf, sem frægt er orðið. Bók Lindu er sjálfsævisöguleg að hluta, sjálf valdi hún þögnina á tímabili í eigin uppvexti og átti í býsna flóknu sambandi við móður sína.

Bókin kom út seint á síðasta ári í Svíþjóð, var þýdd snarlega á flest Norðurlandamálin og er nú komin út, í aprílmánuði hinum grimma, í glóðvolgri, íslenskri útgáfu. Það er vert að lofa metnaðarfullt og lofsvert framtak íslenskra  bókaútgefenda sem leggja kapp á að vera tímanlega með það nýjasta í bókmenntum í öndvegisþýðingum. Þýðing Þórdísar Gísladóttur úr frummálinu er fullkomlega tær og myndrík og lýsir spennu milli þroskaðrar sögumannsraddar og sjónarhorns ellefu ára barns. Orðalag Ellenar er víða fullorðinslegt, mér fannst til dæmis gaman að sjá hana nota orðið „heybrók“ um „feg jävel“ (48). „Tystnad“ á sænsku er þögn á íslensku, mikið er nú íslenskan falleg.

Velkomin til Ameríku vísar allkaldhæðnislega til fyrirheitna landsins, lands tækifæra og frelsis og tengist þeirri ímynd sem móðirin býr til af fjölskyldulífinu. Þetta er margfalt stærri bók en hún lítur út fyrir að vera og ágeng eftir því. Allt sem þögnin leynir brýst fram í meitluðum, viðkvæmnislegum stíl sem er fullur af átakanlegu trúnaðartrausti og von um betri daga:

„Það er bjart yfir fjölskyldunni okkar…“

Við heyrðum Göran Engdal plokka gítarstrengi og sænsku hljómsveitina Knife taka lögin The Silent Shout og Heartbeats. Í lokin ómaði Dýrð í dauðaþögn eftir Ásgeir Trausta.

Víðsjá, 24. apríl 2017

Það sem ég tala um þegar ég tala um þýðingar

haruki-murakami

Ljósmynd: Runners World

Ímynd rithöfundarins fræga, Haruki Murakami, er maður sem heldur sér til hlés, ritar dularfullar skáldsögur og lætur ekki uppskátt um eigin hag. Það var því óvænt ánægja þegar hann sendi frá sér bókina Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup (á frummáli: Hashiru Koto ni Tsuite Kataru Toki ni Boku no Kataru Koto) þar sem hann lýsti tildrögum þess að hann byrjaði að skrifa skáldverk ásamt djúpri ástríðu sinni fyrir hlaupum. Um leið og hann segir frá sínum bestu sprettum, æfingum, keppni og maraþoni lýsir hann því hvernig hann hugsar og heldur dampi í þrotlausri vinnu sem rithöfundur. Hlaupabókin er því hvorki venjuleg hlaupadagbók, ævisaga né hefðbundin minningabók þótt undirtitill hennar sé Endurminningar (Memoirs) en vissulega er hún blanda af þessu öllu.

Er hann ofurmenni?

Hlaup eiga þolið, einbeitinguna, álagið og samkeppnina sameiginlega með þrotlausu starfi rithöfundarins. Murakami fer á fætur kl 5 að morgni, borðar grænmeti og fisk og reimar svo á sig hlaupaskóna hvernig sem viðrar. Svo situr hann við skriftir tímunum saman og er kominn í háttinn um tíuleytið á kvöldin. Ekkert fær haggað rútínunni sem er honum lífsnauðsynleg. Murakami er ekkert ofurmenni, hann predikar ekki yfir lesendum að hlaup séu endilega lausn við öllum vanda, heldur segir hreinskilnislega frá því hvernig reglusemi, hreyfing og einfalt mataræði auðvelda honum lífið og stuðla að velgengni hans sem rithöfundar og manneskju. Hann hefur skrifað á annan tug skáldverka sem öll hafa slegið í gegn, hefur hlaupið 25 maraþon á ævinni og hann er hvergi nærri hættur.

Murakami-æði um alla heimsbyggðina

Murakami er stórt nafn í heimsbókmenntunum og segja má að eins konar æði hafi gripið um sig síðustu ár (1,2 milljón „læk“ á facebook-síðunni hans) og er Ísland ekki undanskilið. Hann hefur meira að segja komið hingað til lands, því hann var gestur á bókmenntahátíð í Reykjavík 2003. Aðdáendur Murakami vænta þess á hverju ári að hann fái nóbelinn í bókmenntum en dómnefndin hefur látið sér fátt um finnast hingað til.

Verkum Murakami, skáldsögum og smásögum, má gróflega skipta í tvennt. Annars vegar skrifar hann sálfræðilegar vísindaskáldsögur, hins vegar tilvistarlegar ástarsögur. Hlaupabókin sker sig því verulega úr höfundarverki hans. Fimm skáldverk eftir Murakami komu út á íslensku í sérlega vönduðum þýðingum Ugga Jónssonar á árunum 2001-2006 og eitt í ágætri þýðingu Ingunnar Snædal 2014.  Að þýða bækur Murakami, hvort sem það er úr japönsku eða ensku, er ekkert áhlaupaverk og mun erfiðara en það virðist við fyrstu sýn.

Þýðingardæmi

Hlaupabókin kom fyrst út í Japan 2007 og einn helsti þýðandi Murakami, Peter Gabriel, snaraði henni á lipurlega  á ensku. Íslensk þýðing Kristjáns Hrafns Guðmundsonar, sem sennilega er upp úr þeirri ensku, er því miður ansi brokkgeng. Textinn í Hlaupabókinni er vissulega ekki eins mystískur og fágaður og í skáldsögum Murakami en hann er samt myndrænn og heimspekilegur eins og höfundarins er von og vísa. Það skilar sér ekki í þýðingunni, auk þess sem enskan smitar textann víða. Of oft eru t.d. notuð eignarfornöfn að enskum sið þar sem engin þörf er fyrir þau á íslensku (líkami minn, líf mitt, barinn minn, skórnir mínir) og sums staðar er orðalagið beinlínis klúðurslegt, eins og sjá má af eftirfarandi dæmum:

„Það rigndi í stutta stund á meðan ég hljóp, en það var kælandi rigning sem veitti mér vellíðan. Þykkt ský barst af hafi og yfir höfuð mitt, og notalegir regndropar féllu í smástund…“ (13).

„It rained for a short time while I was running, but it was a cooling rain that felt good. A thick cloud blew in from the ocean right over me, and a gentle rain fell for awhile…“ (5).

„Þegar hrekkjavakan er búin mætir veturinn á svæðið, á hnitmiðaðan og þöglan máta eins og þaulreyndur skattheimtumaður“ (106)

 „Once Halloween is over, winter, like some capable tax collector, sets in, concisely and silently“ (89)

„Að keppa við tímann er ekki mikilvægt. Það sem mun hafa miklu meiri þýðingu fyrir mig núna er hversu mikið ég get notið hlaupsins, hvort ég get klárað fjörutíu og tvo kílómetra með ánægjutilfinningu. Ég mun njóta og meta á hátt sem ekki verður tjáður með tölustöfum, og ég mun fálma eftir stolti sem kemur frá aðeins öðrum stað en venjulega (142)“.

„Competing against time isn´t important. What´s going to be much more meaningful to me now is how much I can enjoy myself, whether I can finish twenty-six miles with a feeling of contentment. I´ll enjoy and value things that can´t be expressed in numbers, and I´ll grope for a feeling of pride that comes from a slightly different place“ (121).

Bókstaflega 90% sviti

Burtséð frá vanköntum þýðingarinnar er áhugavert að kynnast manninum sem birtist þarna á hlaupum því hér gefur hann í fyrsta sinn færi á sér.  Á hann kannski eitthvað skylt með skáldsagnapersónum sínum? Hann er vissulega einrænn og dulur, fáskiptinn og sérlundaður líkt og svo margar persónur í verkum hans en málið er flóknara en svo. Það er magnað sjá hvernig hann hefur náð valdi á bæði hugsunum sínum og líkama og ekki annað hægt en dást að staðfestu hans og þrautseigju. Um leið fæst sjaldgæf innsýn í líf hans og hagi; það hefur verið sagt um vinnu rithöfunda að hún sé 90% sviti og 10% snilligáfa, það sannast hér, bókstaflega.

Hver einasti joggari með sómatilfinningu verður að lesa 3. kafla sem segir frá fyrsta langhlaupinu sem Murakami lagði á sig. Það var hin 42,2 km langa leið frá Aþenu til bæjarins Maraþon; mögnuð frásögn. Allir pælarar um skáldskap, bæði bókmenntaunnendur og rithöfundar, munu hafa gaman af að lesa Hlaupabókina, þótt þýðingin sé ekki góð. Nú er lag að reima á sig hlaupaskóna og taka nýja árið með trukki.

Benedikt bókaútgáfa, 2016

204 bls

Enskar tilvitnanir: Murakami 2009, Vintage Books, Random House, NY.

Birt 24. janúar 2017 (Kvennablaðið)

 

Sérvitringur með fullkomnunaráráttu

Sérvitringur með fullkomnunaráráttu

Ingibjörg Haraldsdóttir, skáld og þýðandi, (1942-2016), er í hópi albestu ljóðskálda landsins og hefur haft mikil áhrif á íslenskar bókmenntir. Fyrir andríka ljóðlist hennar og stórvirki heimsbókmenntanna í öndvegisþýðingum verður seint nógsamlega þakkað.

Ingibjörg sendi frá sér fimm ljóðabækur um ævina og tvær safnbækur. Ljóð hennar eru frumleg, persónuleg og gjarnan íronísk og þannig gerð að þau eiga alltaf erindi við mann. Hún hlaut margvíslegar  viðurkenningar fyrir skáldskap sinn, m.a. íslensku bókmenntaverðlaunin 2003 og íslensku þýðingarverðlaunin 2004. Tvisvar var hún tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs; árið 1993 en þá hreppti danski rithöfundurinn Per Hultberg verðlaunin og 2004 en þá var Finninn Kari Hotakainen hinn útvaldi (nú eru allir búnir að gleyma þeim fyrir löngu).

Ingibjörg var eldheitur femínisti; konur, kvenmyndir og staða skáldkvenna í bókmenntaheiminum voru henni hugleikin viðfangsefni. Í fyrirlestri sem hún hélt í Norræna húsinu árið 2005 sagði hún m.a.:

„Á einhvern hátt erum við alltaf byrjendur, hver ný skáldkona er Júlíana Jónsdóttir om igen, stúlka sem passar ekki inn í hefðina af því að þar eru fyrir eintómir karlar. Annað hvort lendir hún utanborðs og reynir bara að gleyma þessu, eða hún setur undir sig hausinn og þráast við, storkar hefðinni, hvort sem hún er þess meðvituð eður ei.“

Og Ingibjörg setti svo sannarlega undir sig hausinn; kannski höfuð konunnar sem hún orti um 1995 og frægt er orðið. Alla tíð stóð hún vörð um jafnrétti, félagslegt réttlæti og frið.

Húm

Með húminu
kemur mýktin

raddirnar fá flauelsáferð
sjáöldrin verða fjólublá

í húminu
er enginn sannleikur
engin trú
ekkert stríð

aðeins þessi mjúki dökki friður
augnanna
aðeins þessi kyrra mjúka dýpt
andartaksins

áður en myrkrið skellur á

(Hvar sem ég verð, 2002)

Mikilvægi þýðinga fyrir grósku og viðgang bókmenntalífs hér á landi er óendanlegt.  Þýðingar Ingibjargar, úr rússnesku og spænsku, eru úr frummáli og með þeim bestu sem gerðar hafa verið á íslensku. Hún þýddi m.a. Meistarann og Margarítu eftir Búlgakov, en sú bók er talin ein af merkustu skáldsögum tuttugustu aldar, og helstu doðranta Dostojevskís, Glæp og refsingu, Djöflana, Karamazov-bræðurna og Fávitann.

Í áðurnefndum fyrirlestri sagðist Ingibjörg hafa í gegnum árin haft skemmtun og ánægju af þýðingarvinnunni„…þetta starf sem er einsog skapað fyrir fólk einsog mig, pedantíska sérvitringa með fullkomnunaráráttu“.

Íslenskir bókmenntaunnendur horfa á eftir skáldi sínu og merkasta þýðanda með hjartað fullt af þakklæti.

Sigling

Ótryggar gerast nú stundirnar:
enginn sem vakir
við stýrið í kolsvartri
nóttinni enginn
sem veit
hvert halda skal
dögunin
óviss djúpið
hlakkandi nærtækt
— í skutnum
skelfingin ein.

TMM 1990

Birt í Kvennablaðinu, 9.nóv.2016

Í regnskóginum

Tristes tropique eða Regnskógabeltið raunamædda (1955, á íslensku 2011) er einkennileg blanda af ferðasögu, sjálfsævisögu, mannfræðirannsókn og heimspekipælingum. Hinn frægi og goðsagnakenndi Claude Leví-Strauss starfað um hríð sem háskólakennari í Sao Paulo, stórborg í Brasilíu, og ferðaðist um frumskóga Amasón undir lok fjórða áratugar síðustu aldar.

Regnskógabeltið fjallar um ferðalög, landkönnuði og túrista, mannfræði og heimspeki, vestræna menningu andspænis suðrænni, mann og náttúru, um nýlendukúgun og arðrán, landnám Evrópubúa og þjóðarmorð. Það er skrifað í mjög myndrænum og útspekúleruðum (strúktúralískum) stíl og svarthvítar ljósmyndir höfundar úr regnskóginum prýða bókina.

Leví-Strauss lést 2009 rúmlega aldar gamall en þá voru allir hinir frægu, frönsku heimspekipoppararnir dauðir. Hann sjálfur var orðinn fótsár af ævinnar eyðimörk og hafði dregið sig í hlé frá skarkala heimsins fyrir löngu. Pétur Gunnarsson vann að þýðingu bókarinnar úr frummálinu í hjáverkum um 17 ára skeið, listavel eins og hans er von og vísa. Áður hefur komið út eftir Leví-Strauss á íslensku ritgerðin Formgerð goðsagna (Sporin, 1991), sem ég las í háskólanum hjá Matthíasi Viðari á sínum tíma og var sannarlega hugvekja.

Það var áhugavert að rifja þessa bók upp í námskeiði um Travel Studies við Univerzita Karlova í Prag á dögunum. Einkum vegna þess að einn nemandinn er frá Mexíkó og hafði sterkar skoðanir á sýn höfundar á frumbyggjana og benti á dæmi þess að Leví-Strauss væri sjálfur ekki alveg laus við þann hroka og yfirgang sem hann gagnrýnir í bók sinni.

A-PROPOS-DE-TRISTES-TROPIQUES-PR_medium

Úr Tristes Tropique, zaradoc.com

Fórnir formæðranna

Tilfinningalegt samband foreldra og barna getur verið mjög flókið og um það hafa ótal skáldsögur verið skrifaðar. Klassískt dæmi er óheilbrigt samband Sölku Völku við móður sína þar sem dóttirin var bæði sterkari og sjálfstæðari en móðirin, og frægir eru komplexarnir sem þjáðu Franz Kafka vegna ástleysis föður hans. Hér er svo sannarlega óþrjótandi efniviður.

Eg_a_teppi_i_thusundlitum-175x275

Anne B. Ragde er kunnur norskur rithöfundur sem hefur skrifað dramatískar og grípandi sögur um tilfinningasambönd í fjölskyldum, einkum út frá femínísku sjónarhorni. Amma hennar hefur orðið drjúgt söguefni en hún var þversagnakennd, illskeytt og eigingjörn kona sem gerði dóttur sinni lífið leitt. Atlætið skilar sér áfram til næstu kynslóðar og Ragde þurfti að þola margt í samskiptum við móður sína sem bjó fráskilin með tvær dætur í Þrándheimi um miðja síðustu öld. Í nýrri bók, Ég á teppi í þúsund litum, fjallar Ragde um lífsbaráttu hennar en um leið kynnist hún sjálfri sér, skoðar uppeldi sitt og fjölskyldusögu og sér bernskuminningar sínar í nýju ljósi. Þetta er persónuleg og sjálfsævisöguleg bók, tilfinningarík og sár á köflum en umfram allt falleg og sáttfús.

Sennilega geta allar mæður gert langan lista yfir allt sem þær hafa sópað undir teppið eða viljað að betur mætti fara í uppeldi barna sinna. Móðir Ragde er hörkukelling, dugnaðarforkur og snilldarkokkur og þrælfyndin í sérvisku sinni. Faðirinn yfirgaf þær mægður sem bjuggu við þröngan kost og áttu stundum ekki fyrir mat en aldrei gafst hún upp heldur var eins og klettur í hafinu. En hún átti afar erfitt með að sýna dætrum sínum ástríki. Allt sitt líf fann hún fyrir „óræðri þrá“ sem hún aldrei fékk uppfyllta, hún þráði að komast burt og eiga annað líf, byrja upp á nýtt (239). Af því varð aldrei, vinnan í plastpokaverksmiðjunni beið hennar ásamt þvottum og matseld. Dregin er upp mynd af sterkri konu sem hafði góðar gáfur og marga hæfileika sem ekki fengu að njóta sín.

Einn þráður bókarinnar snýst um elli og veikindi móðurinnar og þær tilfinningar sem vakna þegar líkaminn fer að gefa sig, minnið verður gloppótt og fólk verður óttaslegið, einmana og hjálparvana. Og þegar kerfið bregst, þegar mamma er ekki lengur manneskja heldur sjúklingur, hluti af kerfi, „eins konar ekki-manneskja“ (134). Þess má geta að Ragde og systir hennar ollu fjölmiðlafári í Noregi þegar þær í blaðagrein afhjúpuðu vanrækslu og vondan aðbúnað aldraðrar móður sinnar á undirmönnuðu hjúkrunarheimili í Ósló.

Silja Aðalsteinsdóttir þýðir bókina afbragðsvel, hlýja, húmor og viðkvæmni frumtextans skila sér algjörlega til lesandans. Titill bókarinnar, Ég á teppi í þúsund litum, á rætur að rekja til ummæla móður Ragde undir það síðasta, en hún ímyndaði sér teppi sem hún gæti sveipað um sig og horfið þannig frá þjáningum sínum. Ævi hennar og örlög minna okkur á þær fórnir sem formæður okkar færðu og hvað við eigum þeim mikið að þakka.

Birt í Kvennablaðinu, 15. ágúst 2015

Svalar seríubækur

Mamma, pabbi, barn er bók númer tvö í svokallaðri Hammerbyseríu eftir sænska rithöfundinn Carin Gerhardsen (f. 1962). Fyrsta bókin er Piparkökuhúsið sem kom út á íslensku 2014 og fjallað var um hér í Kvennablaðinu. Serían samanstendur af átta bókum um erfið og flókin störf harðsnúins lögregluteymis í Hammerstad, í suðurhluta Stokkhólms.

Mamma_babbi_barn-175x272

Carin Gerhardsen er nú einn af þekktustu glæpasagnahöfundum á Norðurlöndunum. Hana hafði lengi dreymt um að skrifa og var tilbúin með handrit að þremur bókum þegar hún loksins herti sig upp í að fara til útgefanda og nú njóta bækur hennar gríðarlegra vinsælda. Undanfarin ár hefur komið bók á ári í seríunni í Svíþjóð, aðeins ein hefur verið þýdd á ensku hingað til (sjá HÉR um norrænar glæpasögur á ensku) en nú eru komnar tvær á íslensku í rennilegri þýðingu Nönnu B. Þórsdóttur.

Gerhardsen er trú hinni skandinavísku spennusagnahefð. Helstu hugðarefni hennar eru dekkri hliðar mannlífsins, undarlegar tilviljanir og hvernig velferðarsamfélagið bregst skyldu sinni á ögurstundu. Sögupersónurnar búa oft við erfiðar fjölskylduaðstæður, yfirþyrmandi einmanaleika, drykkju, heimilisofbeldi og sifjaspell sem leiða þær út á ystu nöf. Í lögguteyminu er einvalalið, hver og ein persóna á sér sjálfstæða tilveru utan vinnunnar með skuggahliðum og erfiðri fortíð  sem blandast við spennuna sem Carin Gerhardsen skapar svo listilega. Fyrirliðar teymisins eru Conny Sjöberg, gamalreyndur jálkur, eldklár, vinnusamur og fljótur að hugsa og Petra Westmann, ung og harðdugleg lögreglukona sem þarf að berjast með kjafti og klóm við karlaveldið í löggunni. Bæði hafa eitthvert sjötta skilningarvit og eru óhrædd við að fylgja hugboði, þetta er sómafólk sem óhætt er að treysta. 

Í Pabbi, mamma, barn eru tvö morðmál í gangi. Ung stúlka er myrt um borð í Finnlandsferjunni, og kona finnst látin og lemstruð í sandkassa en sonur hennar er hætt kominn, yfirgefinn í barnavagni í grennd. En löggan veit ekki að konan á þriggja ára dóttur, Hönnu, sem er alein heima og gríðarleg spenna skapast þegar sjónarhornið er hjá henni. Það er röð tilviljana og óafsakanleg vanræksla sem veldur því að enginn tekur mark á  eða bregst við símtali um að lítið barn sé aleitt heima. Eldri kona sem Hanna hringir óvart í hefur samband við lögregluna en þar á bæ er brugðist við með yfirlæti.  Konunni er misboðið enda finnst henni eins og það sé nú litið á hana sem „ruglaðan gamlingja aðeins sjö árum eftir að hún hafði verið vinnandi háskólaborgari og einn af máttarstólpum samfélagsins“ (209) og tekur til sinna ráða. Það er næstum óbærilegt að fylgjast með því hvernig litla stelpan rambar smátt og smátt nær því að steypast í glötun. Það er umdeilanlegt hversu trúverðug flétta og sjónarhorn Hönnu litlu er, en það er sannarlega óvenjulegur og áhugaverður þráður sem gerir þessa bók sérlega eftirminnilega.

Hammerby-seríubækurnar eru svalar og vel skrifaðar, fjalla um venjulegt fólk í raunverulegum háska og eru gríðarlega spennandi.  Það þarf að gera gangskör að því að þýða þær bækur sem þegar eru komnar út á sænsku í seríunni. Það er ekki hægt að halda út að fá bara eina á ári.

Birt í Kvennablaðinu, 1. ágúst 2015

Nesbö, alltaf í stuði

Einn frægasti glæpasagnahöfundur á Norðurlöndum, og þótt víðar væri leitað, er norski rithöfundurinn Jo Nesbö (f. 1960). Bækurnar um þunglynda lögreglumanninn og drykkjusjúklinginn Harry Hole hafa gert hann heimsfrægan enda glæpasögur af bestu gerð. Í nýjustu bók Nesbö, Blóð í snjónum, kveður við nýjan tón. Harry er víðs fjarri góðu gamni (kannski bara á fylleríi í Hong Kong) og eflaust verða einhverjir lesendur svekktir yfir að fá ekki sinn skammt af honum. Nýja aðalpersónan, Ólafur, er lesblindur leigumorðingi sem „afgreiðir“ fólk, hálfgerður lúser og afspyrnu slakur í stærðfræði. Hann er jafnframt sögumaður að skrifa eigin sögu og skýlir sér á bak við kaldhæðni, gálgahúmor og töffarastæla.

Blod_i_snjonum1-175x287

Hinn nýi tónn Nesbö er áhugaverður og kannski ágætis hvíld frá Harry Hole, bæði fyrir höfund og lesendur. Bókin er stutt og snaggaraleg en það gengur heilmikið á þótt blaðsíðurnar séu ekki margar. Það er engin morðgáta á ferðinni en nóg af blóði og kúlnahríð í bland við pælingar um lífið og tilveruna og vísanir í heimspeki, dýralífsmyndir og heimsbókmenntir. Sagan gerist á áttunda áratugnum, alllöngu fyrir daga gemsa og tölvutækni. Það snjóar vitaskuld endalaust og frostið herðir sífellt meir eftir því sem sögunni vindur fram. Lesendur verða ekki varir við neinar löggur en dvelja þeim mun lengur í huga Ólafs þar sem fortíð hans, og hugsanleg framtíð, raðast smátt og smátt saman og ýmsir glæpir í undirheimum Óslóborgar eru dregnir fram í dagsljósið. Yfir allri sögunni hvílir ísköld íronía, kaldrifjað kæruleysi einkennir Ólaf, þennan undarlega mann sem þó segist vera svo viðkvæmur. Þetta skilar sér mjög vel í afbragðsgóðri þýðingu Bjarna Gunnarssonar, sem tilnefnd er til Ísnálarinnar 2015 en það eru verðlaun fyrir best þýddu glæpasöguna. Bæði hann og Forlagið eiga hrós skilið fyrir að koma bókinni svona fljótt og vel til íslenskra lesenda en hún kom út í Noregi fyrir stuttu.

Blóð i snjónum hefur fengið afar misjafna dóma á Norðurlöndum. Margir segja að Nesbö sé hér í fantaformi, öðrum finnst bókin minna á einfalda stílæfingu, enn öðrum að hún sé leið til að skrifa sig frá Harry sem vissulega er orðinn þaulsætinn og skiljanlegt að Nesbö vilji reyna sig við eitthvað nýtt. Sumir saka Nesbö um að ætla að færa sig yfir í Hollywoodbransann. Sagan minnir á hasarkvikmyndahandrit með tilheyrandi ástarsenum og blóðsúthellingum og heyrst hefur að bíómynd eftir bókinni sé í burðarliðnum.

Nesbö er í góðu stuði, því er ekki að neita. Blóð í snjónum er þrælspennandi og lymskulega vel saman sett og það tekur varla nema kvöldstund að lesa hana. En þeir sem sakna Harrys geta bara lesið einhverja af bókunum um hann aftur, hann stendur líka alltaf fyrir sínu.

Birt í Kvennablaðinu, 26. júlí 2015

Villimenn í vestri

Shirley Jackson (1916–1965) var þekktur rithöfundur í Bandaríkjunum á síðustu öld. Hún var heimavinnandi húsmóðir, stundaði ritstörf sín jafnan heima við og annaðist börn og bú samhliða. Þekktust var hún fyrir gotneskar hrollvekjur sínar sem jafnað hefur verið líkt við sögur eins frægasta hryllingsmeistara fyrr og síðar, Edgars Allen Poe.

Líf á meðal villimanna, sem er nýkomin út á íslensku, er kannski ekki alveg dæmigerð fyrir höfundarverk Shirley Jackson. Engu að síður er bókin mikill fengur fyrir alla sem unna listilegum stíl og heimsbókmenntum.

Ekki þarf að lesa nema fyrstu blaðsíðurnar til að átta sig á því að sögumaðurinn er ekki bara einfaldlega glaðlegur og einlægur í frásögn sinni eins og virðist við fyrstu sýn, heldur lymskulega háðskur og meinfyndinn í lýsingum sínum á daglegu amstri barnafjölskyldu í Vermont um miðja síðustu öld. Hversdagslegir hlutir, eins og t.d. leikir barnanna, prakkarastrik elsta sonarins, ökunám húsmóðurinnar, barátta við skólakerfið, briddskvöld og innkaupaferð með dúkkuvagn, að ógleymdri „Inflúensuráðgátunni“ miklu, verða alveg drephlægilegir. Veruleiki heimavinnandi húsmóður og eiginkonu í úthverfi lítils háskólabæjar er sveipaður hippalegum töfraljóma um leið og gert er góðlátlegt grín að öllu saman. En undir niðri má greina óljósa taugaveiklun, vanmátt og ístöðuleysi húsmóðurinnar sem birtist í því að uppeldið er laust í reipum, krakkarnir leika lausum hala meðan pabbinn er í vinnunni og mamman situr á kafi í drasli og les glæpasögu. Oft er hún alveg út á þekju:

„Ég veit hvernig þau öll líta út, að sjálfsögðu. Hundurinn er með fjóra fætur og er mun stærri en kettirnir, sem virka hvort sem er einsog tvíburar. Drengurinn er óhreinn og er í gauðrifnum bláum gallabuxum. Faðirinn er áhyggjufullur á svip, dálítið yfirþyrmdur einhvern veginn. Eldri dóttirin er stærri en yngri dóttirin, þótt þar sé í gangi flókið kennslaferli, þar sem sú minni er í fötum sem sú stærri var í þar til fyrir skömmu, og þær eru báðar með ljósa lokka og blá augu. En hvað varðar að reyna til dæmis að muna hver tvö af þeim þremur hafa þegar fengið hlaupabóluna og hvert þeirra var bólusett gegn kíghósta, og hvort þau fengu öll þrjár sprautur eða hvort eitt þeirra fékk níu … Þetta ætlar að gera út af við mig“ (113).

imgres

Amerískar kvennabókmenntir í vandaðri íslenskri þýðingu rekur ekki á fjörur okkar á hverjum degi. Líf á meðal villimanna kom fyrst út í Bandaríkjunum 1953. Áður hafði Shirley skotist upp á stjörnuhimininn með smásöguna Lottery sem birtist í The New Yorker. Aldrei hafði blaðinu borist jafnmörg hatursbréf eins og vegna þessarar smásögu sem síðan varð heimsfræg og þýdd á fjölda tungumála, tveir þýðendur hafa m.a.s. spreytt sig á henni á íslensku, þau Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir (1999) og Kristján Karlsson (1957).

Gyrðir Elíasson þýðir bókina undurvel en hann er einstaklega fundvís á merkilegar bækur til þýðingar, bækur sem annars væru utan seilingar, eru óvenjulegar, eftirminnilegar og áhrifamiklar. Eftirmáli hans við Líf á meðal villimanna varpar skýru ljósi á höfundinn, verkið og söguna að baki. Gyrðir segir m.a. að sitthvað í efnistökunum minni á Sálminn um blómið eftir Þórberg Þórðarson „hvað skopstyrk og spennu varðar“ (241), er þá ekki verið að tala um snilldarverk? Ég er ekki frá því, þetta er allavega bók sem enginn bókmenntaunnandi má láta framhjá sér fara.

Birt í Kvennablaðinu 20. júlí 2015