Bókmenntir frá Albaníu rata ekki til Íslendinga á hverjum degi og fæstir þekkja ævaforna tungu, blóðuga sögu og menningu þessa harðbýla lands. Þó kemur eitt merkasta skáldverk tuttugustu aldar þaðan, Hershöfðingi dauða hersins (1963), eftir Ismail Kadaré.
Hrafn E. Jónsson (1942-2003) þýddi söguna úr frönsku og var þýðing hans lesin sem framhaldssaga í ríkisútvarpinu árið 1992. Eftir lát þýðandans var handrit sögnnar týnt en kom nýlega í leitirnar og er loksins komið út á prenti. Þeir sem unna heimsbókmenntum í öndvegisþýðingum þurfa að krækja sér í eintak hið snarasta.
Kadaré (f. 1936) hefur hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga á ferli sínum og oft verið orðaður við nóbelsverðlaunin en ekki hreppt þau enn. Þó er hann nefndur í sömu andrá og Hómer, Gogol, Márques, Orwell og ekki síst Kafka, en er þó „einskis manns eftirherma“ (7). Í verkum hans er vald, pólitík og andóf til umfjöllunar, með sterkum áhrifum frá menningu, söngvaseið og goðsögnum hins stríðshrjáða Balkan-skaga.
Í fróðlegum formála Jóns Guðna Kristjánssonar að sögunni er m.a. greint frá bakgrunni verksins og höfundi þess. Albanía, eitt fátækasta land í Evrópu, varð bitbein stórþjóða í seinni heimstyrjöldinni. Ítalir ruddust þangað með hervaldi en biðu ósigur fyrir skæruliðum í andspyrnuhreyfingu Albana, Þjóðverjar tóku við og þegar heimsstyrjöldinni lauk tók stalínísk einræðisstjórn við völdum. Saga Kadarés snýst um flókið verkefni sem ítalskur hershöfðingi tekst á hendur: að leita uppi jarðneskar leifar landa sinna í ómerktum gröfum víðs vegar um landið og flytja þær heim til syrgjandi ástvina. Vopnaður nafnalista, uppdráttum, tannlæknaskýrslum, skóflu og haka tekur hann til starfa en verður brátt ljóst að þetta er hægara sagt en gert.
Helstu persónur í Hershöfðingjanum eru nafnlausar, s.s. hershöfðinginn sjálfur og þýskur starfsbróðir hans, herpresturinn sem talar albönsku og fullyrðir ýmislegt um sögu og eðli þjóðarinnar, svokallaður sérfræðingur og innfæddir verkamenn. Veðurfarið myndar þokugráan bakgrunn fyrir bjástur persónanna, landið er grýtt, forugt og illt yfirferðar, erfitt reynist að bera kennsl á morkin beinin; allt þetta undirstrikar fáránleika verkefnisins. Og húmorinn er svartur:
„Hann vissi ekki hvað hann ætti að gera og byrjaði ósjálfrátt aftur að lesa listana með vísbendingum og nöfnum og þýðingum innan sviga. Öll þessi nöfn á dölum, skörðum, sléttum, ám og bæjum voru undarleg og helþrungin. Honum fannst eins og allir þessir staðir, hver með sínum hætti, hefðu skipt hinum dauðu á milli sín og nú væri hann kominn til að heimta þá úr klóm þeirra.
Augu hans hvörfluðu aftur að einum listanna. Það var „listi horfinna“ og efst á blaðinu var nafn Z ofursta. „Einn áttatíu og tveir á hæð, hægri framtönn úr gulli,“ las hershöfðinginn. Svo fór hann yfir allan listann. Einn sjötíu og fjórir, vantar tvo jaxla. Einn sextíu og fimm, vantar jaxla í efri kjálka. Einn og níutíu, járnspöng við framtennurnar. Einn sjötíu og einn, allar tennur heilar. Tveir og tíu! „Þessi hlýtur að vera stærstur allra á listanum. Sá stysti er einn fimmtíu og einn. Það veit ég vel. Það er samkvæmt reglunum. Þeir voru yfirleitt hæstir í fjórðu varðliðasveitinni og minnstir í Alpasveitunum…“ (51).
Í fyrstu finnst hershöfðingjanum að hann sé í háleitri sendiför sem hæfi metnaði hans og muni baða hann dýrðarljóma. „Hann ætlaði að þræða grafreitina, kemba alla vígvelli til þess að endurheimta hina horfnu“ (29). En eftir því sem lengra líður verður þrautagangan æ dapurlegri; fjandsamlegt umhverfi, álag, svefnleysi og drykkja taka sinn toll. Góðri trú og geðheilsu hershöfðingjans fer hrakandi eftir því sem hann fær meiri innsýn í þjáningu, grimmd og dauða og það verður sífellt harðsóttara að göfga þetta tilgangslausa traðk í aur og drullu.
„Ég sá fyrir mér alvöruþrungna viðhöfn er við bærum á brott jarðneskar leifarnar og vandræðalegt, reikandi augnaráð Albananna, eins og sakbitið augnaráð ruslaradurga sem hafa brotið ómetanlegan vasa og standa þarna, skammast sín og gjóa augunum á brotin. Við bærum kistur hermanna okkar stoltir í gegnum þvögu þeirra og létum í ljósi að jafnvel dauðir hermenn okkar væru göfugri en líf þeirra. En þegar við komum hingað reyndist þetta allt öðruvísi. Ég þarf ekki að segja yður það. Stolt okkar var það fyrsta sem lét undan og áður en leið á löngu varð ljóst að alvaran hvarf úr þessu líka. Síðasta tálsýn mín fölnaði og nú verðum við bara að halda áfram verkinu meðal almenns afskiptaleysis og hæðnislegra, óskiljanlegra augnagota, aumkunarverðir trúðar stríðsins. Aumkunarverðari en þeir sem börðust hér einu sinni og voru sigraðir“ (166).
Inn í söguna fléttast svo ýmsir þræðir, s.s. um skapferli og örlög albönsku þjóðarinnar, dramatísk dagbók liðhlaupa sem dregur upp beitta mynd af firringu stríðsins, afdrif Z ofursta og nöturleg frásögn um vændiskonur sem vissulega voru látnar legga sitt af mörkum á stríðstímum.
Hershöfðingi dauða hersins er ekki bara saga um gamalt stríð og sársauka, heldur líka um einmanaleika og eilífa firringu. Þýðing Hrafns er hörkugóð. Fjarlægur og hlutlaus stíllinn varpar ljósi á vald í sinni grimmilegustu mynd og nöturleika hernaðarlegs skrifræðis sem nær hámarki í sögulok, afhjúpar vestræna fordóma í garð innfæddra og sýnir fáránlega tilburði til friðþægingar fyrir ofbeldisverk. Enn er stríð um heim allan og eftirköst þess varanleg, enn eru þjóðarmorð framin og réttlætt og fjöldagrafir uppgötvaðar. Ítalski hershöfðinginn er enn á meðal okkar eins og aumkunarverður trúður.
Höfundaútgáfan, 2016
285 bls.
Birt í Kvennablaðinu, 15. desember 2016