Heimssöngvari og átthagaskáld

Gabriel Garcia Marquez Wins Nobel Prize

Marques tekur við bókmenntaverðlaunum Nóbels, 1982 (Getty images)

Einn þekktasti bókmenntajöfur heims, kólumbíski rithöfundurinn Gabriel Garcia Marques, safnaðist til feðra sinna árið 2014, 87 ára að aldri. Marques hlaut nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1982 en hann varð heimsfrægur á einni nóttu fyrir sína fyrstu bók.

Skemmtilegar sögur af skemmtilegu fólki

Suður-amerískar bókmenntir voru heiminum lítt kunnar fyrir hans dag en heillandi og töfraraunsær heimur skáldsagna hans hitti beint í mark á sínum tíma. Í verkum hans er sérkennileg blanda af þjóðlífslýsingum, hefðum og hjátrú, súrrealisma og alþýðuraunsæi; þau ólga af ímyndunarafli sem lætur orð og myndir lifna fyrir augum lesandans og persónur eru litskrúðugar, blóðheitar og meinfyndnar. Allir þekkja liðsforingjann sem aldrei fær bréf og landsmóðurina gömlu, flestir kannast við Flórentínó sem ritar ástarbréf á torginu, Úrsúlu hina harmþrungnu og allir taka fyrir nefið þegar þeir finna þefinn af rotnandi líki Santíagós Nasars. Segja má að Marques hafi opnað nýjar leiðir í skáldsagnagerð á öndverðri 20. öld með því að segja skemmtilegar sögur af skemmtilegu fólki. Helstu þemu verka hans er tíminn og dauðinn, harðstjórn og þjáning; manneskjan í margbreytileika sínum.

Marques sló í gegn með Hundrað ára einsemd, skáldsögu sem fljótlega var þýdd á fjölda tungumála og hefur selst í yfir 30 milljón eintökum um heim allan. Marques óttaðist í fyrstu að geta aldrei aftur náð sömu hæðum á ferli sínum en alls skrifaði hann 15 aðrar skáldsögur, smásagnasöfn og æviminningar og hefur öllum bókum hans verið vel tekið. Guðbergur Bergsson snaraði flestum verkum Marquesar úr frummáli á íslensku af sinni alkunnu snilld og á heiðurinn af því að hafa fært okkur þennan sjóðheita skáldskap hingað í fásinnið.

Heimssöngvari og átthagaskáld

„Marques hefur manna best lýst veruleika Suður-Ameríku. En hann er ekki síður heimssöngvari en átthagaskáld. Í verkum sínum kryfur hann jaðaraðstæður og þversagnir mannlífsins — hvar sem er. Söguhetjur hans eru númer eitt manneskjur. Og erindi hans um „margboðað morð“ á fullt erindi til okkar á tíma kjarnorkuslysa og margboðaðrar gjöreyðingar“, sagði Matthías Viðar Sæmundsson í ritdómi í DV, 22. nóvember 1982. Stjórnmál voru Marques hugleikin um tíma og dró hann ekki dul á andúð sína á einræðisstjórn Pinochets hershöfðingja en studdi hins vegar Castró Kúbuforseta af heilum hug, mörgum til sárrar skapraunar. Víst er að ólíkindatól var hann að mörgu leyti og hundleiður á kastljósi fjölmiðla og hélt sér að mestu til hlés síðustu áratugi.

Í lifanda lífi varð Marques svo mikil bókmenntakanóna að yngri höfundum stóð stuggur af honum og risu gegn skáldskap hans, m.a. hinn magnaði Roberto Bolaño, en skáldsaga hans Verndargripur kom út á íslensku fyrir stuttu. Sumir gengu svo langt að segja að spænskumælandi rithöfundar gætu hvorki notað „Soledad“ né „Cien años“ í skáldverki framar. En hann er nú dauður fyrir nokkru, krabbamein og elliglöp komu honum á kné. Ungskáldin geta óhrædd skriðið fram úr skugga hans og við lesendur heiðrað minningu hins aldna snillings með því að dusta rykið reglulega af af töfrum slungnum skáldsögum hans, ekki síst nú þegar sumarið er í grennd.

Íslenskar þýðingar á verkum Gabriel Garcia Marques:

Fást á næsta bókasafni (heimild: Hugrás, vefrit hugvísindasviðs HÍ):

 • Hundrað ára einsemd, 1978 – þýð. Guðbergur Bergsson
 • Liðsforingjanum berst aldrei bréf, 1980 – þýð. Guðbergur Bergsson
 • Frásögn um margboðað morð, 1982 – þýð. Guðbergur Bergsson
 • Af  jarðarför landsmóðurinnar gömlu, 1985 – þýð. Þorgeir Þorgeirsson
 • Ástin á tímum kólerunnar, 1986 – þýð. Guðbergur Bergsson
 • Saga af sæháki, 1987 – þýð. Guðbergur Bergsson
 • Hershöfðinginn í völundarhúsi sínu, 1989 – þýð. Guðbergur Bergsson
 • Um ástina og annan fjára, 1995 – þýð. Guðbergur Bergsson
 • Frásögn af mannráni, 1997 – þýð. Tómas R. Einarsson
 • Minningar um döpru hórurnar mínar, 2006 – þýð. Kolbrún Sveinsdóttir
 • Nokkrar smásögur í tímaritum – þýð. Ingibjörg Haraldsdóttir, Stefán Sigurkarlsson

 

Birt í Kvennablaðínu, 23. júní 2017

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s