Hljómar það ekki eins og þversögn að ætla að skrifa bók um ritstíflu? Það er nú samt ætlun Sigurðar Guðmundssonar í nýrri bók sem nefnist Musa. Nafnið minnir á grískar listagyðjur en sögumaður tekur til öryggis fram að hún sé þó ekki ein af þeim frægu verum (49) heldur goðumlíkur sköpunarkraftur sem hann þráir og leitar að í dyrum og dyngjum og vonast í örvæntingu til að geti losað um stífluna miklu sem kemur í veg fyrir að hann geti skrifað bók.
Hugmyndir samofnar guðlegum flygsum
Í verkinu er sögumaður ýmist Maðurinn eða ég, í fortíð, nútíð eða framtíð, í gráum hversdagsleika eða súrrealískum og draumkenndum aðstæðum. Eldri maður situr einn á hótelherbergi á 18. hæð á Hainan-eyju í Suður-Kínahafi og gramsar í tölvunni sinni í leit að innblæstri, veltir fyrir sér lífi sínu og list og fær af og til hvatningu frá töfradís úr iðrum netsins sem heitir því hallærislega nafni Hakký. Loks rennur hann saman við Musu sína á óljósum landamærum raun- og sýndarveruleika og lífs og dauða, ritstíflan brestur og hugmyndirnar streyma fram hver annarri betri, samofnar guðlegum flygsum og svifkjörnum.
Það eru margs konar pælingar í sögunni, t.d. um sköpun og stöðnun, list og ljóð, vegsömun konunnar sem skapara og listamanns, um guð, um form skáldskapar og sögumannsrödd. Ætli sögumaður sé alþjóðlegi myndlistarmaðurinn Sigurður Guðmundsson, heimsþekktur fyrir ljósmyndir sínar og óvenjulega gjörninga um hálfrar aldar skeið? Eða rithöfundur sem hann segist þó ekki vera (15) en skrifaði frumleg verk eins og Tabula Rasa (1993), Ósýnilegu konuna (2000) og Dýrin í Saigon (2010); allt bækur sem rúmast illa innan hefðbundinna skilgreininga á skáldsögu, líkt og Musa. Eða er sögumaður aðeins röflandi karl sem feigðin vofir yfir og hvers skáldæð er uppþornuð? Hugsun hans er reikul og hrörnun hans og elli bersýnileg; ístra og fellingar, upphleyptir fæðingarblettir og mjóar vörtur, gisin bringuhár, skalli og lausar tennur (76). Það má kannski einu gilda hvernig hann er, hvað hann er eða var, en hvað vill hann okkur?
Líf án listar er andlaus rotnun
„Ef ég er ekki sískapandi líður mér bara eins og rotnandi kjötstykki. Ég hef alltaf unnið við sköpun og hræðslan við að missa sköpunargáfuna er svolítið dramatísk hjá mér. Ég held að það sé nokkuð algengt að listamenn glími við þetta – það er svo ennþá verra ef þeir eru mjög þekktir“ sagði Sigurður í DV um daginn. Það er erindi hans við okkur: að leggja áherslu á skapandi hugsun, sköpunargáfu, hugmyndir, ferli og fullnægju í að búa til list, að leggja til málanna, nálgast guðdóminn í listinni – algjörlega án predikunar og yfirlætis. En þetta er ekki auðvelt, ritstörfin verða „stefnulaust handritsklór“ sem bera aðeins vott um stöðnun, rotnandi nútíð og framtíðarlaust líf án hreyfingar og útsýnis (19) segir hann á einum stað. Það er vissulega betra að rembast áfram en rotna og lifa andlausu lífi án listar sem er í raun dauði.
Í heild er verkið allsherjar naflaskoðun, kannski sannsögulegt efni á einhvern hátt sem miðlað er með aðferðum skáldskaparins, þó með miklum efasemdum: „En er þetta ekki vitlaus aðferðarfræði, hugsar hann, að vera að grufla í eigin fortíð i örvæntingarfullri von um að finna aftur leiðina til lífsins. Hefur hann þá ekkert lært af þessum línum sem hann skrifaði fyrir meira en fjörutíu árum?
Bál verður ekki kynt
með eigin reyk.
Eins verða verk mín
ekki til að vísa mér veginn.
(43-44)
Lesturinn er þolinmæðisverk
Það verður að segjast að reynt er verulega á þolinmæði og innlifun lesandans í þessu verki. Því ritstíflan endurspeglast svo sannarlega í textanum sem tregðast við og höktir áfram, flatur og tilbreytingarlítill, með krampakenndum rykkjum; hann flæðir ójafnaður hægra megin á blaðsíðunum með furðu lítilli spássíu vinstra megin… Inn á milli seytla fram ágætlega skrifaðir kaflar, eins og af minnisstæðu atviki á Kleppi (60-74) og útlegging á dæmisögunni um Adam og Evu í aldingarðinum (89-98) sem hugsanlega er einhvers konar lykill að verkinu. Svo koma kaflar sem eru súrrealískir og minna á draum eða hálfvökuástand, þar sem sögumaður slæst við ryksugupoka eða er handa- og fótalaus ormur, eða fiskur sem slær til sporðinum og engist fastur í eigin ruglingslega handriti.
Lesandinn engist líka, með engu minni sporðaköstum, nema hann sé þeim mun þolinmóðari og áhugasamari um sjálfsmyndarkrísur og innblásið samband við ást og list.
15. júní 2017
http://www.ruv.is/frett/hofundur-fastur-i-eigin-ruglingslega-handriti