Sárabindi á heiminn

screen-shot-2017-10-11-at-13-34-44

Ný ljóðabók eftir Dag Hjartarson, margverðlaunað ungskáld. Heilbrigð og mannbætandi lesning, segir Steinunn Inga Óttarsdóttir.

Heilaskurðaðgerðin er lítil, sítrónugul ljóðabók eftir Dag Hjartarson (f. 1986) sem hefur skv. tísti skáldsins verið 5 ár í smíðum og kostar 1990 krónur „eins og máltíð á Rikki Chan“. Hún inniheldur 23 tilfinningarík ljóð um ást, sjúkdóm og dauða. Í lengsta ljóðinu, sem ber samnefndan titil, situr ljóðmælandi við sjúkrabeð unnustunnar og hugsar um hvernig pappír, sem dregur í sig orð og tár, getur verið sárabindi á heiminn. Ferlið frá veikindum til bata er klínískt og krónólógískt, sagan er rakin frá því sjúkdómurinn greinist; niðurstöðurnar eru svarthvítar myndir af „brothættu landslagi“ sem vísa dauðanum til vegar (13); að segulómun lokinni er komið inn á skurðstofu og loks tekur við sjúkrahúslega þar sem morfíni er dælt í æð og umbúðum vafið um samansaumað höfuðleður.

Dagur hefur gott vald á myndmáli, það er skapandi og frumlegt en aldrei væmið eða klisjulegt. Dauðar flugur í kirkjuglugga eru myndrænar, sólin hefur þurrkað sálir þeirra upp en „eftir liggja fislétt hylki … eins og stafir í nýju stafrófi / fyrir sálmaskáld“ (18) og minni ömmu raknar upp eins og peysa sem hún prjónaði forðum, mynstrin í lífi hennar hverfa og nöfn verða lausir þræðir (19). Gott dæmi um hátt skáldsins má sjá í eftirfarandi ljóði:

Næturkrem

þú fórst í Kringluna
að leita að næturkremi

og ég gat ekki hætt að hugsa
hvað það væri fallegt
að til væru sérstök krem
úr myrkri
og að einmitt þú
– konan sem ég elskaði –
skyldir hafa þig sérstaklega til
fyrir drauma

(12)

Tungutak og hugmyndir snúast lipurlega um heildstætt þema, þar sem nafnið á heilaæxlinu er eins og óskiljanlegt götuheiti í alsnjóa borg, fjarlægir vitar blikka til viðvörunar og við höfnina standa gámar fullir af depurð.

Ljóðin í Heilaskurðaðgerðinni eru falslaus og huggandi, það er ekki vaðið inn í sársauka og ótta með dramatískum lýsingum eða tilfinningaklámi heldur er merking sköpuð með myndrænum samstæðum og einlægni. Hér er engin beisk ádeila, engin stríð átök við form né efni, en allt gengur leikandi upp því það er talað beint frá hjartanu. Hreinlega heilbrigð og  mannbætandi lesning.

JPV forlag, 2017

36 bls

 

Kvennablaðið, 11. okt. 2017

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s