ljóðabók

Torrek Eggharðs

villimadurheader-688x451
„…hlógum brjálæðislega
hlógum dauðann til okkarföðmuðum hann
því við höfðum skilað pundi
dal, krónu, franka
þrjátíu bókum og tveimur sonum

hlógum líf okkar
í sátt

elskan mín
ég þarf ekki að sjá þig eldast
og þú ekki mig
það er svo gott

þú ætíð ungur
ég þér alltaf ung
okkar band
eilíft sumar…“
(14)

 

Í þessu broti úr ljóðinu Panþeon í nýrri ljóðabók Þórunnar J. Valdimarsdóttur tengjast ást, sorg og söknuður á hárfínan og fallegan hátt. Ljóðabókin, sem ber heitið Villimaður í París, er tileinkuð eiginmanni Þórunnar, Eggerti Þór Bernharðssyni. Hann lést sviplega á gamlársdag 2014, „síðasta virka dag árs og lífs“. Hér er því á ferð eins konar torrek „Eggharðs“, þar sem skáldið yrkir sig í þá sátt sem möguleg er, líkt og önnur höfuðskáld forðum eins og frægt er orðið.

Minnisbók og myndavél

Ljóðin tengjast sumardvöl þeirra hjóna í París vorið 2013 þar sem þau rölta grunlaus um götur með minnisbók og myndavél, skoða söfn og sögustaði og virða fyrir sér fjölbreytilegt mannlíf. Ljósmyndir Eggerts prýða ljóðabókina og þær eru einlægar; hvorki fegraðar né fótósjoppaðar. Einnig eru í bókinni kraftmiklar pennatússteikningar eftir Þórunni sjálfa sem byggja á hringformum og fuglsmyndum.

Aldrei staðnað orð

Þórunn hefur margsinnis sýnt að hún hefur tungumálið fullkomlega á valdi sínu. Það sannast enn í þessari bók, í myndmáli, orðaleikjum og frumlegu rími. Ljóðin fjalla ekki bara um sorg og söknuð, sum eru um íslensku sem er „helgust tungna,“ það dugar ekki að hringla með hálflærðar tungur í munninum (37) og varðveita ber íslenskuna sem getur svo auðveldlega dáið út. Ljóðið …í mánaskinibirtir þessa afstöðu skýrt en það hljóðar svo: „yndi að heyra / litla leyniklúbbnum til / íslenskunni / teygi mig djúpt inn í blámann / bak við prentsvertuna / holdtekjur bregða á leik / í bragðasekk lífsins / allt skilur eftir far/ slíttu bara ekki / grunntaugina“ (41).

Dýpt og gáski

Í meðförum Þórunnar fá orðin dýpri merkingu og gáskafullt samhengi, hún þvær „útskitin eðalorð“ (50), skolar af þeim gróm aldanna. Dæmin eru ótal mörg en vert að nefna nokkur sem skína: að skilja eftir hóffar í hundaskít (55), ástin er ljósfluga og sæhestur (51), þokkaskötur og góðhveli (32), mannsamlokur (22) og glös melrósanna (19). Meðan tungumálið er dustað svona hressilega þarf kannski ekki að óttast framtíð þess.

Hestafl sorgar

Eitt af síðustu ljóðum bókarinnar er Hestafl sorgar, gullfallegt og persónulegt og svo sárt að nístir í merg og bein. Sá sem les það þurreygur hefur steinhjarta.

„tólf hestar
frá Breiðabólstöðum
steinbæ Þórunnar ömmu
héldu til heljar rétt fyrir jól
um ístjörn Bessastaðatólf ára systir Snorra á Húsafelli
tekin af Furhmann amtmanni
drukknaði í sömu tjörn
á átjándu öld

„boðar ófögnuð“
sagði ég við Eggharð
sem sat í prestastól
að greiða sítt hár sitt
blautt grásprengt slegið
kvöldið áður en hjartað sprakk

síðasta virka dag árs og lífs

bað um hárblásara
fyrsta og eina sinn
honum var kalt

fagur í kistunni
höfðinginn minn
hefur tólf með til Valhallar
óminnisdjúpið þangað
sannlega dó hann
á vígvelli pennans

sama draumsæi sér
hvernig hann rotnar
við hvítblátt sængurlín
franskar liljur

sorgin sá svarti fnykur
kom úr Faxaflóa
hvítu hryssanna
að sturla mig

Sleipnir
hentist með mig
heim í hjarta lífs
sem er sterkara
en dauðinn“
(75-6)

Hver er villimaður?

Villimaður í París er yndislesning, heildstæð og harmræn blanda af sársauka og sátt. En hver er villimaðurinn? Er það Íslendingurinn sem villist milli fornfrægra kastala og konungshalla sem hvergi er að finna á eyjunni hans? Býr hann í frumeðli mannsins og stingur í stúf í háborg siðmenningarinnar? Eða er sá villimaður sem veit ekki að dauðinn er skammt undan?

Kvennablaðið, 14. júní 2018

 

Ofurfínlegt lítið ljóð…

komdu

fylltu hús mitt litum heitum

hlæjandi litum

kyntu rauðan eld brenndu mig

 

ein skínandi perla

ein stund af lífi

handan hversdagsleikans.

 

Langt úr fjarska yljar hann nú

unaður þess sem aldrei gerðist.

segir Unnur Eiríksdóttir í ofurfínlegu litlu ljóði, Úr fjarska, sem engu að síður segir margt um kvæðalag hennar. Sannleikurinn er sá að yrkisefni, orðfæri hennar má ekki verða rómantískt um of (Jónsvökudans, Logar), þarf á að halda efnivið verulegrar reynslu og tilfinningalífs til að takast til hlítar. Ekki lætur henni heldur alls kostar að yrkja út af „vandamálum“ heims og mannlífs, pólitískum tilefnum (Martin Luther King, Lúmúmba, Víetnam) þótt hún freisti þess í þriðja þætti bókarinnar, ljóðum sem i sjálfu sér eru allvel gerð.

Ólafur Jónsson (1936-1984), fjallaði um ljóðabók Unnar Eiríksdóttur, Í skjóli háskans (1971), í Vísi, 1. febrúar 1972 og sagði henni í leiðinni aðeins til.  Ég velti hins vegar fyrir mér hvað það er sem er ofurfínlegt og lítið í þessu samhengi, þetta er reyndar ekki ljóð eftir Unni heldur brot úr þremur ljóðum hennar. Svo heldur hann áfram:

„Unnur Eiríksdóttir hefur áður birt skáldskap, Ijóð og sögur, í blöðum og tímaritum, og ein skáldsaga eftir hana held ég að hafi komið út, Villibirta, árið 1969. Sú bók fór framhjá mér á sínum tíma. En Ijóð hennar, Í skjóli háskans, er einkar viðfelldinn lestur, vandaður og smekklegur texti það sem hann nær: Unnur reynist einn af þeim höfundum er maður hefur af lauslegan pata úr blöðum en kemur reyndar á óvart í bókarlíki.“

Unnur (1921-1976) sendi svo frá sér smásagnasafnið Hvítmánuð 1974 sem fékk litla sem enga umfjöllun. Helstu yrkisefni Unnar eru konur, samskipti, sambönd, frelsi og tilvist.

Hún þýddi m.a. Friedrich Durrenmatt, Jean Paul Sartre og Colette.

Hér má lesa þrjú ljóð eftir Unni og smásöguna Konan og dagurinn, sem birtist í 19. júní 1976.

Screen Shot 2018-03-04 at 10.34.54

Unnur Eiríksdóttir

 

 

Yfir Áfallaheiðina

lox_hallgrim_16-03-_732349y

Hallgrímur Helgason mynd: Librarius

Í skáldverki eftir Hallgrím Helgason býst maður alltaf við miklu stuði. Von er á orðaleikjum sem hann er meistari í, þær systur tvíræðni og kaldhæðni eru mættar, óvæntu sjónarhorni er beitt t á hvunndaginn, húmorinn er bullandi, ádeilan sjóðandi, nýyrði og níðyrði hvert um annað þvert og allt þetta leysir úr læðingi góðan fíling. Í nýju ljóðabókinni, Fiskur af himni, má finna þetta allt á sínum stað, auk nýmetis.

Laus undan fargi

Skáldævisaga Hallgríms Sjóveikur í Munchen, sem út kom 2015 og fjallaði um fortíð, minni og tilurð skálds, olli fjaðrafoki m.a. vegna þess að þar segir hann frá því þegar honum var nauðgað sem „Ungum Manni“. Kauði komst að því að heimurinn var ekki bara gelgjuraunir, bólur og bömmer; hann var beinlínis hættulegur. Hallgrímur skilaði skömminni með látum þrjátíu og fimm árum síðar, þá var gríman felld, sár reynsla afhjúpuð og töffaraskapurinn laut í lægra haldi. Um leið birtust ný svipbrigði hjá skáldinu, mildari rödd og hreinni tónn sem þegar tók að klingja í síðustu ljóðabók, Lukku, sem Hallgrímur orti óbundið eins og laus undan þungu fargi.

Í sjávarháska

Nýja bókin, Fiskur af himni, 03.11.2014-03.11.2015, samanstendur af ljóðum ortum á þessu tiltekna tímabili, í tímaröð og án titils en merkt dögunum sem þau verða til á. Hér er róið á dýpri og persónulegri mið en nokkurn tímann áður í verkum Hallgríms en „úthafshljóð“ trillan lendir í miklum sjávarháska. Framan af er þó hversdagsleg ró yfir ljóðunum, árstíðir koma og fara, góðar fréttir berast og lífið gengur sinn vanagang. Í ljóðinu frá 28.11.14 má sjá dæmi um kunnuglega, póstmóderníska nýyrðasmíði Hallgíms og smellnar myndir, s.s. „verkþögul amma, að feta kynslóðann, grjótþunguð hlíð, hamrablár frændgarður, frá tólgartíð, hríðarhali, stríðniguðir…“ Ljóðin eru einföld og skýr, myndræn og sposk.

07.07.15

Strandarefur skýst upp úr fjörunni

og skoppar upp urðina

brúnn með hvítan hala

Einmitt þannig dröttumst við

með veturinn í eftirdragi

alltof langt inni í sumarið

(63)

01.01.15

Á nýársdagsmorgun í nýföllnum snjó

geng ég fram á huggulegt lítið flugslys

svartrjúkandi brunaþúst

í bómullarmjöllinni miðri

Rek síðan augun

í yfirsnjóuð fótsporin í kring

og man að einmitt hér

er brotlendingarstaður hins liðna

Hé koma eyjarskeggjar saman

til að fylgjast með árunum farast

ég greini rjúkandi kolin

af ap jún sept nóv

(37)

Frá sorg til sáttar

En þann 26.9.15 skipast veður í lofti. Áfall dynur yfir, lítið barn deyr og skáldið þarf að leita á náðir ljóðsins til að lægja öldurnar í huga sér. Yrkja sig frá reiði og sorg til sáttar. Ljóðin miðla þessum sterku tilfinningum af djúpri einlægni hins sorgmædda manns, „dauðinn er svo lélegur / í líkindareikningi / Svo ömurlega lélegur“ (85) og með orðsnilli skáldsins: „Við setjum undir okkur hausinn / og látum gömul húskarlagen / vísa okkur veginn / yfir Áfallaheiðina“ (88). Það er litla barnið; andvana fætt og varalitað af óvini lífsins (90), sem er eins og fiskur af himni, kaldur og heimtur úr hafi. Fiskum hefur rignt af himni í raunveruleikanum, kvikmyndum og skáldskap, það hefur hugsanlega óljósa, táknræna eða yfirnáttúrulega merkingu en er fyrst og fremst ógnvekjandi atburður og tilgangslaus sóun.

Tíminn og ljóðið

Í næstsíðasta ljóði bókarinnar hefur skáldið ort í átt að hægum bata. Sálarró og viska þess sem hefur reynt margt birtist í ljóðlínum eins og „Bernskan er blóm / sem blómgast í skugga / og þolir verst þá birtu / sem bjó hana til“ (11) „Listin er líf okkar / með augum annarra“ (12), „Allir foreldrar eru hálfvitar / þeir halda að börn séu börn“ (57) og „Því lengst það lifir / sem lítið deyr“ (97). En að lokum er vitnað í fleyg orð Vilborgar Dagbjartsdóttur sem eiga einkar vel við:

Lífið er stærra en dauðinn

og dregur sig aðeins í hlé

rétt á meðan hann athafnar sig

en flæðir síðan

þeim mun kröftugar fram

í allri sinni miskunnarlausu

ofanjarðargleði

En það að vera harmþrunginn

eða sorgbitinn

er ekki það sama

og að vera óhamingjusamur

(101)

Fyrir réttum tuttugu árum sló Hallgrímur um sig í hinu skammlífa tímariti Fjölni með frasanum fræga: „ljóðið er halt og gengur með hæku.“ Hann er sjálfur kominn ansi nálægt hefðbundnu yrkisefni og sígildu ljóðmáli, hallur undir einfaldleika og formleysi, en þó aldrei „geðleysi“. Í Fiski af himni birtist persónuleg, yfirveguð og notaleg hlið á Hallgrími. Í einlægum ljóðum segir frá hvunndagslífi sem skyndilega fer á hvolf, þema sem allir geta tengt sig við. Og eru nokkur meðul betri við sorg en tíminn og ljóðið?

 

Birt í Kvennablaðinu, 15 nóv 2017


Beittur kjarninn stendur einn eftir

„Í ljóðheimi Kristínar er ekkert eins og maður heldur,“ segir Steinunn Inga Óttarsdóttir, gagnrýnandi, um nýjustu ljóðabók Kristínar Ómarsdóttur, Kóngulær í sýningargluggum.

Þurfum við á ljóðum að halda? Hafa ljóðskáld sérstöku hlutverki að gegna í samfélaginu? Eiga þau að yrkja til að létta fólki lífið, benda á fegurðina, leika sér með tungumálið, hugga og líkna?  Eða eiga þau að bægja frá okkur áhyggjum og kvíða, halda valdi og ofbeldi í skefjum? Er samt ekki langbest að ljóðið sé stillt, smart, hnyttið, krúttlegt, ekki of djúpt, ekki of flókið eða óskiljanlegt? Eiga ljóðskáld yfirleitt nokkuð erindi við valdhafana, samborgarana, lesendurna, mig persónulega með öllum þessum litlu og snyrtilega hönnuðu ljóðabókum sem koma út á nokkurra ára fresti í takmörkuðu upplagi? Hver má annars vera að því að lesa ljóð, er ekki alltaf brjálað að gera? Jú, það er vangefið mikið að gera, en það er svo mikið hjal og fjas og síbylja í gangi; hjakk, klisjur og frasar; merking orða er útjöskuð og margtuggin. En þannig er ljóð nefnilega ekki, þegar vel tekst til. Þess vegna lifir það, þess vegna þurfum við á því að halda. Og þá snúum við okkur að ljóðabók sem gæti breytt heiminum okkar.

Ekkert froðusnakk

Feril Kristínar Ómarsdóttur, ljóðskálds og rithöfundar með meiru, hófst með látum fyrir sléttum 30 árum með ljóðabókinni Í húsinu okkar er þoka sem hún gaf út sjálf og leikritinu Draumar á hvolfi sem sigraði í leikritasamkeppni Þjóðleikhússins 1987. Síðan þá hefur hún verið afkastamikil á sviði bókmennta, skrifað skáldsögur og ljóðabækur auk leikrita, m.a. fyrir útvarp, og smásagna og hlotið margvíslega viðurkenningu fyrir verk sín sem eru einkar frumleg og hafa alveg sérstæðan karakter.

Áttunda og nýjasta ljóðabók Kristínar heitir Kóngulær í sýningargluggum og er knálega ort og myrkt, ekkert léttmeti eða froðusnakk frekar en fyrri daginn og við fyrstu sýn er erfitt að átta sig á hvað þessir brotakenndu og furðulegu textar eiga að merkja. Bókin skiptist í 5 hluta, einn þeirra heitir „úr dagbók“, og er að sögn höfundar persónulegur bálkur, en í heild eru ljóðin í bókinni tæplega sextíu. Þau fjalla um samtíma, samhengi og samfélag; eru myndræn, táknþrungin og brjóta upp hið viðtekna. Þau falla ekki að hefðbundnum væntingum um samband orða og hluta og eru þess vegna torskilin  og áleitin og ofan í kaupið fáránlega fögur á einhvern seiðandi hátt.

Hverdagslegt klukkulíferni

Hefðbundin sjónarmið er hvergi að finna í þessari bók né stirðnað orðalag eða kunnuglegar myndir. Við sjáum krakka þræða saman varirnar með nál og tvinna, hafmeyjar með glerbrjóst stinga hausnum uppúr sjónum, himinninn er svangur og tannlaus, trúnaðarmaður stafrófsins segir kvöldfréttir og herskip flytja peysur og sokka til landsins. Fremst í bókinni eru einkunnarorð þar sem lesanda er boðið að líkamnast upp á nýtt áður en stigið er inn í launhelgar kóngulónna sem syngja í fyrsta ljóði bókarinnar, sem er svo fallegt þegar Kristín les það:

(hlustið! Viðsjá, 9.október 2017)

Þarna er tónninn sleginn, með undarlegum orðum, endurtekningum, furðum og óvæntum atburðum. Lesandinn er staddur á stað þar sem allt getur gerst en sýningarstjóri er við völd.  Stað þar sem við erum vélmenni og líkneski og setjumst til borðs í dúkkuhúsi, hjakkandi í hversdagslegu klukkulíferni; verðir spenna boga og miða á okkur og lögreglan innsiglar eldhúsið, það eru yfirheyrslur og handtökur og við erum dregin fyrir dómara, við snyrtum hugarfarið og rekjum upp hugsanirnar til að komast af. Þetta er ansi drungaleg sýn, eiginlega óhugnanleg og leiðir hugann að distópíum eins og í Sögu þernunnar (Handmaids Tale) og 1984 þar sem firringin og valdið hafa náð yfirhöndinni yfir mennskunni.

Vélræn kerfi

Boðskapur, myndmál og hugmyndafræði Kóngulóa í sýningargluggum smella inn í samfélagsumræðuna nú um stundir þegar verið er að draga valdið í efa, rýna í skrifræðisleg ferli og vélræn kerfi, þegar venjulegt fólk ræðst til atlögu ef réttlætiskennd þeirra er misboðið. Það er hamrað á fátækt, óréttlæti og grimmd í þessum ljóðum, myndmálið tengist líkamlegu ofbeldi og kvöl; höfuð eru afskorin, fingur klipptir af, flísar standa í augum, fingur er brotnir, gubbað í skál, þjáningin hverfur ekki, rýtingur er rekinn i hjartað. „Herra dómari“ er fulltrúi valdsins og honum er sama þótt mjólk renni úr geirvörtum utangarðskonunnar (54). En hvað getur maður sosum gert annað en skrifað dagbók, gert leikfimiæfingar, keypt í matinn (93); verið kónguló sem hniprar sig í sýningarglugga þar sem er ekkert líf, ekkert skjól. Það er þó örlítil vonarglæta, rétt á meðan „byltingarstelpur“ kasta eggjum í veggina, næst kasta þær í andlitin.

Bölsýnn lambaleggur

Ef við gefum ljóðunum tíma og alúð opnast þau og tengjast á margvíslegan hátt með endurtekningu bæði orða, mynda og hendinga, eins og vefur. Orð eins og „glerbrjóst“ kemur fyrir í nokkrum ljóðum, óvenjulegt orð og undarleg hugmynd sem vekur margvísleg hughrif. Orð og fyrirbæri tengd valdi, þ.e. yfirheyrsla, lífverðir, leikbrúða, lögregla, herskip og vegabréfsáritun, eru hér og þar í gegnum bókina. Endurtekningarnar skapa tilfinningu bæði fyrir heild og vélrænum takti. Tvö ljóð í röð heita „kveðja“, hér er dæmi um frumlegar myndir sem láta mann ekki í friði, sérkennilegan húmor og óvænt samhengi:

„hönd hvílir á diski
glös standa vörð við sorgardúk
einnig logarnir sem með hraði eldast, gestirnir kveðja

höndin á diskinum minnir bölsýnan á lambalegg
höndin á diskinum minnir bölsýnina á lambalegg

svo fagurt snerti hún snitturnar – bleiku kökurnar
svo fagurt snerti hún snitturnar – bleikar kökur

sósan teiknar varir á dúkinn

ég gaf hönd mína fyrir málsverð
hugsar skuggavera klædd döprum fötum
kápufóðrið: grátmúrinn

hve langa stund það tekur því að kveðja
hugsar fylgdarkonan og stingur augunum í vasann, brýtur saman eyrun
notar varirnar í kossa á mjúkar kinnar úr hörðnuðu regni

skuggarnir, eins og farartækin úti, sameinast regninu

ekki skilja mig eftir
hvíslar höndin væri hún ekki stödd hér heldur í ljóði“ (45)

 

Ljóð eins og „Hindranir yfirstignar, við vélmennin , yfirlýsing, boðflenna, ilmur“; ég vildi geta lesið þau öll hér en það er víst fleira efni í þættinum.

Og hvað er „minnisflís“? Allavega, hlutskipti skáldsins:

„moldin geymir orð sem ólíkt mér þekkja vitjunartímann

hinar ólíku árstíðir

þau stinga sér upp úr jörðinni í þessari bók

sofa í öðrum

tíminn er naumur

mér ber að huga að moldinni

sem ég er búin til úr

bregðast við éljum, sólskini, regni – “

(85)

Eitt ljóð heitir „gluggakistur“, og kveikir hugrenningar um hvernig má borga reikningana þegar allt um þrýtur, hvernig allt er falt og sá sterkari neytir yfirburða sinna. Og ljóðið „kústaskápur fasistans“ má túlka sem svo að byltingin éti börnin sín og hvernig alltaf má snúa á valdið. Óhugnaður er alltaf yfirvofandi í þessum ljóðum, þjáningin er alls staðar, endalaus og sjálfvirk. Í ljóðinu „handtaka“ tala veggir,  innilokunarkenndin er yfirþyrmandi, það er engin undankomuleið.

 

„næst tóku veggirnir mig höndum

til varnar hagsmunum þínum

kallaðu okkur virkið

mæltu veggirnir og þrengdu að höfði mínu

múmíu úr spýtum og brestum

haustflís gætir mín“ (56)

Í ljóðum Kristínar hefur allur óþarfi verið skorinn burt, það er skerpt á stökum orðum sem stingast upp af blaðsíðunum, bara kjarninn stendur eftir, gljáandi og beittur og lesendum er látið eftir að kljúfa hann. Stundum er lykil að túlkun að finna í titli ljóðs en hann getur líka verið villuljós. Í ljóðheimi Kristínar er ekkert eins maður heldur, ekkert er víst nema þar má búast við alls konar usla og undrum.

Viðsjá, 9.október 2017

Sárabindi á heiminn

screen-shot-2017-10-11-at-13-34-44

Ný ljóðabók eftir Dag Hjartarson, margverðlaunað ungskáld. Heilbrigð og mannbætandi lesning, segir Steinunn Inga Óttarsdóttir.

Heilaskurðaðgerðin er lítil, sítrónugul ljóðabók eftir Dag Hjartarson (f. 1986) sem hefur skv. tísti skáldsins verið 5 ár í smíðum og kostar 1990 krónur „eins og máltíð á Rikki Chan“. Hún inniheldur 23 tilfinningarík ljóð um ást, sjúkdóm og dauða. Í lengsta ljóðinu, sem ber samnefndan titil, situr ljóðmælandi við sjúkrabeð unnustunnar og hugsar um hvernig pappír, sem dregur í sig orð og tár, getur verið sárabindi á heiminn. Ferlið frá veikindum til bata er klínískt og krónólógískt, sagan er rakin frá því sjúkdómurinn greinist; niðurstöðurnar eru svarthvítar myndir af „brothættu landslagi“ sem vísa dauðanum til vegar (13); að segulómun lokinni er komið inn á skurðstofu og loks tekur við sjúkrahúslega þar sem morfíni er dælt í æð og umbúðum vafið um samansaumað höfuðleður.

Dagur hefur gott vald á myndmáli, það er skapandi og frumlegt en aldrei væmið eða klisjulegt. Dauðar flugur í kirkjuglugga eru myndrænar, sólin hefur þurrkað sálir þeirra upp en „eftir liggja fislétt hylki … eins og stafir í nýju stafrófi / fyrir sálmaskáld“ (18) og minni ömmu raknar upp eins og peysa sem hún prjónaði forðum, mynstrin í lífi hennar hverfa og nöfn verða lausir þræðir (19). Gott dæmi um hátt skáldsins má sjá í eftirfarandi ljóði:

Næturkrem

þú fórst í Kringluna
að leita að næturkremi

og ég gat ekki hætt að hugsa
hvað það væri fallegt
að til væru sérstök krem
úr myrkri
og að einmitt þú
– konan sem ég elskaði –
skyldir hafa þig sérstaklega til
fyrir drauma

(12)

Tungutak og hugmyndir snúast lipurlega um heildstætt þema, þar sem nafnið á heilaæxlinu er eins og óskiljanlegt götuheiti í alsnjóa borg, fjarlægir vitar blikka til viðvörunar og við höfnina standa gámar fullir af depurð.

Ljóðin í Heilaskurðaðgerðinni eru falslaus og huggandi, það er ekki vaðið inn í sársauka og ótta með dramatískum lýsingum eða tilfinningaklámi heldur er merking sköpuð með myndrænum samstæðum og einlægni. Hér er engin beisk ádeila, engin stríð átök við form né efni, en allt gengur leikandi upp því það er talað beint frá hjartanu. Hreinlega heilbrigð og  mannbætandi lesning.

JPV forlag, 2017

36 bls

 

Kvennablaðið, 11. okt. 2017

Ofurseld

Eins og ég er nú lítil ljóðakelling… ofurseld ljóðum Kr.Óm.

 

„amma þín skuldaði sjónvarpinu pening og þú erfðir skuldina

sast hlekkjuð fyrir framan tækið en óskaðir þér að liggja hjá mér

og tókst sjálfsmynd á myndavélina og sendir systrum þínum

og mér og ég lagði ljósmyndina hjá gleraugunum á koddann

klæddi mig úr sokkunum og sofnaði – vært – eins og safngripur“

(51)

Bölsýnn lambaleggur

iceland-poet338x450

Kristín Ómarsdóttir, mynd: http://www.ralphmag.org/GW/reindeer-woods.html

Er að böggla saman ritdómi fyrir rúv um ljóðabók Kristínar Ómarsdóttur, Kóngulær í sýningarglugga. Þetta er kvöld númer þrjú sem ég sit við að skrifa, helaum í öxlinni og að auki hrollkalt þar sem ofnarnir eru í ólagi í húsinu. Mig vantar bara berkla og óendurgoldna ást til að uppfylla staðalmyndina. Það er nógur efniviður í amk 20 síðna ritgerð um Kóngulærnar. Er stórhrifin af þessu til dæmis:

hönd hvílir á diski

glös standa vörð við sorgardúk

einnig logarnir sem með hraði eldast, gestirnir kveðja

 

höndin á diskinum minnir bölsýnan á lambalegg

höndin á diskinum minnir bölsýnina á lambalegg

 

svo fagurt snerti hún snitturnar – bleiku kökurnar

svo fagurt snerti hún snitturnar – bleikar kökur

 

sósan teiknar varir á dúkinn

 

ég gaf hönd mína fyrir málsverð

hugsar skuggavera klædd döprum fötum

kápufóðrið: grátmúrinn

 

hve langa stund það tekur því að kveðja

hugsar fylgdarkonan og stingur augunum í vasann, brýtur saman eyrun

notar varirnar í kossa á mjúkar kinnar úr hörðnuðu regni

 

skuggarnir, eins og farartækin úti, sameinast regninu

 

ekki skilja mig eftir

hvíslar höndin væri hún ekki stödd hér heldur í ljóði

(45)

 

 

 

Náttmyrkrið

3367923

Treystu náttmyrkrinu

fyrir ferð þinni

 

heitu ástríku

náttmyrkrinu

 

Þá verður ferð þín

full af birtu

 

frá fyrstu línu

til þeirrar síðustu

 

Sigurður Pálsson, 1948-2017

(Ljóð muna rödd, 2016)
Mynd: bokmenntaborgin.is

Fram þjáðir menn í lekum bússum

Hreistur_kapa_prent.inddEf nefna ætti einhvern sem hefur gert íslenskum farandverkamanni almennileg skil í ljóði og myndum, kemur Bubbi Morthens auðvitað fyrst upp í hugann. Töffarinn sem birtist í sjávarþorpinu troðfullur af dópi og hassi og þrælaði sólarhringum saman í akkorði við fiskvinnu. Hann tilheyrði rótlausum verkalýð sem fór pláss úr plássi þegar vantaði fólk í uppgripavinnu í frystihúsum, loðnubræðslum, á togurum eða dagróðrabátum; ílentist hvergi, passaði hvergi. Þetta var áður en fiskveiðikvótinn varð eign sægreifanna með þeim afleiðingum sem allir þekkja.

Farandverkamaðurinn og minningar úr sögu þjóðar eru efniviður ljóðabókar Bubba sem nefnist Hreistur. Bókin sem er tileinkuð fóstru hans og helsta bókmenntapáfa landsins, Silju (Aðalsteinsdóttur) inniheldur 69 nafnlaus og númeruð ljóð og umgjörð þeirra er sjö vökunætur þar sem fortíð vitjar mælandans sem „flæktur í vetrarkvíða“ (1) „fangar ljósfælin botndýr hugans“ (35).

Já, frystihúsið, færibandið og farandverkamaðurinn, allt er það nú gott og blessað en höfum við ekki heyrt þetta allt áður hjá höfundinum? Jú, hrognin eru að koma og ef ég drukkna, drukkna í nótt skjóta upp kolli í Hreistri, þetta þema hefur fylgt Bubba frá upphafi ferils hans seint á síðustu öld og er vörumerki hans. En einhvern veginn hefur hann alltaf lag á að endurnýja sig, koma ferskur inn. Og þetta er harðvítugt efni sem er ekki tæmt, bitur reynsla sem enn á eftir að vinna úr. Vísanir í fyrri verk búa til stemninguna, lesandinn setur sig í stellingar, kominn aftur í tímann, mættur upp á verbúð eftir langa vakt í hvítum stuttermabol með hlandvolgt vokda í kók.

Fiskverkafólkið hírist í fjórtán köldum og subbulegum herbergjum á verbúðinni sem „lykta af fiski, brundi, slori, rakspíra“ (1). Þetta er munaðarlaust, menntunarlaust og skeytingarlaust fólk (3) sem vekur hálfgerðan óhug meðal þorpsbúanna. Sjávarplássin eru í uppgangi á þessum tíma, símstöðin og kaupfélagið á sínum stað, það er næg atvinna og útgerðin blómstrar og það er ball í landlegum. En afturhvarf til hreistraðrar fortíðar er hvorki nostalgískt né fegrað. Þetta er harður heimur sem einkennist m.a. af ofbeldi og vímuefnaneyslu, eins og sjá má í ljóði sem dregur upp mynd af hópnauðgun á verbúðinni; atvik sem brenndi sig í minni ljóðmælandans. Heyrum skáldið fara með ljóð nr 27.

Bubbi les ljóðið 11.23-13.02        http://www.ruv.is/frett/eg-vard-vitni-ad-brutal-naudgun

Ljóðið er grípandi og áhrifamikið. Bubbi hefur sjálfur valið það til upplestrar víða enda smellpassar það inn í þá vaxandi umræðu um kynferðisofbeldi fyrr og nú sem á sér stað í samfélaginu. Í ljóðinu er lýst hinum sundurleita hópi fólks sem dvelur á verbúðinni; krúttlegur prófessor og kona sem segir sögur við „varðeld fiskanna“ en skrýmsli liggur í leyni; ofbeldi á sér stað, eins og „fjólublátt armband“ ber vott um; það er glæpur í gangi og það að hafa ekkert aðhafst hvílir á samviskunni árum saman.

Myndmálið úr mal Bubba samanstendur oftlega af kunnuglegum eignarfallssamsetningum, eins og „ískaldir fingur vetrarins“ og „langir armar myrkursins“. En í Hreistri eru líka ljóðmyndir sem ganga vel upp og eru nýmeti, hressilega jarðtengt og alveg séríslenskt. Ég tíni hér til nokkrar slitrur:

„langir fölgrænir veggir með / blóðblettum vínblettum leifum af uppköstum / voru okkar kjarval (1)

stelpurnar / allar þessar sölkur / með hníf í hendi og hárið frjálst (15)

í þúsund fokkera fjarlægð

var borgin sem við höfðum flúið

(40)

ríkistónlistin barst frá hátalara sem hékk niður úr loftinu

torfbæjarraddir fluttu dánartilkynningar

og jarðarförin var fyrr en varði komin inn til okkar

(40)

fram þjáðir menn í lekum bússum

(53)

sjóveikt viðundur

í óráðinu ljómaði hafið í sökkvandi raunveruleika

spýjan skall á gólfið

hálfmeltar hugmyndir um sjómennskuna

skoluðust eftir þilfari fyrir borð

(62)

Ljóð nr 16 finnst mér gott, líka nr 40, 44, 55. Og að lesa nr 65 er eins og að koma í heimahöfn, það er framlenging á frægasta lagi Bubba sem gaulað er í öllum betri partýum. Hreistur boðar ekki nýjungar í skáldskap, það eru engin átök við form eða efni en vel er farið með. Hreistur er heldur ekki pólitísk bók, það er engin reiði eða ádeila á ferð í þessu uppgjöri heldur stafar einlægni af ljóðunum og jafnvel örlar á viðkvæmni. Hörkuleg ímynd töffarans með stálið og hnífinn hefur dignað og velkst af boðaföllum í lífsins ólgusjó.

Alexandra Buhl annaðist hönnun og umbrot Hreisturs sem er alltof fíngert og nostursamlegt og í hróplegu ósamræmi við hrátt og blautt innihaldið. Og ég verð að segja, sem fyrrum frystihúsgella, að ég hef á tilfinningunni að hreisturgrafíkin sem prýðir bæði bókakápu og blaðsíðurnar snúi öfugt.

 

Víðsjá, 7. sept 2017: http://www.ruv.is/frett/adeilunni-skipt-ut-fyrir-einlaega-vidkvaemni

 

 

„Ritstýra forlagsins glennti út klofið“

Bjarni Bernharður er mörgum kunnur fyrir ljóðabækur sínar sem hann hefur mestmegnis gefið ötullega út sjálfur. Í árslok 2014 kom út heildarsafn og úrval ljóða hans, Tímasprengja. Myndskreytt af honum sjálfum.

Timasprengja

Ekki fer á milli mála að ljóðmælandi er víðast Bjarni Bernharður sjálfur enda rödd hans sterk og einlæg í öllum ljóðunum. Eins og titill bókarinnar gefur til kynna er tíminn honum hugleikinn.

Horft er um öxl til þeirra daga sem voru myrkir í lífinu og hann er fullur þakklætis fyrir að hafa komist heill frá „náttglöpum“, „heimi blæðandi myrkurs“ og „sýrunóttum“. En fram undan eru bjartir tímar, kyrrlátt ævikvöld í góðum friði við guð og menn við að skapa og njóta lífsins. Bjarni Bernharður hefur víða sagt frá lífshlaupi sínu sem er skrautlegt og einkennist m.a. af ofbeldi, geðveiki og fíkniefnaneyslu. Hann segist þó vera gæfumaður og „hamingjuhrólfur“ og horfir sáttur um öxl: „fleyi siglt / til víkur / við ljúfan / sálarbyr/ útlit fyrir sálarfrið“ (84).

Þjóðfélagsrýni er snar þáttur í ljóðagerð Bjarna Bernharðs. Sem dæmi mætti nefna ljóðið Þjóðlíf sem fjallar um misrétti, græðgi og andlega tómhyggju í þjóðarvitundinni (206). Mörg önnur ljóð eru á svipuðum nótum, þau einkennast af ríkri réttlætiskennd og innilegri von um jöfnuð og bræðralag. En þau hitta ekki í mark vegna þess að í ádeiluljóðum Bjarna er margnotað myndmál sem ekki hefur neitt nýtt fram að færa, þar birtast hriktandi stoðir þjóðarbúsins, hagkerfi í molum, skuldafen, blóm í byssukjafta o.s.frv. Það vantar ferska hugsun, frumleg efnistök og hið óvænta í ljóðin.

En Bjarni er svellkaldur og yrkir ótrauður um lífsins tafl, múra einsemdar, hug sem sveiflast eða flýgur, vor lífsins, akur lífsins, aldingarð ástarinnar og orð á hvítri örk eins og það hafi bara aldrei verið gert áður.

Menningarstig þjóðarinnar, einkum staða bókmennta, er áberandi þema í ljóðum Bjarna Bernharðs. Hann hefur löngum verið utangarðsmaður í skáldskapariðkun sinni og hvorki hlotið náð fyrir augum bókmenntaelítunnar, gagnrýnenda né útgefenda. Þess bera nokkur ljóð glögg merki og stundum tekur reiðin öll völd:

„Ritstýra forlagsins glennti klofið / og sagði: komiði, komiði strákar / með póstmódernísku skaufana …“
(129). Þá fær bókmenntaþátturinn Kiljan kaldar kveðjur í ljóðinu Herra og frú Egilz sem er algerlega grímulaust beint að Agli Helgasyni, umsjónarmanni þáttarins (132-133). Eitt ljóðið heitir Gagnrýnandinn og endurspeglar vægast sagt lúna klisju:

Harmar mjög
sitt lífshlaup
skúffuskáldið.

Ungur
átti sér draum
um sigra á bókmenntasviði.

Í dag
leigupenni
blautlegur bókarýnir
á morgunblaði

hjávillu sinni trúr.
(198)

Bókina prýða málverk Bjarna Bernharðs sem eru litrík og skemmtileg. Á bókarkápu lýsir hann því yfir að hann ætli nú að snúa baki við ljóðagerð og sinna myndlist og ævisagnaritun framvegis. Gott og vel.

Birt í Kvennablaðinu 10. júní 2015