Það er ekkert sérstakt sem skarar fram úr í íslenskri skáldsagnagerð i ár, ekkert sem greip mig heljartökum, af því sem ég hef lesið. Ekki laust við að örli á makindalegu hiki og íhaldssemi í skáldskap góðærisins. Ég hafði gaman að Stofuhita eftir Berg Ebba, þar er tíðarandinn speglaður, hugmyndirnar viðraðar, samfélagsmiðlarnir rannsakaðir og sitthvað fleira í einhvers konar sjálfsmyndar- og þjóðfélagsstúdíu um kjöraðstæður manneskjunnar í flóknum og hættulegum heimi. Svo er ég í stuði fyrir torræðar og dularfullar ljóðabækur þessa dagana, svo Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttur og Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur eru nærtækar. Ljóð þeirra beggja eru djarfleg, gagnrýnin og fersk.