Öndvegis sjálfshjálparbók

738858

Mynd: mbl.is

Það liggur eitthvað í loftinu. Menn eru að verða svo meyrir og nostalgískir, menn horfa til baka, gera upp líf sitt, kafa ofan í uppeldið, ástina, eineltið, fátæktina, fíknina og skömmina, hjónabandið, geðveikina, dauðann. Og pæla í hvernig varð ég nú skáld, ballettdansari, prestur  eða róni – hvað gerði mig að því sem ég er?

Tilhneiging sjálfsverunnar til að gera upp fortíðina birtist víða í skáldverkum samtímans, í ljóðum, sjálfs-/skáldævisögum, myndlist og kvikmyndum. En það er ekki oft sem sjálfsævisaga er ekki skrifuð að sjálfinu, af þeim sem sagan snýst um. Ég verð að viðurkenna að það ergði mig dulítið í fyrstu að handleika Þúsund kossa, (sjálfs)ævisögu Jógu eftir Jón Gnarr. Af hverju er karl að skrifa fyrir konu? Er þetta enn eitt dæmið um karl sem tekur efni konu, sögu hennar og ljóð, og býr til prentunar, raðar upp, skrifar formála og athugasemdir og klippir burt eða bætir í að eigin geðþótta eins og svo mörg dæmi eru um úr bókmenntasögunni? Jóhanna Jóhannsdóttir, sem alltaf er kölluð Jóga, hefur orðið í bókinni og segir frá hverju klandrinu á fætur öðru í lífi sínu en Jón, eiginmaður hennar, skráir og er höfundurinn. Er Jóga dáin eða mállaus? Er hann búktalari fyrir Jógu? Hvað er málið?

Jóga segir: „Ég veit ekki mikið um bækur. Ég hef ekki lesið margar bækur og aldrei skrifað bók, en ég hugsaði sem svo að kannski gæti hann farið í gegnum þetta með mér með því að skrifa söguna“ (272).

Nú nú, allt í lagi, gefum þessu sjens, Jón er fínn rithöfundur og textasmiður og styður við bakið á konu sinni. Sagan hefst á notalegum árum í Kópavoginum þar sem Jóga elst upp, hress og opin, soldið fiðrildi og krútt, hæfileikarík og sjálfstæð stúlka. Þeir kaflar eru léttir og ljúfir og mesta furða hvað hægt er að búa þar til úr litlu efni. Í fyrri hluta bókarinnar er lesandinn búinn undir að Jóga muni reka sig harkalega á í tilverunni, sakleysi hennar og trúnaðartraust mun sannarlega tortímast.

Nítján ára gömul fer Jóga sem au pair til New York, lendir þar í alvarlegu bílslysi 1981 og tilveran fer á hvolf. Eftirmálin eru með mestu ólíkindum, allt klúðrast sem klúðrast getur og Jóga snýr aftur heim, niðurbrotin og skömmustuleg. Það er fyrst núna, þrjátíu og fimm árum síðar, sem hún kastar af sér byrðum áralangrar sjálfsásökunar og skoðar hlutina í nýju ljósi.

Það kemur á daginn að Jón Gnarr er hvergi nálægur í þessari bók, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Honum tekst afar laglega að halda sjálfum sér utan við söguheiminn og skrásetja frásögnina án þess að troða Jógu um tær. Hann (eða þau?) skapa trúverðugan og viðkunnanlegan sögumann, sem í senn er „Viking Woman“ og „óttalegur njóli“. Ung og hrekklaus verður Jóga fyrir alvarlegu áfalli, staulast síðan um með brotna sjálfsmynd, fótsár og vegmóð af illsku heimsins. Þetta er vel gert og nærfærnislega í bókinni og ekki annað hægt en finna til samúðar og samkenndar með stúlkunni í öllum hremmingunum.

Það sem kom fyrir Jógu í Ameríku er viðkvæmt mál en í bókarlok tekur hún saman hvaða mark þessi erfiða reynsla hefur sett á hana. Skömmin er stór hluti af afhjúpuninni og uppgjöri við fortíðina. Það þarf mikið hugrekki til að opinbera það sem maður hefur blygðast sín fyrir alla ævi en það er líka léttir. Saga Jógu er um svikið sakleysi en hún fjallar líka um fyrirgefningu; um það að geta fyrirgefið sjálfum sér.

Jóga segir: „Ég veit ekki alveg ennþá hver tilgangurinn með þessari bók er. Kannski er einhver frekari heilun fólgin í því fyrir mig að koma þessari reynslu frá mér. Kannski styrkir það mig að hafa gengið í gegnum þetta upprifjunarferli. Ég veit það ekki enn. Kannski getur saga mín hjálpað öðrum á einhvern hátt, gefið styrk eða von. Ég vona það af öllu hjarta“ (281).

Ég er viss um að skrifin skila einhverju góðu fyrir hana og Jón. Lesendur munu áreiðanlega hafa gaman af bókinni; dúndrandi eitís-fílingnum, heiðarleikanum, hugrekkinu og uppgjörinu; og jafnvel draga af henni nokkurn lærdóm enda er þetta öðrum þræði öndvegis sjálfshjálparbók. En ég velti fyrir mér hvort það sé alveg bitið úr nálinni. Er Jóga tilbúin að bera höfuðið hátt eða ætlar hún að standa að baki Jóni, hinum vel skrifandi karli? Það eru nokkrar myndir í bókinni úr einkasafni en engin almennileg mynd af Jógu, á bls 180 er mynd af þeim hjónum þar sem sést ekki framan í hana og á bókarkápunni heldur hún fyrir andlitið.

Víðsjá, 30 nóv 2017

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s