New York 2018

40784975_962754867249447_2694152149201321984_n

Í New York er stöðugur straumur alls konar fólks sem sinnir erindum sínum á þönum með kaffimálið sitt og litlar handtöskur,  rýnir í símann og þrýstir hvítum heyrnartólum inn í eyrun á sér. Í septemberbyrjun eru allir léttklæddir, hitinn úti er yfir 30 gráður en í búðum og á veitingastöðum er hrollkalt. Hótelherbergið er pínulítið og loftræstingin í gangi allan sólarhringinn, útsýnið yfir í næsta vegg. Allt er dýrt, matur og drykkur á svipuðu verði og á Íslandi þegar skattur og þjórfé er talið með. Og allt kostar sitt, í fótsnyrtingu kostar aukalega að pússa mikið sigg, það kostar meira að fara hærra en 86. hæðir í Empire State, það kostar 4 dollara að leysa út pakka sem geymdur er í lobbýinu og það bætist skattur við allt verð sem gefið er upp.

Central Park iðar af lífi, þar er ekki amalegt að setjast niður með kaffimál og krósant og virða fyrir sér aðra ferðamenn, hlaupara, betlara, barnafólk og bóhema. Bókasafnið við Bryant Park er risastórt og glæsilega hannað, í garðinum þar er Makbeð á fjölunum. Alls staðar í borginni er eitthvað um að vera og raðir myndast við mátunarklefa og kassa í búðum, á söfnum og veitingastöðum. Allir eru glaðir og vinalegir í viðmóti, brosa og heilsa: How are you today?

Söfnin eru frábær, td MOMA, hið ofursmarta Guggenheim og Whitney (ekki Houston). Og  stórskemmtilegt var að skoða Tenement Museum við Orchard Street sem hýsir leiguíbúðir frá síðustu áratugum 19. aldar þegar innflytjendur, aðallega Gyðingar frá Austur-Evrópu og Rússlandi, tóku að streyma til lands tækifæranna. 6-8 manns bjuggu í 30 fermetra íbúð, án gass og rafmagns, og íbúðin var jafnframt vinnustaður þar sem 3-4 sátu við klæðskurð, sauma og pressun frá morgni til kvölds.

Á Metropolitan safninu var sýning að nafni Heavenly Bodies sem var stórfengleg. Hún snýst um áhrif kaþólskrar trúar og myndlistar á fatahönnun nútímans. Áhrifamikið og fallegt, tónlistin dásamleg.

 

Í Guggenheim var yfirlitssýning á verkum svissneska listamannins Alberto Giacometti  (d. 1966) sem var gaman að skoða. Einnig var í litlum sal sýning á list ungra asískra nútímalistamanna og þar var frábært vídeóverk eftir Wong Ping (f. 1984); eins konar Tómas Jónsson í Hong Kong.

Í MoMa var sérlega gaman að skoða sýningu á verkum Bodys Izek Kingeles (d. 2015), Bodys. Hann er afrískur listamaður og skúlptúrar hans eru líkön af byggingum, innblásin af afrískri list, friðarást og fjörugu ímyndunarafli.

 

 

Alls staðar var góður viðurgjörningur, matur fallegur og bragðgóður, drykkir dásamlegir. Í NY er allt í fjöri og vexti, allt er stórt, dýrt og magnað, amk það sem snýr að ferðamanni. Hún er heimsborg fyrir lengra komna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s